trusted online casino malaysia
Valgarður Guðjónsson 06/04/2014

Rökleysur um einokun

Ég sé að Páll Magnússon skrifar grein í Morgunblaðið til varnar núverandi fyrirkomulagi í fiskveiðimálum. Reyndar tengir hann þetta við aðildarumsókn að ESB, látum þá hlið liggja á milli hluta hér.

En Páll segir í stuttu máli að fleiri en eigendur kvótans og „sægreifar“ njóti arðsins af fiskvinnslunni. Úgerðarfyrirtækin greiði skatta til þjóðfélagsins og þannig njóti fleiri en eigendur þeirra. Eins tekur hann dæmi um vinnusama fjölskyldu sem stóð sig vel og uppskar laun erfiðis síns.

Hvort tveggja er rétt, svo langt sem það nær.

En hvort tveggja er líka rökleysa.

Það hefur, mér vitanlega, enginn haldið því fram að útgerðin borgi ekki skatta og skyldur. Það er ekki það sem málið snýst um. Málið snýst um hvort þeir greiði sanngjarnt verð fyrir aðgang að auðlindinni. Það má alveg færa rök fyrir því að þeir greiði sanngjarnt verð – ég er ósammála, en það er þó að minnsta kosti vitræn umræða, rökræða. Að nefna til sögunnar að núverandi kvótahafir greiði skatt kemur málinu ekki við. Það hefur enginn talað um annað.

Sama gildir um vinnusemi, útsjónarsemi og annað sem Páll nefnir til sögunnar. Það hvarflar ekki að mér að halda öðru fram en að margir þeirra sem vinna við útgerð séu upp til hópa duglegir og eigi skilið að njóta þess að hafa lagt sig fram. En það réttlætir ekki að útiloka vinnusemi, dugnað og útsjónarsemi annarra.

Það má vel vera að dönsku einokunarkaupmennirnir hafi borgað sína skatta – og eflaust hafa einhverjir þeirra verið duglegir og samviskusamir. Ég veit það einfaldlega ekki. En það breytir engu. Einokunarfyrirkomulagið er í sjálfu sér vandamál. Burtséð frá ESB aðild.

Fyrir mér snýst umræðan um aðgang að auðlindum um jafnræði og sanngirni. Grein Páls hefur ekkert fram að færa í þá umræðu.

Flokkun : Pistlar
1,413