trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 26/01/2018

Óráðin fjegur

Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skilaði af sér 70 blaðsíðna skýrslu. Hana hefur höfundur þessa pistils ekki lesið, aðeins niðurstöður nefndarmanna, sjöliða tillögur. Þrjár þeirra má telja þess virði að hrinda beri þeim fram; lækkun virðisaukaskatts á afurðir rafrænna miðla, endurgreiðslu á hluta kostnaðar við textagerð og talsetningar, og gagnsæi við kaup hins opinbera á auglýsingum.  

Fjórar tillögur eru svo vondar að Viðskiptaráð hefur þegar fagnað þeim. Fyrst skal þar telja tillögu um að Útvarpið fái ekki að birta auglýsingar. Ein afleiðing yrði sú að rekstur þess yrði enn háðari fjárveitingum frá alþingi en nú er. Þing sem skipað væri sérhagsmunafólki og tætingi að meirihluta gæti því svelt það í hel í nafnleysi bjölluhringingar á Alþingi. Auglýsingabann á fjölmiðil er ein tegund ritskoðunar sem meðal annars kæmi í veg fyrir að auglýsingastofur geti gegnt því hlutverki að ráðleggja viðskiptamönnum sínum að birta auglýsingar þar sem bestur árangur næst.

Annað fagnaðarefni Viðskiptaráðs er tillaga um afnám á banni við áfengis- og tóbaksauglýsingum. Það telur ráðið skref í rétta átt. Það eru þó ekki lýðheilsusjónarmið sem ráða fögnuði þeirra heldur sú skáldaða blekking að afnám bannsins jafni “samkeppnisstöðu innlendra áfengisframleiðenda og fjölmiðla við samkeppnisaðila sína erlendis.”

Þriðja óráðið sem Viðskiptaráðið fagnar “heilshugar” er end­ur­greiðsla á hluta kostnaðar vegna fram­leiðslu á frétt­um og frétta­tengdu efni. Sem betur fer eru hér starfandi fjölmiðlar þar sem fréttamenn leggja metnað sinn í að flytja sannar fréttir og greinargóðar. Þeir eiga heiður skilið og njóta trausts. En. Ef greiða á kostnað við fréttaöflun þarf að flokka fréttirnar því varla er ætlunin að greiddur verði kostnaður við gerð falsfrétta, eða hvað? Og hver á þá að vera í flokkunar- og kostnaðarmatsnefnd frétta? Ég, Úlfar Þormóðsson? Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Óli Björn Kárason, alþingismaður, Björn Bjarnason, formaður Varðbergs? Það má sjá það gleraugnalaust að þetta gengur ekki. Þetta er afleit hugmynd.

Fjórða vonda tillaga nefndarinnar er að veita megi undanþágur frá “textun” og talsetningu eins og hugmyndin er orðuð af nefndarmönnum. Þetta yrði til þess að veikja enn stöðu íslenskunnar og ætti ekki að vera til umræðu á sama tíma og verið er að leita leiða til þess að efla hana og tryggja henni framhaldslíf.

Ólabirnir heimsins og aðrir talsmenn viðskiptaráða gera sér ef til vill aldrei grein fyrir því að burðir eins yfir annan verða ekki jafnaðir með fégjöfum hvaða nöfnum sem nefndar eru. Við því er ekkert að gera.

Hina, sem kunna að greina metnað frá fégjöfum, bið ég eindregið að hindra samþykkt óráðanna fjögurra sem hér hafa verið nefnd.

 

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,305