Panamalekinn
Það var ánægjulegt að lesa grein þeirra Vilhjálms Árnasonar, prófessors í heimspeki, og Henrys Alexanders Henryssonar, aðjunkts í heimspeki sem birtist í Fréttatímanum síðastliðinn föstudag (09.09.´16). Þeir fjölluðu um siðferði og varla er ofmælt að þarft sé að hugleiða það sem þar er ritað. Niðurlag greinarinnar er þetta:
„Kjörnir fulltrúar verða að gangast við ákveðnum skyldum þegar þeir taka við hlutverkum sínum. Þeir bera annars konar ábyrgð en almenningur enda eru völd þeirra og áhrif annars eðlis. Hér gengur ekki að nota þá vörn sem oft er gripið til um að eitthvað tíðkist svo víða í samfélaginu hvort sem er, eða að ósanngjarnt sé að gera meiri kröfur til kjörinna fulltrúa en til almennings. Þeim sem gæta almannahagsmuna ber að sýna gott fordæmi í þessu tilliti.
Ítarlegar reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum sem ætlað er að forða hagsmunaárekstrum eiga sér rætur í þessum hlutverkabundnu skyldum. Það er aldrei hægt að sjá allar mögulegar aðstæður fyrir við skráningu slíkra reglna og því er brýnt að allir geri sér grein fyrir þeirri meginhugsun sem liggur þeim til grundvallar. Það er mikilvæg forsenda þess að kjósendur geti lagt mat á athafnir þeirra sem ætlað er að gæta þjóðarhags að upplýsingar liggi fyrir um hagsmunatengsl sem truflað gætu það hlutverk. Það grefur undan trúverðugleika kjörinna fulltrúa og þar með undan lýðræðissamfélaginu að þeir leyni eignarhaldi og hagsmunatengslum.
Enski heimspekingurinn John Stuart Mill komst svo að orði í höfuðriti sínu Nytjastefnunni að flest okkar þurfi ekki „að hyggja að neinu öðru en einkahag og hagsmunum eða hamingju fáeinna einstaklinga“. Fæst okkar þurfi að taka ákvarðanir með hagsmuni almennings í huga og því sé það í raun „þeir einir sem hafa áhrif á þjóðfélagið í heild með breytni sinni sem þurfa allajafna að hugsa svo stórt“. Kjörnir fulltrúar þurfa að hugsa stórt. Svo einfalt er það. Reyndar bætir Mill því við, og talar til stærri hóps, að það sé „ósamboðið vitibornum manni að gera sér þess ekki fulla grein að athöfnin sem um ræðir væri skaðleg ef hún væri almennt stunduð og þess vegna beri honum skylda til að forðast hana.“
Hér erum við komin að kjarna málsins. Sú reiði sem blossaði upp í kjölfar uppljóstrana um það fé sem geymt er í félögum í skattaskjólum á sér rætur í því að fólk gerir sér grein fyrir því að þetta er háttsemi sem grefur undan innviðum samfélagsins. Siðfræði verður að taka tillit til undantekninga frá öllum meginreglum, undantekninga sem eiga sér rætur í því hve flókin mannleg tilvist er. Einstaka viðskipti í alþjóðlegu umhverfi geta kallað á tilvist aflandsfélaga. Þar er um undantekningu að ræða sem staðist getur skoðun. En kjörnir fulltrúar geta ekki gert kröfu um að slík undantekning eigi við um þá eða fjárhagslega hagsmuni þeirra. Þeir þurfa „að hugsa stórt“, eins og Mill komst að orði, og ekki fela sig á bak við orðalag reglna þegar hugsunin á bak við reglurnar blasir við. Það er ágæt vísbending um réttmæti undantekninga að menn geta gengist við háttseminni opinberlega og þurfi ekki að leyna henni. En meginhvati þeirra sem geyma fé í skattaskjólum virðist einmitt vera að leyna eignarhaldi og minnka skattbyrði, þ.e. framlag sitt til sameiginlegra sjóða sem gerir okkur kleift að deila saman gæðum og byrðum samfélagsins.
Þó er það góðs viti að þetta mál hafi komið upp á yfirborðið. Samfélög mega ekki líta svo á að vandinn felist í því að leyndarmál afhjúpist. Uppljóstranirnar geta orðið heillaskref ef við viðurkennum vandann og þeir frammámenn sem hafa geymt fé í skattakjólum gangast við því að framferði þeirra gæti verið skaðlegt ef það væri almennt stundað. Kjörnir fulltrúar þurfa að spyrja sig hvort slík háttsemi samrýmist skyldum þeirra og ábyrgð gagnvart almenningi. Meginspurningin er hver næstu skref verða. Munu afneitanir halda áfram, verður tekist á með innihaldslausum yfirlýsingum og hártogunum? Mun okkur bera gæfa til að gangast við hinum siðferðilega vanda sem felst í tilvist aflandsfélaga og reyna að takmarka þá hvata sem eru í umhverfinu til þess að ástunda háttsemi af þessu tagi? Munu kjörnir fulltrúar ígrunda hlutverkabundnar skyldur sínar í ríkara mæli? Viðbrögð næstu mánaða, m.a. vegna kosninga núna seinna í haust, verða mikilvægur prófsteinn á íslenskt lýðræðissamfélag“.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020