trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 16/12/2018

Óttinn og áreitið: Aðventuhugvekja

Séra Bolli Pétur Bollason skrifar

Í Nýja testamenti Biblíunnar er rit sem heitir Jóhannesarguðspjall. Það er áhugavert rit vegna þess að þar notar Jesús margar líkingar um sjálfan sig til að útskýra fyrir okkur hver hann er. Þar segist hann m.a. vera góður hirðir sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina, þar er hann vegurinn til Guðs, og sannleikurinn og lífið sjálft. Og á enn öðrum stað segir hann. „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.”

Ég vil líta svo á að Jesús líki sér við ljós m.a. vegna þess að það sé vilji hans að lýsa þér leið að eigin hjarta, til aukins sjálfskilnings, að þú skiljir sjálfan þig, hvaðan þú kemur, hver þú ert, hvert þú ert að fara. Þekkir þú sögu þína, veistu allt um bakgrunn þinn, hvernig voru forfeður þínir og formæður, þekkir þú af hverju þú bregst við umhverfi þínu eins og þú bregst við því? Hefur þú gert þér grein fyrir því að viðbrögð þín við hinu og þessu í umhverfinu eru varnarviðbrögð? 

Vissir þú að smávægilegt áfall, að ekki sé talað um stórvægilegt, getur komið til þín aftur af fullum þunga mörgum árum eftir að þú upplifðir það fyrst? Það kallast endurupplifun. Lykt, bragð, sýn, vissir staðir, geta kallað áfallið fram á ný og þú getur átt erfitt með að ráða við viðbrögð þín.

Við erum ekkert frábrugðin öðrum skepnum með þetta, hið frumstæða eðli minnir okkur á margt og kemur oftar fram í okkur en okkur grunar. Trukkur, fjölskylduhundurinn minn, fékk eitt sinn sem hvolpur naglasnyrtingu, ég klippti hann óvart til blóðs og hann ýlfraði, fann til. Síðan þá, og nú er hann að verða 10 ára gamall, er hann alltaf á verði þegar ég snyrti á honum neglurnar, vill síst koma til mín þegar ég tek mér naglaklippurnar í hönd og er stöðugt með titring í löppum meðan á snyrtingu stendur. 

Hann hefur ekki gleymt, og við gleymum ekki heldur þótt við leggjum okkur fram um það, minnið birtist í atferli okkar og hegðun og á mjög áberandi hátt ef við höfum ekki unnið neitt úr áföllum okkar, ef við höfum ekki opnað á þau, ekki rætt þau, slíkt getur komið í veg fyrir skilning á okkur sjálfum, öðru fólki og lífinu yfir höfuð. 

Varnarviðbrögð okkar verða hamlandi í samskiptum og svo mörgu öðru sem tilheyrir lífssviðinu. Við grípum til varnarhátta á ýmsa vegu, sem dæmi er afneitun varnarháttur og minnir mjög á aðferð strútsins sem sagður er stinga höfðinu í sandinn. Við getum líka tekið dæmi um manninn sem innst inni er mjög óöruggur með sjálfan sig sem brýst síðan fram eins og hann sé mjög sjálfhælinn og jafnvel hrokafullur, lætur sem hann geti allt og viti allt, það kallast andhverfing. Og svo má taka dæmi um frávarp, en þá ætlar þú öðrum þær tilfinningar sem þú sjálfur eða sjálf hefur. Þetta eru aðeins fáein dæmi. Þekkir þú varnarhætti þína? 

Við grípum oft til þeirra án þess að gera okkur grein fyrir þeim, það er svo skrýtið, oft er það vissulega ef eitthvað ógnar okkur, stundum erum við þreytt, undir miklu álagi, og stundum er ástæðan hreinlega sú að við þekkjum ekki okkur sjálf, kunnum ekki inn á okkur, hlustum ekki á líðan okkar, höfum ekki alist upp við neitt slíkt eða höfum ekki búið við neina örvun þess efnis að vilja vita hver við erum og hvernig við bregðumst við þessari tilvist okkar. 

Það getur verið varasamt ástand því þá eigum við það til að sækja í stundaránægju sem skilur fátt eftir sig nema vanlíðan og í verstu tilvikum sviðna jörð. Það skiptir mjög miklu máli að við styðjum í því sambandi við unga fólkið okkar, að það fái stuðning við að þekkja sig, viðbrögð sín við hinu og þessu í lífinu, að við það sé rætt og það upplýst um hvers vegna það grípi til ákveðinna varnarviðbragða, að það viti hvers vegna það sé með kvíðahnút í maganum fyrir samskiptum eða hinum og þessum verkefnum. Búa þar einhver áföll að baki? 

Sé enginn sjálfskilningur til staðar er hætta á að líðanin verði eins og maður sé ráfandi í myrkrinu, leitandi að ljósi sem ekki finnst, og önnur áhrif grípa þig sem leiða þig eitthvert annað, þangað sem þú vilt í grunninn ekki fara.

Ég trúi því að Jesús með sögu sinni, sem eins og ósjaldan hefur verið minnt á, felur í sér skilyrðislausan kærleika, réttlæti og sannleika, vilji afhjúpa og varpa ljósi á það sem hindrar okkur í því stóra verkefni að þekkja okkur sjálf. 

Hann kemur og ögrar hinum og þessum kerfum samfélagsins, leiðir menn til nýs skilnings á ýmsum gildum eins og kærleikanum, að hann sé einmitt hægt að ástunda á skilyrðislausan hátt. Hann opnar augu fólks fyrir aðstæðum þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu, sem hafa verið útilokuð og jafnvel dregin inn í forarpytt fordómafullra viðhorfa. 

Þessi saga Jesú hefur verið notuð í ýmsum öðrum sögum, við höfum séð hana í kvikmyndum þar sem sögupersóna kemur óvænt inn í líf fólks og fær það til að hugsa lífið og gildin alveg upp á nýtt, kemur þannig sem ljós inn í tilveru manna. Til er ógrynni af jólamyndum með þessu þema. Ég mæli einnig með sterkri og mannlegri sjónvarpsseríu „This is us.” Ég segi ekki meir.

Það er ekkert óeðlilegt að koma Jesú hafi snert við fólki og geri enn.  Sumir opna dyrnar að hjarta sínu og bjóða inn, finnst það sem Jesús hefur að segja efla fremur en annað. Aðrir opna þær ekki og finnst óþægilegt að hugsa til þess að maður fyrir 2000 árum sé enn að tala inn í nútímann. Er það gerlegt, hver er hann þá, hvernig í ósköpunum gat hann haft þessi áhrif á veröldina? 

Til að svara þessu þurfum við í bland við annað að takast á við okkur sjálf, bakgrunn okkar, fjölskyldusögu, þau gildi sem hefur verið miðlað til okkar, áfallasögu og þær varnir sem við grípum til, allt sem leiðir okkur til bættari sjálfsskilnings, því Jesús ögrar honum með sögu sinni, orðum, atferli. 

Ég tel það enga tilviljun að hann segi þessi orð:  

„Óttast þú eigi, trú þú aðeins.”

Hann vissi að ótti lamar, hann getur stjórnað okkur á djúpstæðan hátt, það eru ótalmörg áreiti og áhrif sem ala á ótta í dag og stýra okkur, viðhorfum okkar og hugarfari, óttinn fær okkur til að draga okkur inn í skel, inn í myrkur, við getum orðið þrælar varnarhátta og förum að segja og gera hluti sem þola ekki ljósið. Trúartraustið er hins vegar lífæð sem hjálpar okkur að vinna á ótta, trúin veitir þann kjark, það að geta treyst bæði sér og umheiminum vekur hjá okkur vellíðan sem styður okkur í því mikilvæga verkefni að komast að því hver við erum.

Og hluti af þeim stuðningi sem Jesús færir okkur þar er að birtast okkur sem barn, sem laðar fram svo margt gott í mannskepnunni, varnarlaust barn minnir okkur jafnvel á það að losa um þær varnir sem við höfum þróað með okkur og reynast hindrun, barnið sem kallar fram tærar hugsanir og lýsandi farveg inn að innstu hjartarótum. 

Séra Bolli Pétur Bollason

1,317