trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 01/04/2014

Sjarmi mölkúlunnar

Eftir Guðmund Andra Thorsson

Facebook er kaffihús. Og það er margt um manninn á svona stað. Við sitjum hvert við sitt borð og mösum, ráfum á milli, þrösum, skensum, brosum og bullum. Sumir hlamma sér niður við borðið hjá manni og eru með háreysti og skæting, annað fólk er kurteist og skemmtilegt; sumar rekja ættir; kunnugleg er týpan „Fullur á Facebook“; sumir læka allt af takmarkalausu örlæti síns anda; aðrir búa til hálfgerð furstadæmi kringum persónu sína og verða nokkurs konar lækóhólistar. Sumir bera út sögur, aðrir sitja, óáreittir og spakir. Í raun og veru erum við flest heima í náttfötunum, með lappir upp á borði, að horfa á sjónvarpið, geispandi.Guðmundur Andri

Því það er svo misjafnt sem…
Og sumum liggur reiðinnar ósköp á… Sem sé: Facebook er kjaftaklöpp og ég var þar um daginn að tala um Tómas Guðmundsson við Hannes Hólmstein. Tilefnið var bráðskemmtileg umfjöllun Kiljunnar um skáldastyttur bæjarins, og voru þar höfð eftir Tómasi Guðmundssyni orð eitthvað á þá leið að fátt væri raunalegra en baksvipurinn á Steini Steinarr á leið upp Bankastrætið. Rifjaðist þá upp vísa sem Steinn gerði um hinn miðaldra skáldbróður sinn, nokkurn veginn á þessa leið: „Hér situr Tómas skáld með bros á brá, / bjartur á svip sem fyrsta morgunsárið. / Ó hve mig vinur tekur sárt að sjá, / að sálin skyldi grána fyrr en hárið.“

Ég hafði numið söguna fyrir meira en þrjátíu árum af Óskari Halldórssyni íslenskufræðingi og einni fegurstu ljóðarödd síðustu aldar. Samkvæmt þeirri sögu var þetta í fimmtugsafmæli Tómasar, 1951, og hripaði Steinn niður vísuna og lét miðann ganga til afmælisbarnsins, niður allt háborðið, svo að allir mættu lesa. Hannes hafði hins vegar skráð söguna þannig – og vill að sú gerð sé „hin rétta“ – að þeir Steinn og Dósóþeus Tímótheusson hafi setið á Hressó, sama ár, og Tómas þar nærri á öðru borði og Dósa orðið að orði: Hér situr Tómas skáld … en Steinn gripið það á lofti og prjónað við vísuna, sem var lítillega öðruvísi hjá Hannesi, en ekki þannig að sá orðamunur skipti máli. Hannes hafði svo eftir Matthíasi Johannessen, sameiginlegum vini þessara skálda, að Tómas hafi aldrei fyrirgefið vísuna.

Það er trúlegt – og kannski það trúlegasta við söguna, enda eigum við sjaldnast að trúa hagyrðingum þegar þeir þykjast mæla vísur sínar af munni fram eftir að hafa legið yfir þeim heima.

Raunverulegur íhaldsmaður
Ekki leið á löngu áður en Hannes var kominn á Volgubakka og farinn að tala áminnandi um Stalín eins og hann væri eitthvað á mínum vegum, en ég var farinn að bölsótast yfir því hvað hann þættist alltaf vita allt betur en annað fólk. Eins og gengur. Við höfum öll okkar kæki.

Hitt er umhugsunarefni að ólíkar útgáfur okkar Hannesar ættu að vera þjóðfræðingum og bókmenntafræðingum dæmi um það hvernig munnleg geymd starfar. Ólíkar gerðir fara eftir þeim sem segir hverju sinni en þó einkum þeim sem hlustar – hverjum sagan er ætluð. Í minni gerð (sem mér finnst sennilegri) er Tómas niðurlægður frammi fyrir broddborgum Reykjavíkur af því Reykjavíkuskáldi sem enn árið 2014 þykir ekki nógu fínn til að fá af sér styttu eða minningamark af einhverju tagi. Í gerð Hannesar situr Steinn með Dósóþeusi, sem var að minnsta kosti ekki til broddborgara talinn, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið; Steinn er þar í allt öðrum og „lægri“ félagslegum aðstæðum og í kompaníi við hæfi og árásin verður einhvern veginn meira eins og níðskáldahjal um skáld sem situr á sínum hefðartindi.

Hannes taldi að Tómas hafi verið viðkvæmur á þessum árum vegna þess að kommúnistar hafi gert harða hríð að honum af því að hann studdi vestræna samvinnu. Ég svaraði því til að Tómas hafi verið viðkvæmur fyrir vísunni af því að hann hafi verið orðinn úreltur, hafi lifað sjálfan sig og lokast inni í sínum afmarkaða skáldskaparheimi.

Sagði ég – í hita leiksins – þarna á Facebook, í náttfötunum, með annað augað á syfjulegum glæpaþætti og hitt á rúminu. Þetta kann svo sem að vera rétt hjá mér – þannig lagað – en hitt yfirsást mér, að fyrir skáld er til margt verra en að vera „úrelt“ eða inni í eigin skáldskaparheimi. Mörg skáld yrkja mörg sín bestu ljóð eftir að þau eru dottin úr tísku, frjáls undan því að vera „sál tímans íklædd máli“, þurfa ekki lengur að túlka og tjá almenna tilfinningu tíðarandans fyrir tilteknum málum og hugsjónum.

Þannig var það með Tómas fimmtugan, árið 1951. Hann var kannski Reykjavíkurskáld, en það var þá sem smábæjarskáld – borgin með sínum skarkala og taktfasta háska er ekki mikið í hans ljóðum, þetta voru meira lóur að spígspora um í Vatnsmýrinni. Ljóð hans höfðu vissulega sjarma en það var sjarmi mölkúlunnar. Og einmitt þá í byrjun sjötta áratugarins gaf hann út sína bestu bók: Fljótið helga, þar sem hann hættir að þykjast vera Reykjavíkurskáld en leitar heim í sveitina sína, hina klassísku íslensku sveit okkar allra sem fjárplógsmennirnir fá vonandi aldrei að eyðileggja. Hann yrkir um Sogið, hyllir Jörðina, fuglana, vatnið, náttúruna – lífið – og skammar mennina fyrir stríðsbrölt sitt og skemmdarverk á sköpunarverkinu út af skammtímagróða; sannur náttúruverndarsinni sem Hannes Hólmsteinn mætti gjarnan taka sér til fyrirmyndar um hvernig sómakær og raunverulegur íhaldsmaður hugsar.

 

Guðmundur Andri Thorsson, 31. mars 2014

1,362