trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 06/03/2018

Okkar eigin okrarar

Ég sá snotra skó í búðarglugga við Skólavörðustíginn. Það var í desember. Þeir kostuðu 18 þúsund og eitthvað. Samskonar skór blasa við mér hér suður í höfunum þremur mánuðum síðar. Þeir kosta 3.125 krónur. Verðmunur svo til sexfaldur Íslending í óhag.

Ég hef ekki hugmynd um markaðsverða á gallabuxum sem seldar eru á Skólavörðustígnum. En nýverið sá ég auglýsingu frá herrafataverslun í Kringlunni. Þar voru gallabuxur boðnar á 5.900 – 6.900 – 7.900 krónur. Á útsölu, útsölu, útsölu. Gefum okkur að kaupmaðurinn vilji gera vel við kúnnann og útsöluverðið sé helmingur af venjulegu búðarverði. Þá hefðu buxurnar kostað 12, 14 og 16 þúsund fyrir útsölu. Í gær sá ég gallabuxur á 1.750 krónur í prýðis búð. Og þar var engin útsala. Verðmunur breytilega margfaldur Íslending í óhag.

Ég er ekki mikill búðaflakkari en ætla þó að nefna tvennt til viðbótar. Suður í höfum kosta 300 grömm af nautahakki þrefallt minna en í Bónus, sem þó er sannarlega lágvöruverðs verslun heima. Þetta magn reyndist meira en helmingi drýgra til matargerðar en bónushakkið hefur nokkru sinni gert.

Og.

“Íslenskur þorskur”, hvað skepna sem það nú er, kostar frá 1.375 upp í 2.000 krónur hingað kominn suður í höfin, soðinn, steikur, nýr saltaður, borinn fram með kartöflum og haug af grænmeti og seldur á veitingastað. Hvað hann kostar í vertshúsi við Skólavörðustíginn veit ég ekki fyrir víst því ég borða heima – þegar ég er heima – eftirlaunamaðurinn, en ég veit þó af lestri matseðla að ámóta skammtur og hér býðst er að minnsta kosti helmingi dýrari á Stígnum en hér syðra.

Verðlag á vöru og þjónustu er hátt á Íslandi. Þúsund sinnum hafa fræðingar viðskiptalífsins skýrt það með háum launum verkalýðsins. Nú vill svo til að nefndar gallabuxur eru saumaðar á láglaunasvæði miðað við Ísland og skórnir smíðaðir þar líka. Launataxtarnir heima skýra því á engan veg háa verðið.

Jafn oft hefur hátt verðlagið verið afsakað með því að varan sé komin til okkar um óralangan veg. Og dýran. Þessi rök halda ekki frekar en þau um háu launin. Hér í hafinu, jafnlangt frá framleiðslulöndunum og Ísland, er allt miklu ódýrara.

Og fiskurinn, kaupmaður!

Hingað kominn yfir höf og lönd. Alla þessa leið. Að heiman og hingað. Og ódýrari hér en þar, ódýrari en í fjöruborði fiskimiðanna.

Niðurstaða þessarar óvísindalegu könnunar, eða reynslu, er sú að íslenskir kaupmenn séu upp til hópa okrarar, lélegir innkaupastjórar eða svindlarar. Og jafnvel allt þetta. Það er skítt fyrir þá og okkur sem neyðumst til þess að versla við þá. Og ekki getum við, smákaupendur, farið fram á vísindalega lögreglurannsókn á viðskiptaháttum þeirra. Eða hvað?

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,188