trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 28/05/2015

Portrett af stjórnmálamanninum sem ungum manni. Nokkur orð í minningu Halldórs Ásgrímssonar

Halldór ÁsgrímssonEftir Svein Aðalsteinsson

Við Halldór vorum æskufélagar og mjög nánir bekkjarbræður í landsprófi Gaggó Aust. 1961.

Hann bjó þá hjá afa sínum og nafna í Stigahlíðinni og kom við hjá mér á hverjum morgni á leið í skólann. Var líflegur og „róttækur“ og að sjálfsögðu algerlega á móti viðreisnarstjórninni. Hann dreif sig strax í að fara að tala á málfundum, algerlega óreyndur en óragur og mikill „sveitamaður“ í framgöngu, en einlægur. Fyrir hann var að koma til Reykjavíkur eins og fyrir okkur til Kaupmannahafnar.

Fyrir okkur, sem vorum vel undirbúin undir landsprófið, var það ekkert mál. En fyrir Halldór, sem örugglega hafði „dúxað“ á Höfn, var þetta ekki eins einfalt. Hann hafði líka svo mikið að gera við að kynnast „borgarlífinu“ og ég man eftir að hann fór oft í bíó, m.a. annars í það sem hann kallaði „Trippólíbíó“.

Við vorum, sem unglingar ekki jafn „verseraðir“ í ensku (ekkert sjónvarp komið) eins og sjónvarps og internetskynslóðir síðar. Einn daginn þegar við vorum að koma heim úr skólanum í snjókomu, gerðum við okkur að leik að henda snjóboltum í bíla sem fram hjá óku um Lönguhlíðina. Einn þeirra snarstansaði og út rauk bálreiður einkennisklæddur Ameríkani.

Hann gekk á milli okkar og þráspurði hver hefði kastað snjóboltanum? Við þóttumst ekkert skilja, þannig að hann gafst uppog hugðist aka á brott. Þá gall við í Halldóri, sem ég held að hafi verið ein af fáum setningum, sem hann hugsanlega gat stunið upp á ensku : „You are a real rascall!“ Þetta var að sjálfsögðu samsvarandi því að gefa ameríkananum „drag“ í rassgatið! Hann kom æðandi eins og naut í flagi, en við tvístruðumst inn í nærliggjandi garða!

———-

Hann var ævinlega hress og kátur og gerði sér enga grein fyrir í hverju hann myndi lenda varðandi „helvítis“ landsprófið, sem var leikur fyrir okkur vel undirbúna. En því miður, hann féll og ég gerði mér enga grein fyrir því fyrr en löngu seinna. Þetta var eiginlega mikið áfall fyrir mig. Ég gerði mér enga grein fyrir hvernig hann raunverulega stóð. Hefði ekki verið neitt mál að hjálpa honum til að hann væri öruggur.

Ég fór austur í brúarvinnu, til frægasta brúarsmiðs Austfjarða, Sigurðar Jónssonar á Sólbakka, Borgarfirði eystra. Þar hitti ég Birnu Þórðar í fyrsta sinn, sem smástelpu! Ég gerði mér enga grein fyrir að Halldór hefði fallið. Vissi einungis að hann fór heim á Höfn.

Hann sagði mér það síðan ekki fyrr en mörgum árum síðar, að hann taldi sig algerlega vonlausan til náms. Það var nokkrum árum síðar, þegar hann var búinn að ljúka Samvinnuskólanum. Hann sagðist hafa farið austur, niðurbrotinn maður og ákveðið að hætta öllu skólanámi. Var á sjó, líklega næstu 2 veturna. Fór síðan í Samvinnuskólann og stóð sig með glans. Lærði síðan endurskoðun, m.a. í Oslo og var einnig í Kaupmannahöfn. En þetta sat í Halldóri alla ævi. Þegar hann kenndi áratugum síðar í HÍ, lét hann þess getið við nemendur að hann ætti eiginlega ekki að vera að kenna af því að hann hefði ekki stúdentspróf.

Þegar við töluðum um okkar mál löngu síðar, fann ég hversu erfið þessi gamla reynsla var honum. Nú var hann orðinn alvörugefinn, en mér tókst þó að ná gamla brosinu fram! Einhverntíma, þegar hann var kominn á kaf í pólitíkina, hitti ég hann á helgarballi á Hótel Sögu, sá að hann var þungbúinn. Tók í báðar axlir hans, hristi duglega og sagði : „Vertu ekki með allar heimsins áhyggjur á herðunum, Halldór minn, þú drepur þig á því!“ Ég náði fram brosi!

Síðar lagði ég talsvert á mig í andstöðu við áform um þessi skelfilegu virkjanaáform fyrir Austan, en það var að sjálfsögðu „loforð“ Halldórs til Austfirðinga, eins og ein gömul og gegn bóndakona þar sagði mér, eftir að Austfirðingar höfðu misst stóriðjuna sína með því að missa frá sér stóran hluta fiskikvótans. Halldór fór mjög varlega í fyrstu. Hélt fyrsta fund í HÍ, þar sem hann lýsti því yfir að til stæði að virkja stórt fyrir Austan í tengslum við stóriðjuver (vildi ekki einu sinni minnast á hugtakið ál). En væntanlega yrði það í fyrsta sinn í sögunni að viðkomandi stóriðjuaðilar myndu einnig kosta byggingu vatnsaflsvirkjunar, sem nauðsynlegt væri að ráðast í þar eð um raforkufrekan iðnað yrði að ræða.

Við Halldór ræddum þessi mál aldrei okkar á milli. Ekki heldur nokkrum árum síðar, þegar við hittumst af öðru tilefni.

———-

Landsprófsbekkur, sem var B bekkurinn í Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1961-1962 hafði að stofni til staðið saman frá upphafi skólasóknar, þ.e. 7 ára bekk í Barnaskóla Austurbæjar. Þar höfðum við af mjög metnaðarfullum kennara verið alin upp í að við værum „besti bekkurinn“.

Við Ármann heitinn Sveinsson sátum saman í sjö ára bekk og síðan alla fjóra veturna í MR 1962-1966. Það var mikill skaði fyrir íslenskt þjóðfélag, að Ármann skyldi falla frá kornungur, einungis 22 ára. Þar fór einstakur persónuleiki.

Ljóst var okkur sem með þeim Ármanni og Halldóri voru að þar færu framtíðar stjórnmálamenn. Ármann var með ólíkindum mikil „félagsvera“, eins og Guðni „kjaftur“ orðaði það svo skemmtilega, þegar Ármann mátti vart vera að því að sækja tíma, sakir félagsstarfa. Ármann tældi mig 7-8 ára í barnastúku í Gúttó. Hann var þá þegar byrjaður, barnungur, að æfa sig í félagsstörfum og fundarstjórn. Síðan fékk hann mig með sér í skátana. Reyndi ekki að tæla mig í Heimdall, sem hann tengdist kornungur. Vissi að hugur minn lá ekki þangað. En engu breytti, að við töluðum „út í eitt“ öll árin, sem við vorum saman um pólitík.

Ef þeir Halldór hefðu náð saman og Ármanni enst aldur, er ég sannfærður um að öðru vísi væri um að litast á Íslandi í dag. Þetta margþvælda orðalag, að „maður komi í manns stað“, finnst mér því miður oft út í hött, eftir að hafa séð á bak mörgum öndvegismanninum allt of snemma. Ef sameiginlegur tími þeirra félaga hefði komið, fullyrði ég að við stæðum ekki í þeim miklu vandamálum, sem nú blasa við. Því miður var Halldór einungis með okkur þennan eina landsprófsvetur, þannig að þeirra kynni urðu ekki eins náin og annars hefði orðið.

Margs er að sjálfsögðu að minnast frá þessum vetri. Við Halldór gengum saman í skólann á hverjum degi og var oft hált í morgunsárið. Halldór var ekki vel skóaður miðað við færð, þ.e. hann var á blankskóm með plastbotnum. Aldrei datt hann, en oft munaði mjóu. Ég gekk við slíkar aðstæður svo þétt við hlið hans, að það voru alveg orðin ósjálfráð viðbrögð frá minni hálfu að grípa til hans og forða honum frá falli.

Við fengum góðan tíma á göngum okkar í og úr skólanum að kryfja aðsteðjandi mál og þó að glatt væri á hjalla, tókum við okkur mjög alvarlega, miðað við aldur! Við töldum okkur fara létt með að leysa málin farsællegar en þáverandi stjórnmálamenn gerðu. Ég sá fram á að ef íslenska þjóðin bæri gæfu til að fá slíka framtíðar stjórnmálamenn sem Halldór og Ármann væru efni í væri okkur borgið.

Ég sendi fjölskyldu Halldórs samúðarkveðjur.

Sveinn Aðalsteinsson

1,260