Ökklabandið
Ef maðurinn er glæpon og þarf að sitja af sér dóm er það til stórkostlegra bóta að fá ökklaband. Þá getur maðurinn spókað sig almannafæri, sinnt viðskiptum utan múra og látið gott af sér leiða.
Ólafur Ólafsson, oft kenndur við Samskip hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm fyrir Al Thani-málið svokallaða. Eftir stutta viðkomu á Kvíabryggju fékk hann inni á hjá Samhjálp í Reykjavík, þáði ökklaband og fór á stúfana. Hann vildi fjárfesta, enda kunni hann það frá dögunum fyrir dóm. Einhvern pening átti hann áður en hann fór á Bryggjuna og þegar hann kom í bæinn keypti hann lóðir í vesturbæ Reykjavíkur, á dýrasta stað, Héðinsreitnum.
Alkunna er að það er ekki nóg til af íbúðahúsnæði í höfuðborginni. Þjóðskrá telur að það vanti um átta þúsund íbúðir á markað til að mæta eftirspurn. Þetta veit Ólafur með ökklabandið. En hann ætlar ekki að byggja íbúðir á lóðinni sinni; hann er viðskiptajöfur og ætlar að reisa hótel. Tvö hótel.
Til þess að fá ökklaband þarf fangi að hafa sýnt umtalsverða betrun í tugtinu enda margir kostir við að bera ökklaband. Sá sem gengur með það sér vítt yfir og vegna betrunar sinnar gerir hann sér góða grein fyrir því hvar að kreppir í samfélaginu. Og hafi sá hinn sami átt erlendan gjaldeyri í Hruninu getur hann bætt úr því með „aukakrónum“ sem hann fékk á fjárfestingarleið Seðlabankans fyrir að skila nokkrum þeirra heim. Og nú breytast þær í hótel. Það er gott að vera með ökklaband.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020