trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 26/04/2014

Ósigrar herða mann, ef þeir verða ekki of margir: Willy Brandt (II)

Eftir Þröst ÓlafssonWilly Brandt 2

Metorð í Berlín

Árin hans í Berlín (1946-1966) voru, eins og hann sagði síðar, bestu ár ævi hans. Þau einkenndust þó af röð ósigra meðan hann var að komast til metorða innan Jafnaðarmannaflokksins í borginni. „Ósigrar herða mann, ef þeir verða ekki of margir“ sagði hann.

Hann verður yfirborgarstjóri 1957. Síðan taka við viðburðarík ár. Hann er kosinn á Sambandsþingið í Bonn, þótt áfram sé hann borgarstjóri. Hann verður fljótt gagnrýninn á stefnu Jafnaðarmannaflokksins (SPD) sem greiðir atkvæði gegn fastari bindingu sambandsríkisins í sameiginlegar stofnanir vesturveldanna, svo sem NATO.

Á flokksþingi í Hamborg árið 1950 lagði Brandt fram tillögu þess efnis að Sambandsríkið gengi í Evrópuráðið. Af liðlega 400 þingfulltrúum greiddu fimm fulltrúar með en sex sátu hjá, aðrir sögðu nei. Þarna voru á ferðinni átök milli yngri manna og þeirra eldri, sem engin skref vildu stíga sem gerðu sameiningu Þýskalands erfiðari.

Fyrsta stóra atvikið í opinberu pólitísku lífi Brandt gerist í nóvember 1956, skömmu eftir uppreisnina í Ungverjalandi. Þann 4. nóvember ruddu sovéskir skriðdrekar götur Búdapest, fangelsuðu, sendu til Síberíu eða tóku af lífi alla sem þeir töldu hafa tekið þátt í uppreisninni.

Það kvöld söfnuðust um eitt hundrað þúsund manns saman við ráðhús vesturhluta Berlínarborgar. Að loknum útfundinum vildi hópur æstra ungmenna marsera til austurhlutans og halda fundinum áfram þar. Willy sárbað fólk um að fara heim, storka ekki sovétvaldinu. Hluti fólksins hélt þó rakleiðis til Brandenborgarhliðsins og vildi austur yfir. Willy tókst með miklum og erfiðum fortölum að hindra það, en fór sjálfur fyrir göngu til vesturs að rússneska minnismerkinu. Hann kom þar, að flestra mati, í veg fyrir blóðbað og hernaðarátök enda launuðu Berlínabúar honum þetta með hreinum meirihluta í borgarstjórnarkosningum.

Helmuth Schmidt sagði að Brandt hefði náð að snerta sálir fólksins í þessum átökum. Hann sagði jafnframt síðar að hann hefði á þessum árum fús viljað ganga í gegnum hvaða eld sem væri með Willy.

Brandt náði, eftir nokkrar árangurslausar tilraunir, loks kosningu í framkvæmdastjórn SPD (hvenær?). Hann ásamt Schmidt og fleirum tók til við að vinna að nýrri stefnuskrá fyrir SPD, sem endurspeglaði betur þann raunveruleika sem þjóðin bjó við. Þessi stefnuskrá fékk síðað nafnið Godesberger-prógrammið frá 1959, sem leysti af hólmi gamla marxískt-mótaða stefnuskrá.

Brandt Time 1959Nýja stefnuskráin bar sterk höfundareinkenni Willy Brandts, svo sem í utanríkismálum sem og þess lýðræðislega sósíalisma sem hann skrifaði um forðum daga í útlegðinni.

Múrinn reistur

Sömu ákveðni, yfirvegun og forustu sýndi hann eftir að Berlínarmúrinn var reistur í ágúst 1961.

Bygging múrsins markaði djúp spor í pólitíska hugsun Brandts. Honum varð ljóst sitt eigið getu- og valdaleysi til að hindra þetta, en varð jafnframt fyrir miklum og varanlegum vonbrigðum með vilja- og athafnaleysi vesturveldanna. Sú fjarlægð hvarf aldrei.

Atburðir þessara ára gerðu ítrustu kröfur til yfirborgarstjórans, bæði líkamlega og pólitískt. Þau kölluðu fram alla helstu kosti hans sem ræðumanns. Hann náði feikna tökum á fjöldafundum. Sá sem þetta skrifar var einn af liðlega einni milljón þátttakenda í útfundi 1. maí 1962, þar sem Brandt talaði. Hann stjórnaði viðkvæmum hughrifum á útfundinum eins og hljómsveitarstjóri á tónleikum.

Hann varð kanslaraefni SPD í sambandsþingkosningum 1961 en beið ósigur þrátt fyrir allgóða atkvæðaaukningu. Honum leið afar illa eftir þennan ósigur, lagðist í depurð og vonleysi. Það hvarflaði að honum að leggja árar í bát, hætta. Þrátt fyrir andstreymi hefst hann handa sem borgarstjóri Berlínar að móta nýja pólitíska stefnu. Hann spurði sig hvernig mætti milda sársauka aðskilnaðar hundruð þúsund borgarbúa sem áttu ættingja hinum megin við múrinn. Þá gerir hann samkomulag við austurþýsku stjórnina um ferðaleyfi fyrir vestur-Berlínarbúa til örstuttra heimsókna austur yfir.

Síðan kemur stefnuyfirlýsingin um „Breytingar með nálgun.“ (Wandel durch Annährung) 1962/63. Árið 1964 er hann svo kosinn formaður SPD eftir margar árangurslausar tilraunir. Hann er formaður flokksins þar til árið 1987 þegar hann, uppgefinn og þrotinn kröftum, segir af sér. Enn einn ósigur hans í lífinu, kannski sá tilfinningahlaðnasti.

Enginn hefur verið svo lengi formaður í 150 ára sögu SPD. Hann var síðasti alþýðuleiðtogi þessa gamla flokks. Enn á ný (1965) býður hann ósigur sem kanslaraframbjóðandi SPD. Hann verður fyrir þungum vonbrigðum og brotnar niður í framhaldi. Fer síðan í uppgjör við sjálfan sig. Spyr sig til hvers hann hafi verið að ganga í gegnum allar þessar ærumeiðingar og allt þetta mótlæti og ósigra. Hann kemst að þeirri þunglyndislegu niðurstöðu, að líf hans hafi ekki verið annað en röð ósigra og bakslaga, en jafnframt að það gildi að gefast aldrei upp, standa ætíð aftur á fætur. Halda áfram.

Í Bonn

Það eru utanaðkomandi aðstæður sem gera það að verkum að hann stendur síðla þessa árs frammi fyrir því að stjórn kristilegra (CDU) og jafnaðarmanna (SPD) er í burðarliðnum. Hann verður utanríkisráðherra í stjórninni. Hann fer til Bonn með tvö ósigra á bakinu. Þeir fylgdu honum stöðugt eins og langir skuggar. Sem utanríkisráðherra fór hann að undirbúa nýja utanríkisstefnu sem síðar fékk nafnið Ostpolitik. Í september 1969 er kosið til sambandsþingsins og mánuði seinna er hann kosinn kanslari af þinginu í samstjórn jafnaðarmanna og Frjálsra demókrata (FDP). Útlaginn svívirti er kominn á toppinn. Lengra varð ekki komist.

En hvað hafði þetta kostað hann ? Ef öllum er gefinn ákveðinn forði af lífsþrótti, þá hafði þessi maður, þegar hér var komið sögu, nánast tæmt forðabúr sitt, þó ekki nema hálf sextugur væri. Kosninganóttin er síðasta útkall krafta hans. Nú verður hann að láta þá útslitnu krafta sem eftir voru duga. Honum tekst þetta um nokkurn tíma, umlukinn afar hæfum ráðherrum og tryggum vinum. Að lokum getur hann ekki meir. Þá kastar hann hanskanum af frekar ómerkilegu tilefni og segir af sér kanslaraembætti. En við erum enn ekki komin svo langt.Brandt kanslari

Þegar Brandt verður kanslari er Vestur-Þýskaland búið að ná sáttum við fyrrum andstæðinga í vestri. Þar höfðu ekki verið nein djúpstæð landamerkja- eða þjóðernismál sem leysa þurfti úr. Í austri blasti við gjörólíkur arfur frá Hitler. Þar hafði hvarvetna verið skilin eftir sviðin jörð og milljónum manna verið útrýmt. Rússar voru hernámsþjóð sem semja þurfti við. Brandt var er ekki kanslari nema í tæp fimm ár. Á þessum tíma nær hann að ná sáttasamningum við öll þau lönd í austurhluta Evrópu, sem Hitler hafði misþyrmt hvað mest og þar sem einnig blæddi úr sárum í eigin landi, vegna þvingaðs flótta og mikils landamissis austan Elbu. Hann gekk aldrei þessu vant ótrauður og fumlaust til verka. Hann óttaðist hvorki óvinsældir né að þetta mistækist. Hann var sannfærður um að þetta yrði hann að gera.

Sagt hefur verið að þetta hafi verið meistaraverk þýskra stjórnmála. Þessi sáttagjörð gjörbreytti andrúmslofti í Evrópu. Hún leiddi til þess að hræðslan við Þjóðverja fjaraði hægt og bítandi út, þótt ekki fæli þetta í sér neina fyrirgefningu fyrir ódæði nazista. Ekkert eitt atvik hafði sterkari áhrif á heimsbyggðina, en þegar Willy Brandt kraup á kné fyrir framan minnismerkið um Gettóið í Varsjá, sem nazistar jöfnuðu við jörðu og myrtu íbúa þess. Þar kraup kanslari sem ekki þurfti að biðjast fyrirgefningar á eigin verknaði eða því að hafa setið aðgerðarlaus hjá.

Brandt PóllandHér eru ekki aðstæður til að tíunda einstaka áfanga í Ostpólitík ríkisstjórnar Brandts. Meginn kjarni hennar var að Þjóðverjar viðurkenndu ríkjandi landamæri í Evrópu og skuldbundu sig til að beita aldrei hervaldi til að breyta þeim landamærum sem seinni heimstyrjöldin skildi eftir sig. Þeir viðurkenndu jafnframt tilvist DDR, án þess að viðurkenna það formlega sem sjálfstætt ríki.

Til sátta

Samningarnir drógu verulega úr spennu kalda stríðsins, þótt enn væru síðustu átökin eftir. Skipting Evrópu í tvær andstæðar fylkingar varð smám saman tímaskekkja. Erfitt er að sjá fyrir sér þá þróun sem varð í Evrópu 1988/91 og sem leiddi til falls Berlínarmúrsins, endaloka á skiptingu Evrópu og hruns Sovétríkjanna, án sáttagerða ríkisstjórnar Willy Brandts. Framlag hans til þeirra atburða var ósmátt. Megin stef ríkisstjórnar Brandts í innanlandsmálum kom fram í setningu sem sumir segja að sé mikilvægasta setning þýskra eftirstríðsstjórnmála: „Við ætlum að hætta á meira lýðræði.“ Þessi orð voru hluti af ræðu Brandts, þegar hann flutti fyrstu stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar.

Þegar hér var komið sögu taldi stór hluti þýskrar æsku, einkum námsfólk, að stjórnarhættir landsins bæri meiri keim að arfi nazismans en vestrænu lýðræði. Þar tók hann til hendinni. Fjölmargar endurbætur á mörgum sviðum samfélagsins voru samþykktar. Til þeirra töldu m.a. lágmarks eftirlaun, sérstök lög um verkmenntun, ný fyrirtækjalöggjöf, lög um eignamyndun o.s.frv. Ríkisstjórnarþátttöku jafnaðarmanna lauk 1982, þegar vantraust á hana var samþykkt. Á undan höfðu gengið hörð átök um staðsetningu miðdrægra bandarískra eldflauga með kjarnaoddum, sem andsvar við sambærilegum flaugum austan tjalds. Þar hefur sagan kennt okkur að Brandt var á rangri hillu og í andstöðu við fyrri afstöðu sína. Hann sem formaður SPD lenti upp á kant við Helmuth Schmidt kanslara flokksins og setti sig uppá móti málinu, sem leiddi til falls ríkisstjórnarinnar.

Afsögn Brandts

Enn er það svo, að fram á okkar daga skipar þessi kanslaratími Willy Brandts, þótt stuttur væri, sérstakan sögulegan sess í hugum Þjóðverja. Ástæða þess skýra sig best með orðum Brandts sem hann sagði í sjónvarpsviðtali 1988 er hann var spurður, hvað hann sjálfur sæi sem mesta árangur sinn í stjórnmálum. „Að hafa átt þátt í því að í heiminum, sem við lifum í, er nafn lands okkar, Þýskaland, og hugtakið friður aftur sagt í sömu andrá án hiks.“ Það er ekki lítið afrek. Sættir til friðar var arfleifð hans.

Eftir tveggja og hálfs árs kanslaratíð féll fjárlagafrumvarp stjórnarinnar á jöfnu. Hann framkallaði vantrausttillögu og lét ráðherrana skrópa á þingfundinn. Þar með var vantraustið samþykkt. Hann sigraði í kosningum sem á eftir fóru. Hann hafði lagt sig allan fram og meira en það. En þessi sigur var einnig upphafið að falli hans,því eftir það seig allt á ógæfuhliðina. Forðabúrið hafði verið tæmt, kraftar hans þrotnir. Hann var búinn að vera vegna  dæmalausra persónulegra og pólitískra ósigra, sem hann þurfti að þola frá barnæsku. Búinn að vera vegna stöðugra óhróðursherferða gegn honum og búinn að vera vegna óheilinda í eigin röðum. Hann sagði af sér 6. maí 1974. Tilefnið var frekar ómerkilegt, en afsögnin varð honum afar þungbær. Afdrifaríkasti ósigur hans um ævina og sá sem hann jafnaði sig aldrei af.

Eftir afsögn sína sem kanslari, heldur hann þó áfram sem formaður jafnaðarmannaflokksins allt til ársins 1987. Þá verður hann undir í atkvæðagreiðslu um heldur ómerkilega mannaráðningu. Þá var mælirinn fullur. Hann lagði sprotann á púltið og þar með formennskuna. Enn einn sársaukafullur viðskilnaður og mikill persónulegur ósigur. Hann hafði verið flokksmaður í marga áratugi. Flokkurinn var í senn heimili hans og athvarf og hann var bundinn honum sterkum tilfinningum. Hann í kjölfar afsagnarinnar kosinn heiðursformaður flokksins.

Willy var aldrei mikill mannþekkjari. Þegar tími var kominn til að finna væntanlegan eftirmann hans mistókst honum illa. Í kringum umbreytingarnar í austurhluta álfunnar 1989/1991 lendir heiðursformaðurinn í andstöðu við forystu flokksins, þegar þeir draga lappirnar og setja sig uppá móti sameiningu Þýskalands.

Maðurinn Willy Brandt

Willy upplifði sameiningu föðurlands síns og var heiðursgestur á pöllum gamla Ríkisþingsins þegar sameiningunni var fagnað. Þannig lokaðist lífshringur þessa einstaka manns. Hann lést árið 1992.

Líf Willy Brandts var fullt af andstæðum og mótsögnum. Hann var ekki alltaf sjálfum sér samkvæmur. Hann var auðsæranlegur, viðkvæmur og forðaðist átök. Veikleikar hans voru miklir en þeir voru jafnframt styrkur hans. Þeir gerðu mann mannlegan. Hann stóð alltaf á fætur aftur þótt hann félli oft illa á hnén og biði marga bitra ósigra.

Andstæðingar hans linntu aldrei látum. Þeir svívirtu hann og núðu honum sífellt landráð um nasir; bæði sem andstæðingur meðan á stríðinu stóð, en einnig sem kanslara, sem afhenti Pólverjum þýskt land. Hann var allt sitt líf utanveltu. Hann hafði verið þarna úti (draussen) í tólf ár og var þarna úti (draussen) eftir heimkomuna og lengst af sinn pólitíska feril, því að hann var af öðrum meiði en hinir stjórnmálamennirnir. En hann gafst aldrei upp.

Hann var alla ævi sína einmana. Hann forðaðist nána snertingu við annað fólk. Átti fáa sanna vini en ógn marga kunningja. Hann hafði sigrað hjörtu Þjóðverja eins og forseti landsins komst að orði. Þýskri alþýðu fannst hann vera einn af þeim; ekki valdasjúkur refur eins og hinir stjórnmálamennirnir. Hann var á vissan hátt tragísk persóna sem þjáðist mest af sjálfum sér. Hann leit aldrei á sig sem ómissandi. Þannig myndaði hann sérstaka nálægð úr þeirri fjarlægð sem hann ætíð var í.Brandt 4

Það voru engin dæmi þess að Þjóðverjar kölluðu kanslara sína með fornafni. Hann var alltaf bara Willy.

Heimildir eru sóttar í ýmsar bækur og greinar um og eftir Willy Brandt, án þess að geta þess hverju sinni.

(Seinni hluti. Fyrri hluti er hér.)

1,270