Peninga-sand-sukk
Þeir fjölmiðlar sem hafa afl og mannskap til að stunda rannsóknarblaðamennsku hafa, eftir því sem mitt er mál og minni, hvorki eytt tíma né peningum í að upplýsa um hinn gríðarlega peningaaustur sem átt hefur sér stað við gerð Landeyjarhafnar og orsakir hans. Nú er verið að dæla sandi upp úr höfninni og þar er staðan þessi samkvæmt Morgunblaðinu 07.03.´16.
„Ekki er hægt að segja annað en að það hafi verið blíða síðustu vikur á Suðvestur- og Suðurlandi. Skipið hefur engu að síður ekki getað athafnað sig samtals í heilan sólarhring við dýpkun í Landeyjahöfn, þrátt fyrir að það séu margir dagar þar sem ölduhæð hefur verið undir tveimur metrum, sem voru forsendur útboðsins,“ segir Ólafur Ragnarsson, skipstjóri á dýpkunarskipi sambærilegu belgíska dýpkunarskipinu Galilei sem vinnur nú að dýpkun Landeyjahafnar blaðinu, og hefur eftir Sigurðui Áss Grétarssyni, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar „að belgíska dýpkunarskipið hafi ekki náð samtals 24 klukkustundum af dýpkun í Landeyjahöfn frá því að það fór í sinn fyrsta túr seinni partinn í febrúar.“
Það er löngu orðið tímabært að farið sé ofan í saumana á þessari framkvæmd. Og þá þarf að byrja á byrjuninni: Hvaðan kom þessi fáránlega hugmynd? Hvernig var það rökstutt að fara í framkvæmdina? Hvenær átti henni að ljúka? Hvað átti hún að kosta samkvæmt fyrstu ágiskunum? Hvað sögðu þeir sem búa við sandinn um hugmundina? Hvað sögðu fiskimenn? Hvernig hljóðaði álit útlendinganna, Holllendinga, Dana og kannski fleiri? Var farið eftir því sem þar sagði, td. áliti Dana? Hvað sögðu starfsmenn siglingasviðs Vegagerðarinnar; hverju hafa þeir lofað, trekk í trekk? Hvað hafa samgönguráðherrar lagt til málsins? Loks væri ekki úr vegi að fá það á hreint hvað vitringarnir á siglingasviðinu telja að þurfi mikið fé til þess að hægt sé að segja að verkinu sé lokið/ höfnin nothæf, hvað hefur verið borgað í þetta til þessa dags og hvað hefur verði veitt miklu fé til viðhalds annarra hafna landsins á sama tíma.
Ef vel ætti að vera ætti samgönguráðherra að láta ríkisendurskoðun fara ofan í saumana á þessu máli og setja yfirmenn siglingasviðs Vegagerðarinnar í skammarkrókinn á meðan rannsókn stendur yfir. En þar sem ríkisstjórnin er dáðlaus er ekki við því að búast að hún hafi frumkvæði að rannsókna á þessu peninga-sand-sukki. Því verða fjölmiðlar að gera það, þeir sem vilja leggja gott til mála með því að segja til vamms.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020