Sigmundur Davíð: Forsetinn virðist hafa haft sín eigin pólitísku erindi að reka
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir Ólaf Ragnar Grímsson hafa látið eigin pólitísk áhugamál ráða niðurstöðu fundar þeirra um hádegisbil á þriðjudag.
Á fundinum hafnaði forsetinn beiðni þáverandi forsætisráðherra um heimild til þingrofs, svo og að veita vilyrði fyrir slíku samþykki á næstu dögum.
Þessi túlkun kom fram í viðtali við Sigmund á Stöð 2 í gærkvöldi.
Í viðtalinu kvaðst Sigmundur hafa kynnt fyrir forsetanum að tveir kostir væru í stöðunni: Annaðhvort styddi Sjálfstæðisflokkurinn stjórnarsamstarfið eða þing yrði rofið og efnt til kosninga.
Tvisvar í viðtalinu segir Sigmundur að Ólafur Ragnar hafi gefið annað í skyn:
„Hann var ekki sammála því mati að þessir tveir kostir væru í stöðunni og virtist áhugasamur um einhverja aðra kosti.“
Hann sagði eðlilegt að forsætisráðherra upplýsti forseta um stöðu mála og bætti svo við:
„Svo kann að vera að forsetinn hafi haft sinn eigin áhuga á einhverju öðru.“
Í hvorugu tilvikinu fylgdi spyrillinn þessum ummælum eftir og því er enn óljóst hvað fyrrverandi forsætisráðherra átti við með þessum endurteknu fullyrðingum sínum.
- Innan við múrvegginn - 15/01/2021
- Fjárhúsið að sumri til og fleiri þankar - 29/12/2020
- Gamall húsgangur - 24/12/2020