trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 08/05/2014

Ögurstund í aðdraganda Hruns: Þegar Davíð Oddsson og Mervyn King gerðust pennavinir

Ein ákvörðun hefði öðrum fremur getað komið í veg fyrir hrun íslenska bankakerfisins.  Það var að þiggja aðstoð Englandsbanka við að draga úr umsvifum þess og þar með áhættunni fyrir allt hagkerfið. Sú aðstoð var í boði vorið 2008, en Davíð Oddsson afþakkaði hana.King og Davíð

Þetta fullyrðir Ólafur Arnarson í bók sinni, Skuggi sólkonungs, sem kemur út á morgun.

Herðubreið birtir hér kafla úr bókinni, þar sem samskiptum Davíðs og enska seðlabankastjórans er lýst, svo og afleiðingum þess að aðstoð Breta var ekki þegin.

———-

Davíð Oddsson sendi beiðni um gjaldeyrisskiptasamninga til fimm seðlabanka (Evrópu, Bretlands, Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur) þann 15. apríl 2008. Nokkrum vikum fyrr hafði Davíð óskað eftir gjaldeyrisskiptasamningi við Englandsbanka, sama dag og krónan féll um 6 prósent. Ekki hafði verið tekið vel í þá beiðni. Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, svaraði beiðni Davíðs Oddssonar um gjaldeyrisskiptasamning Seðlabanka Íslands við Englandsbanka neitandi þann 23. apríl 2008.

Svarbréf King var afdráttarlaust. Hann lýsti í bréfi sínu til Davíðs áhyggjum Englandsbanka og annarra seðlabanka af þeirri stöðu, sem komin var uppi á Íslandi, með hið gríðarlega stóra bankakerfi, þröngt aðgengi að lánsfé og seðlabanka, sem ekki gæti komið bankakerfinu til hjálpar. King nefnir sérstaklega, að skiptasamningur við vinveitt ríki gæti orðið til þess að vekja tortryggni markaðarins.

Í niðurlagi bréfsins segir King:

„Ég veit að þú munt verða vonsvikinn. En meðal vina er stundum nauðsynlegt að það sé ljóst hvað við erum að hugsa. Við höfum velt tilboði þínu alvarlega fyrir okkur. Að mínu mati mun ekkert annað en raunverulegar aðgerðir til að draga úr stærð bankakerfisins duga til að leysa það vandamál, sem nú er staðið frammi fyrir. Ég tel að hið alþjóðlega seðlabankasamfélag geti fundið leið til að bjóða fram markvissa aðstoð til þín/ykkar til að setja upp áætlun um að draga úr stærð bankakerfisins. Ég er reiðubúinn til að gera allt, sem í okkar [Englandsbanka] valdi stendur til að aðstoða ykkur við að ná því markmiði.“

Þarna býður bankastjóri Englandsbanka alla þá aðstoð, sem er í valdi þess banka, til að aðstoða Seðlabanka Íslands við að draga úr stærð hins ofvaxna íslenska bankakerfis í apríl 2008. Davíð segist hafa verið búinn að átta sig á því löngu fyrir þennan tíma að í óefni stefndi hjá íslensku bönkunum. Það vekur því furðu, að hann skyldi ekki taka tilboði King fegins hendi. Þess í stað ítrekaði íslenski seðlabankastjórinn ósk um gjaldeyrisskiptasamning í svarbréfi, sem Englandsbanki svaraði ekki.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að ekki hafi farið saman orð og athafnir hjá Seðlabanka Íslands á árinu 2008. Bankinn og stjórnendur hans hafi verið búnir að átta sig á þeirri alvarlegu stöðu, sem uppi var með íslenska bankakerfið, en hafi ekki gripið til neinna aðgerða til að bregðast við hættunni. Þá hafi bankinn ekki lagt neinar tillögur fyrir ríkisstjórnina vegna ástandsins eða einu sinni gert formlega grein fyrir stöðunni. Öll samskipti Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar hafi verið óformleg. Þrátt fyrir það telur nefndin að ríkisstjórninni hafi mátt vera ljóst í hvað stefndi.

Í skýrslunni kemur fram, að Davíð hafi greint Geir Haarde frá því samdægurs, að Englandsbanki hefði synjað beiðni um gjaldeyrisskiptasamning og verið mjög neikvæður varðandi horfur íslenska bankakerfisins. Ekki liggur fyrir hvort Davíð sagði Geir frá tilboði Kings um aðstoð Englandsbanka við að draga úr stærð íslenska bankakerfisins.

Segja má, að þessar upplýsingar um tilboð Englandsbanka um aðstoð, sem Davíð Oddsson hafnaði fyrir hönd bankastjórnar Seðlabankans, séu einna markverðustu nýju upplýsingarnar, sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í apríl 2008, rúmum fimm mánuðum áður en bankakerfið féll hér á landi og bresk stjórnvöld beittu bresku hryðjuverkalögunum gegn Íslandi og Landsbankanum sérstaklega, bauðst sjálfur bankastjóri Englandsbanka til að setja alla vigt og áhrif þess banka í að aðstoða okkur Íslendinga við að minnka bankakerfið okkar. Einhvern tíma hefði slíkt þótt tíðindi.

Það voru vonbrigði, að rannsóknarnefndin skyldi ekki hafa fylgt þessu máli betur eftir og grafist fyrir um ástæður þess, að bankastjórn Seðlabankans hafnaði þessu tilboði Englandsbanka. Full ástæða hefði verið til að kanna hvernig að þeirri ákvörðun var staðið innan Seðlabankans og hverjir komu að henni. Þá hefði verið ástæða til að kanna til hlítar hvort Seðlabankinn tilkynnti ríkisstjórninni um tilboðið og þá með hvaða hætti. Raunar má færa góð rök fyrir því að það sé rannsóknarefni út af fyrir sig hver samskiptin voru milli Seðlabankans og ríkisstjórnar um þetta mikilvæga bréf og hvernig var háttað þeirri ákvörðun að virða boð bankastjóra Englandsbanka að vettugi.

Fimm mánuðum síðar var íslenska bankakerfið hrunið og komin upp milliríkjadeila milli Íslands og Bretlands og Hollands vegna Icesave. Ætla má, að Icesave deilan hefði tæpast komið upp ef gengið hefði verið að tilboði Englandsbanka. Ólíklegt er að Landsbankinn hefði fengið að taka við innlánum á Icesave í Hollandi ef samstarf við Englandsbanka um minnkun bankakerfisins hefði verið komið í gang. Landsbankinn opnaði fyrstu Icesave reikningana í Hollandi einungis sex dögum eftir að tilboð Englandsbanka barst.

Þarna kann að vera að leita skýringarinnar á því hvers vegna íslensk stjórnvöld brugðust ekki harðar við beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslendingum í Bretlandi. Hvað segja hluthafar íslensku bankanna og kröfuhafar við því að Bretum var leyft að hirða eigur þeirra án þess að Ísland hreyfði við því mótmælum sem neinu næmi?

Ef gengið hefði verið að tilboði bankastjóra Englandsbanka má ljóst vera, að gengið hefði verið í að minnka íslenska bankakerfið annað hvort með sölu á erlendum eignum bankanna eða jafnvel sölu/flutningi bankanna sjálfra til útlanda. Vitað er að bankarnir voru sjálfir að reyna að selja erlendar eignir sínar á þessum tíma en aðkoma Englandsbanka hefði án efa breytt miklu í þeim efnum.

Höfnun Seðlabanka Íslands á tilboði Englandsbanka um aðstoð í apríl 2008 var líkast til „stóri glæpurinn“ í aðdraganda bankahruns á Íslandi. Án efa hefur hrokafull og jafnvel barnaleg afstaða Seðlabankans valdið einhverju um þær kuldalegu mótttökur, sem við Íslendingar fengum erlendis, og þá sérstaklega í Bretlandi, þegar bankakerfið svo riðaði til falls í lok september og byrjun október sama ár.

Allt þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Ef Englandsbanki og aðrir stærstu seðlabankar heims hefðu gengið í það að minnka íslenska bankakerfið vorið 2008 er ljóst, að bankahrunið hér á landi hefði ekki orðið. Dregið hefði verið hratt úr umsvifum bankanna og höfuðstöðvar þeirra fluttar frá Íslandi og þar með ábyrgðin af starfsemi þeirra. Icesave hefði ekki orðið milliríkjadeila milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar. Íslenska krónan hefði ekki hrunið ef styrkur Englandsbanka og annarra helstu seðlabanka heimsins hefði staðið að baki henni.

Þetta vekur nokkrar spurningar:

• Skildi Davíð Oddsson ekki hvað Mervyn King var að bjóða okkur Íslendingum?

• Skildi Davíð hvað King var að bjóða en lét það samt sem vind um eyru þjóta?

• Tók Davíð einn ákvörðunina um að virða boð King að vettugi?

• Upplýsti Davíð Geir H. Haarde, forsætisráðherra og æðsta yfirmann Seðlabankans, um kostaboð King? Davíð bar skylda til að upplýsa forsætisráðherra um boðið, sérstaklega ef hann taldi sjálfur að bankakerfið stæði á bjargbrúninni.

• Hafi Davíð borið málið undir Geir, var þá Geir samþykkur afstöðu Davíðs um að þiggja ekki aðstoð Englandsbanka?

Stóri glæpurinn í aðdraganda bankahruns var að hafna aðstoð Englandsbanka við að minnka íslenska bankakerfið í apríl 2008. Ljóst er að Davíð Oddsson er sekur.

Spurningin er einungis ein:
Var hann einn að verki?
Hafi Geir H. Haarde vitað af þessu tilboði Kings og tekið ákvörðunina um að hirða ekki um það má færa rök fyrir því að rétt hefði verið að draga hann fyrir Landsdóm vegna þeirra saka. Hafi hann ekki vitað af þessu voru engar forsendur til að höfða Landsdómsmál gegn honum þar sem sökin lá þá að fullu hjá seðlabankastjóranum, sem heyrir ekki undir Landsdóm.

Þá er einni spurningu ósvarað. Hafði Davíð Oddsson sjálfur einhverja hugmynd um það hvernig átti að bregðast við aðsteðjandi vanda íslenska bankakerfisins ef hann gerði sér þá yfirleitt grein fyrir honum? Áður hefur verið nefnt að hann virðist ekki hafa gert sér grein fyrir þeim alvarlegu afleiðingum, sem sú krafa Seðlabankans um að bankarnir gerðu upp í krónum, og tækju þannig stöðu gegn krónunni, hafði. Varla hefði hann haldið fast í þá kröfu hefði hann séð fyrir afleiðingarnar. Þá var það undarleg ráðstöfun hjá Seðlabankanum, á sama tíma og bankinn gerði dauðaleit eftir stuðningi erlendra seðlabanka vorið 2008, að afnema með öllu bindiskyldu í útibúum íslenskra banka erlendis og hlaða þannig enn frekar, en áður hafði verið gert, í Icesave snjóhengjuna.

Flokkun : Efst á baugi
1,758