trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 22/04/2018

Réttmæli uppspunans

Silfrið, Kveikur og Kastljós eru sjónvarpsþættir sem skapa umræðu og auka skilning áhorfenda á því sem til umfjöllunar er hverju sinni. Þeir veita líka sýn inn í hugarheim þeirra sem þar koma fram og opinbera þekkingu þeirra. Og vanþekkingu. Jafnvel heimsku. En um hana er ekki talað. Það er bannað. Jafnvel þótt viðkomandi fái greidd laun úr ríkissjóði fyrir að vera óheimskur kunnáttumaður. Og sitji á þingi.

Á meðan ég horfði á Silfrið í dag, 22.04.2018, rifjaðist upp fyrir mér brot úr sögu sem verið er að skrifa þessi misseri. Og hljóðar svo stubburinn:

Í sögum sínum geta skáldin lýst mönnum á þann hátt sem þeim sjálfum sýnist. Þau geta haft lifandi mann að fyrirmynd og prentað kórrétta lýsingu á honum. Ef fyrirmyndin væri úrþvætti og illa gefinn til munns og handa gæti skáldið skýrt frá því hindrunarlaust. Eftirá mundu lesendur velta fyrir sér hvern höfundur hefði verið að fjalla um, nefna fullu nafni þá einstaklinga úr daglega lífinu sem þeim þætti líkjast óféti sögunnar og ræða lesti þeirra átölulaust. Höfundurinn hlyti þökk og heiður fyrir ábendinguna, hvernig sem til tækist með skáldskapinn. Og yrði krýndur sigursveig ef hann væri innundir hjá verðlaunaveitendum.

Ef sagnfræðingur tæki hins vegar upp á því að skrifa fræðigrein um sömu persónu, færi satt og rétt með hvaðeina og lýsti henni með sömu orðum og skáldið gerði í sinni sögu, nefndi fólið fullu nafni beint úr þjóðskránni, eru allar líkur til þess að fræðimaðurinn yrði úthrópaður af lesendum fyrir rótarskap, lögsóttur af ótætinu, hlyti dóm fyrir meiðyrði, yrði að punga út með miskabætur og sitja í tugthúsi um lengri eða skemmri tíma á meðan dólgurinn baðaði sig í sviðsljósi sem píslarvottur.

Það er vegna þessa sem sannleikann er oftar að finna í skáldskap en í sagnfræði. Við heiðrum sannleikann sem ævintýri en sakfellum hann sem réttmæli.

 

Lesandinn er hvattur til þess að horfa á fyrsta hluta Silfursins frá því í morgun.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,340