trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 20/04/2014

Páskahugvekja: Frú Erna úr Njarðvík hafði sigur. Um guð, guðlast og frelsi fyrr og nú

Eftir Úlfar Þormóðsson

(Mynd: ruv.is/Dagur Gunnarsson

(Mynd: ruv.is/Dagur Gunnarsson)

Ég er að skrifa bók. Innihald hennar er ekki guðlast. Ekki enn. Hvað gerist, þegar hún kemur fyrir augu annarra, veit ég að ekki.

Á einum stað í handritinu segir frá því þegar ég kom heim til mín einn tiltekinn dag og sá á netmiðli að æðstavaldið í Vatíkaninu í Róm hafði leiðrétt páfann. Slíkt er sjaldan látið berast út. Þó að mér þætti þetta forvitnilegt var ég svo laskaður af framvindu dagsins að ég nennti ekki að gá að því hvað sá gamli hafði farið rangt með, en í leiðréttingu kristnivaldsins kom þetta fram:

Vantrúaðir lenda í helvíti

Kannski hefur páfinn, rétt eins og ég, haldið að þetta væri úrelt kenning og ónýt frétt. En nú vitum við betur.

Kristniboðar heimsins eru sífellt að ruglast í ríminu. Þeir vita ekki fyrir víst hver guð er, hvort hann er faðirinn, sonurinn eða heilagur andi. Lengi hafa þeir reddað sér á því að kalla hann þríeinan; hann sé allt í senn faðir sjálfs sín, sonur sinn og andinn í brjósti beggja.

Fyrir þá sem botnuðu ekkert í þessari skilgreiningu var smíðaður frasinn um, að eðli guðs sé ofar mannlegum skilningi. Þegar íslensku trúboðarnir komast í ham segja þeir hiklaust að Kristur sé guð. Samt drápu þeir hann, prestarnir. Fyrir kenningar sínar, fyrir orðin, fyrir dæmisögurnar, fyrir að mótmæla framferði prestanna, fyrir guðlast.

———-

Tæpum tvöþúsund árum eftir krossfestinguna var það, sem hér fer á eftir, úrskurðað guðlast, og mönnum bannað að lesa það:

Tilvitnun:

„Þetta er lögbrot og regin hneyksli. Að hugsa sér að það skuli vera látið átölulaust hingað til að þjónar Guðs freisti barna með áfengi, sem leiðir til ofdrykkju, glæpa, rána, morða og alkahólisma. Og það í kirkjum landsins.

Ég gat ekki horft upp á þetta lengur. Þess vegna kærði ég,“ sagði Erna Guðmundsdóttir, sanntrúuð kona og bindindissöm, er Spegillinn hitti hana að heimili hennar í Njarðvíkunum á dögunum.

„Hér hef ég myndir af Óla bróður mínum, sem segja meira en mörg orð um nauðsyn þess að stöðva þessar brennivínsgjafir prestanna,“ sagði Erna að lokum og krafðist þess að við birtum myndirnar.

Myndirnar af Óla eru sín hvorum megin við textann. Önnur þeirra var tekin á fermingardaginn. Þar er hann kristilega einbeittur á svip, í hvítum kyrtli með slaufu og sálmabók. Hin myndin var tekin af honum í Harlem-hverfinu í New York tólf árum síðan. Þar er hann langdrukkinn og raunamæddur, sólbrunninn af útigangi, tannlaus tötrughypja í ræsinu.

Eftir margra mánaða yfirlegu komust þrír hámenntaðir og sannkristnir meðdómarar og einn fullgildur að þeirri niðurstöðu að þetta mætti ekki sjást á prenti, væri refsivert guðlast upp á peninga eða 20 daga tukthús ella, og rökstuddu mál sitt meðal annars með þessum orðum: „… enda verður birting þessa efnis hvorki talið framlag til málefnalegrar umræðu um trúmál né talin hafa listrænt gildi.“

En viti menn.

Frú Erna úr Njarðvík hafði sigur, að því að mér er sagt, því að nú fá fermingarbörn ekki áfengan sopa af blóði Krists heldur berjasaft eða litað sykurvatn.

Spegillinn er aðeins til á einu bókasafni, svona opinberlega, Landsbókasafninu. En. Aðgangur að honum er ekki leyfður. Hann er ekki að finna á Tímarit.is. Hann er bannaður. Allur. Samt er hægt að nálgast hann á netinu með lagi sem ég þori ekki að nefna svo ekki verði lokað á hann. En það er hægt að lesa um þetta mál og annað guðlast í bókinni Bréf til Þórðar frænda sem að vísu er uppseld, en það á að vera hægt að fá hana lánaða á bókasöfnum.

———-

Við erum stödd í einu musteri íslenskrar myndlistar. Eins og í öðrum helgidómi hafa hér orðið til sérstakir siðir, nánast óumbreytanlegir. Þeir eru brúkaðir við sýningaopnanir.

Þar gerast kaupin þannig:

Talsmenn listanna halda ræðu. Þeir treysta hvorki sjón sýningargesta né skynjun því að nær undantekningarlaust segja þeir gestum hvað þeir komi til með að sjá og reyna þegar þeir ganga inn í sýningarsalinn. Þeir feila sig þó við fræðsluna því að þeir nota upphafið orðfæri sem fáir skilja. Gestirnir láta sér vel líka því að þeim er færð brjóstbirta til þess að dreifa huganum og lina þjáningarnar meðan á þessu stendur.

Ég fékk tölvupóst frá þessu musteri fyrir síðustu áramót þar sem mér var sagt frá fyrirhugaðri sýningu Finnans Harrós og spurður að því hvort ég vildi taka þátt í samræðu um guðlast einhvern tíma meðan sýningin stæði. Beiðninni fylgdu upplýsingar um að þessi sama sýning hefði valdið uppnámi í Finnlandi á sínum tíma og listamaðurinn verið dæmdur í fésektir fyrir guðlast upp á finnsku.

Ég var eftirvæntingarfullur við opnunina. Drakk kolsýrt vatn og hlýddi á orðskrúð, skildi sumt af því sem sagt var og bjóst við opinberun.

Svo dóu orðin út.

Salurinn opnaðist.

Og þarna hékk hún á veggjunum. Guðlastssýningin. Eftirvæntingin lak úr mér eins og vindur úr blöðru. Sýningin var eins og slytti, eða prúðbúið fermingarbarn, eins og Óli Njarðvíkingur áður en hann fékk fyrsta sjússinn. Uppreisnin var dottin úr henni, guðlastið horfið.

Auðvitað má færa rök fyrir því að tíminn hafi tekið tennurnar úr henni. En það hefði verið hægt að smíða upp í hana, til dæmis með því að hengja hana upp í brjálsemi, þvert á reglur, öfugt við allar venjur. En það var ekki gert. Ég veit ekki hvers vegna.

En við opnunina fékk ég grun um, að það gæti verið vegna þess, að hér er allt svo slétt og fellt og fallegt. Allir menn svo prúðir í sínu millistéttarlífi, embættum og öruggri afkomu að sköpunin sofnar og listin dottar úr leiðindum.

En hver sem ástæðan kann að vera, er sýningin svo náttúrulaus fyrir augliti mínu, að ég ímynda mér, að hún gæti hangið í betristofu biskupsins yfir Íslandi án þess að trufla hann í guðrækni.

Ég geri þá játningu að mér þykir erfitt að segja þetta. En ég læt mig hafa það vegna þess að mér er annt um Kjarvalsstaði, ég ber virðingu fyrir listum, dái fegurð en þrái uppreisn. Sannlega hef ég glaðst, hrifist og undrast hér í húsinu, en allt of sjaldan upp á síðkastið. Það hryggir mig.

En.

Þið getið breytt þessu. Starfsfólkið. Ef þið viljið, nennið og þorið að skríða út úr veislusamfélaginu og stíga fram í ærslin og óöryggið.

———-

En svo leið tíminn og ég fór að hugsa öðru vísi um sýninguna. Að mér flaug, að þetta dauðyfli sem hún er, væri klókindalegur inngangur að öðru og meiru. Sýningu þar sem tæki hressilega í hnjúkana þegar opnuð yrði. Sýningu á íslensku guðlasti.

Níðingarnir eru þessir:

Hjalti Skeggjason. Dæmdur fjörbaugsmaður fyrir eina vísu á tímum eldri átrúnaðar. En eins og margir vita má aldrei lasta guðinn hvort sem hann heitir Jahve, Óðinn eða Allah.

Sveinn skotti Axlar-Bjarnarson. Dæmdur til húðstrýkingar fyrir guðsorða og sakaramenntanna foraktan og óráðvendni árið 1640.

Sigurður Jónsson, hlaupastrákur úr Rangárþingi, dæmdur til hýðingar eftir konungsbréfi fyrir guðlast og kirkjuníð árið 1682.

Halldór Finnbogason. Dæmdur fyrir uppreisn gegn ofríki valdsins og herfilegt guðlast. Í dómsorði segir að hann skuli á lífinu straffast með soddan aðferð, að kroppurinn í eldi brennist. Svo var kveikt undir honum í Jesú nafni árið 1685.

Brynjólfur Bjarnason, heimspekingur, kennari og síðar menntamálaráðherra dæmdur, árið 1925 í sekt, eða skilorðsbundið tukthús vegna ungs aldurs, fyrir þessa málsgrein úr bókinni Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson, að guð „sje ekki annað en hégómagjarn og öfundsjúkur harðstjóri og óþokki.“

Úlfar Þormóðsson, blaðamaður dæmdur í fésektir og tukthús til vara 1983 og aftur 1984, fyrir ólistrænt guðlast.

Við undirbúning sýningar af þessu tagi mundi ég glaður verða ykkur innan handar því að ég á filmur, mót og myndir um guðlast sem löggan fann ekki við húsleit á heimili mínu á sínum tíma. Ég er sannfærður um að þið gætuð einnig leitað til kirkjunnar, því að nýbiskupinn hefur tekið upp slagorðið samstaða, og óskað eftir henni fyrir altarinu.

Þetta yrði gagnlegt því að á frumdögum kristninnar sá kirkjan um að kveða upp úr um hvað væri guðlast, dæmdi sjálf, setti lastarana út af sakramentinu og úrskurðaði þá til helvítisvistar eftir dauðann. Sjálfsagt hefur hún svo beðið guð að fyrirgefa þeim því að sú gjörð, að fyrirgefa, segja trúboðarnir að sé einn af hornssteinum góðrar kristni.

Þetta yrði án vafa athyglisverður atburður, upplýsandi og skemmtileg samstöðusýning.

———-

En það er ekki auðvelt fyrir sannkristið fólk að vera sjálfstætt. Það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir það langt út yfir gröf og dauða. Hlýðið á þetta kristniboð úr bók bóka, Rómverjabréfi Páls postula, 13. kapítula, frá fyrsta versi og áfram, og hljóðar svo í drottins nafni og fjörutíu:

„Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn.  Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.  Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn.  Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk.  En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim.  Því að þau eru þjónn Guðs þér til góðs.  En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttastYfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa.“

Amen!

———-

Handritið sem ég drap á í upphafi máls míns og er að ljúka við, ber vinnuheitið sixtí næn. Þaðan er þetta:

„Á Skólavörðustígnum leit ég upp eftir götunni og í átt að Hallgrímskirkju. Þá minntist ég þess að þegar ég var í Kennaraskólanum við Skaftahlíð og bjó í Sængurfatagerðinni við Hverfisgötu gekk ég yfir holtið þá daga sem ég átti ekki fyrir strætó. Ég safnaði sígarettustubbum á leiðinni og muldi þá niður í píputóbak.

Þessi árin var verið að byggja kirkjuna. Ég átti græn jakkaföt sem ég hafði fengið fyrir slikk því að á þeim tíma gengu flestir alvöru karlmenn í sauðalitunum. Einn góðan dag barst sú frétt um bæinn að í kvöldrökkrinu væri maður í grænum fötum með dónalæti á Skólavörðuholtinu. Þetta var strípalingur eða flassari eins og það var kallað. Mér varð svo mikið um að ég lagði grænu fötunum og þegar búið var að góma dónann hafði ég ekki kjark í mér til þess að klæðast þeim aftur á götum borgarinnar. En ég fann þeim framhaldslíf, fór í þeim á skak sumarið eftir og sleit þeim upp til agna. Það má því heita næsta víst að ég sé einn fárra manna sem hefur stundað handfæraveiðar við strendur landsins í grænum jakkafötum, tvíhnepptum.

Allt í einu finnst mér að ég hafi skrifað þetta áður. Það verður þá að hafa það. En ég var með nákvæmlega þennan þanka í kollinum þegar ég ákvað að ganga upp á holtið og fyrr en varði var ég farinn að velta því fyrir mér hvort þeir sem halda því fram að einkalíf eigi undir högg að sækja hafi ekki nokkuð til síns máls.

Greiðslukort, sími og samskiptanet tölvuheimsins veita upplýsingar un ferðir manna, orð og gerðir. Hið opinbera og lögreglan hafa aðgang að þessum upplýsingum og þar ku vera misjafn sauður í mörgu fé. Atvinnuþrjótar og afbrotamenn hafa líka aðgang að okkur með sínu lagi.

Mörgum þykir óhugnanlegt að búa við þetta. Persónulega er mér þetta ekki jafn mikill þyrnir í augum og þeim sem yngri eru vegna þess hversu langt ég er kominn á lífsbrautinni og veit að ókindin hefur alla tíð njósnað um náungann. Í þessum nýnjósnum er það miðaldra æskan sem nú á leikinn. Þetta varðar hana meira en mig. Hún ætti að hafa burði til þess að finna ráð sem duga til þess að hrista þetta af sér. Ef hún vill það.

Hún gæti líka látið kyrrt liggja og gefið nýherrum heimsins frítt spil til þess að éta manninn upp innanfrá. Eins og guð æsku minnar gerði. Hann sá allt, vissi allt og las hugsanir manna. Þá var meira að segja til fólk sem trúði því að eftir dauðann gætu hinir látnu séð og greint öll leyndarmál annarra dauðra og allra lifenda úr náðarfaðmi guðs.

———-

Ungur var ég gefinn guði með skírninni. Síðar var ég fermdur, fékk fyrsta sjússinn og lofaði því fyrir fullu húsi að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs míns. Fyrir þrjátíu árum komst samfélagið að því að ég hefði ekki staðið við loforðið og lét dæma mig fyrir guðlast.

Á þeim tíma hafði það sáralítil áhrif á mig hvernig hinir heilögu höguðu sér í sinni ímyndunarveiki. En núorðið fæ ég í magann og útbrot í lófana þegar ég heyri kristnifólk tala um ást sína á guði og „öllu því fagra sem faðir vor stendur fyrir.“

Nýverið sagði einn nýherra, sem reyndar er hún, við kirkjuþing, að sér þætti rétt að taka það fram að hann (hún) ætti ekki neinn þátt í því hvernig komið væri fyrir fjárhag kirkjunnar en engu að síður ætli hann (hún) að kappkosta að rétta hlut hennar. Atarna er illa orðað – ef ekki galin íslenska – en kristilegur framsagnarmáti og hugsunarháttur.

Í dæmdum huga heyri ég biskupinn, sem líka er kona, hvísla að ræðumanni (konu) undir borðum, eða á milli rétta að loknu þingi, að hann (hún) finni til fögnuðar við tilhugsunina um að búa í landi sem lyti á ný stjórn þeirra sem gert hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, landi lýðræðis og samstöðu.

Svo kinnast þeir, tveir valdamenn, og skála í nafni guðs föður almáttugs.

Tvær konur.

Komi hroki, kemur smán. Þetta er úr biblíunni. Bókinni þeirra. Kannski hefur það farið fram hjá þeim.

Þangað kominn í þankanum mætti ég tveimur útigangsmönnum framan við kirkjuna og velti því fyrir mér hvers vegna enginn málsmetandi maður, ekkert kristið góðmenni, ekki einu sinni nýbiskup samstöðunnar, beitir sér fyrir því heillaráði að utangarðsmenn og konur fái að sitja af sér vonskuveður í kirkjum og sofa þar þegar þeir eiga ekki í önnur hús að venda. Það mundi auka kirkjusókn. Tölfræðilega.

Kannski væri það guðlast að gera slíkt hugsaði ég svo eins og hvert annað guðslamb, sneri við, gekk niður götuna, keypti blóm hjá Binna og borgaði með Vísakorti. Þar með vita bæði guð og menn hvar ég var og hvað ég aðhafðist.

 

Erindi flutt á Kjarvalsstöðum 13. apríl 2014

 

———-

125.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.

1,336