Sápukúlur
Eftir Steingerði Guðmundsdóttur
Á sólheitum vegg – fyrir sunnan hús –
hún sat – með ofur litla krús
og blés – og blés –
og blés
sápukúlur –
silkikúlur –
safír – ópal – túrkískúlur.
Þær minntu á fiðrildi í morgunblænum
í mjúkum dansi – á blöðum grænum –
er hljótt þær liðu að himinboga –
hurfu í bjartan sólarloga.
Sápukúlur.
Silkikúlur.
Safír – ópal – túrkískúlur –
Hún blæs þær ei lengur úr barnakrús
bláeyga stúlkan – sunnan við hús –
því krúsin er brotin – beyglað rör –
nú bítur hún þögul – sárt á vör.
Ef sápukúlur hún sér – í draumi –
hún svífur með þeim burt – í laumi.
Steingerður Guðmundsdóttir (1921-1999)
- Innan við múrvegginn - 15/01/2021
- Fjárhúsið að sumri til og fleiri þankar - 29/12/2020
- Gamall húsgangur - 24/12/2020