trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 02/11/2014

Nýtt Ísland – Hvernig viljum við að hafa það?

Það fer varla framhjá neinum að þjóðfélagið okkar hefur ratað í öngstræti.

Traust á helstu stofnunum samfélagsins er í lágmarki og enginn virðist átta sig á hvernig hægt er að laga það.

Síðasta ríkisstjórn byrjaði sem vonarstjórn árið 2009 en endaði sem stjórn vonbrigða. Skyldi svo sem engan undra því verkefnin sem lágu fyrir voru í raun óvinnanleg á þeim tíma sem hún hafði. Ekki misskilja mig, þótt sumt hafi heppnast ágætlega var annað sem klúðraðist algjörlega, óháð öllum tímamörkum. Þar er auðvitað eðlilegast að byrja að benda á það sem lofað var og hefði munað svo miklu um: raunverulega skjaldborg um heimilin, nýja stjórnarskrá og innköllun kvótans.

Nú er málum þannig fyrirkomið að við höfum vart undan að átta okkur á vitleysunni, benda á hana og hneykslast. Vandræðagangurinn er kominn langt út fyrir mörk ímyndunarafls venjulegs fólks – you can´t make this shit up, eins og maðurinn sagði. Það sem hæst bar í síðustu viku voru vopnamál lögreglu og landhelgisgæslunnar sem virðist ekki einungis margsaga í viðkvæmu máli heldur hefur tollurinn nú gert góssið upptækt því það var ekki flutt inn eftir „lögformlegum leiðum“ (sem er new-speak fyrir smygl) og vandræðaleg skýrsla lögreglunnar um mótmæli frá 2008 – 2011. Þar opinberast að lögreglan njósnar um almenna borgara, flokkar þá eftir pólitískum skoðunum, kann ekki á einföld ritvinnsluforrit og skilur ekki lög um persónuvernd. Og það sem er kannski klikkaðast er að það er enginn ráðherra til svara fyrir þetta allt. Sá ráðherra sem var settur yfir þessi mál í upphafi kjörtímabilsins og hlýtur að þurfa að axla ábyrgð á vopnaklúðrinu hangir á hálfum ráðherrastólnum í innanríkisráðuneytinu eins og hundur á roði en hefur sagt sig frá þessum málum vegna lekamálsins (sem við megum ekki gleyma þótt fleira dynji á okkur – og já, ég veit að það er erfitt að halda fókus á aðalatriðunum). Núverandi dómsmálaráðherra er líka forsætisráðherra og þeim sérstæðu hæfileikum búinn að geta ekki svarað einni einustu spurningu án útúrsnúninga, þ.e. í þau fáu skipti sem fjölmiðlar ná í hann. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er flokkur hans nú minnsti flokkurinn á þingi og það er í raun rannsóknarefni að enn finnist fólk sem er tilbúið að viðurkenna að það myndi kjósa flokkinn.

En þessi pistill átti einmitt ekki að vera um þetta. Hann átti að vera um hvað við viljum í staðinn.

Veturinn 2008-9 stóðum við mörg hver fyrir utan alþingishúsið og kölluðum „vanhæf ríkisstjórn“. Við vildum stjórina frá, stjórn Seðlabankans frá og stjórn Fjármálaeftirlitsins frá. Að lokum var fallist á kröfur okkar. Við skilgreindum vel það sem við vildum ekki en ekki hvað við vildum í staðinn. Og einmitt þar liggur hundurinn grafinn. Við kölluðum eina vanhæfa ríkisstjórn inn í stað annarrar. Og sú sem nú situr er sennilega sú vanhæfasta þeirra allra en því miður er harla ólíklegt að hún átti sig á því sjálf og þekki sinn vitjunartíma.

Til þess að breyta þessu er nauðsynlegt að sjá fyrir sér hvað við viljum í staðinn. Það sem ýtti við mér í þetta sinn var viðtal síðdegisútvarps Rásar 2 við Jón Steinsson hagfræðing þar sem hann bendir á að íslendingar eigi álíka verðmætar náttúruauðlindir og ríkasta þjóð í heimi, Noregur. Munurinn liggur í því hver nýtur arðsins af þeim. Í Noregi njóta landsmenn þeirra á meðan Íslendingar hafa lagt lóð sín á vogarskálarnar við að afsanna brauðmolakenninguna með hörmulegum afleiðingum fyrir íbúa landsins sem dag einn vöknuðu í rústunum. Eins og Jón bendir á er Ísland núna láglaunaland. Það mun verða það áfram nema við breytum því sjálf og ef það á að vera hægt þurfum við að fá arðinn af auðlindunum sjálf. Svo vill til að íslenskir kjósendur hafa nú þegar ákveðið að svo skuli vera en yfirgnæfandi hluti kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni um frumvarp stjórnlagaráðs vildi að náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign. Eins og staðan er núna hagnast aðeins brot þjóðarinnar og erlend stórfyrirtæki á íslenskum náttúruauðlindum. Stór hluti arðsins rennur auk þess úr landi. Og arður þeirra Íslendinga sem hafa hagnast á fiskinum í sjónum átti kannski stærstan þátt í því að blása upp bankakerfið sem enn er alltof stórt sex árum eftir að það hrundi og skilar ofurhagnaði ár eftir ár. Það sér hver maður að það er eitthvað bogið við það.

Stærsta hagsmunamál Íslendinga er að þeir fái arðinn af auðlindum sínum.

Það á og þarf að vera forgangsmál allra sem vilja vinna þjóðfélaginu gagn. Án þess getum við aldrei fjármagnað grunnþjónustuna, svo sómi sé af, og landið okkar verður áfram láglaunaland með mygluðum spítala. Þessir peningar eru nefnilega til, það þarf bara að ná í þá.

Nú hefur maður það á tilfinningunni að menn séu að búa sig undir lokaorrustuna í þessum efnum. Hagsmunasamtök í sjávarútvegi sameinast í ein enn öflugri samtök og sjávarútvegsráðherrann hefur boðað nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnunarkerfið. Hver mun gæta hags almennings er kemur að því? Varla vinstri flokkarnir sem síðast voru í stjórn, höfðu tækifæri til að breyta en sviku þá gefin loforð um þessi mál.

Okkar verkefni núna hlýtur að vera að sjá fyrir okkur hvernig samfélag við viljum byggja (það er upplagt að horfa til Noregs en algjör óþarfi að ganga í Noreg), hvernig við ætlum að fjármagna það (með arðinum af aulindunum OKKAR) og á hvaða gildum við viljum byggja (sjá t.d. frumvarp stjórnlagaráðs).

Við skulum ekki láta vanhæfa stjórnmálamenn eyðileggja þau áform að búa hér til nýtt og betra Ísland þar sem allir kennarar, læknar, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn og aðrir er sinna grunnþjónustunni eru hæfir, vel mennaðir og fá greidd mannsæmandi laun. Nýtt Ísland þar sem öflugt velferðarkerfi grípur þá sem minna mega sín, heilbrigðisþjónusta er til fyrirmyndar á Vestfjörðum sem í Reykjavík, sjúklingar sligast ekki vegna lyfjakostnaðar og þar sem þátttaka í stjórnmálum er eftirsóknarverð og þangað ræðst hæft fólk sem tekur hagsmuni þjóðarinnar fram fyrir sína eigin og kann að biðjast einlæglega afsögunar ef því verður á.

Sjáum þetta fyrir okkur og látum það gerast. Það á enginn eftir að taka þennan slag fyrir okkur, við verðum að gera það sjálf.

AR-141039844.jpg&MaxH=800&MaxW=800

 

Mynd: Halldór Baldursson. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

Flokkun : Pistlar
1,341