trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 19/05/2014

Nú mega félagsfræðingar hætta að þusa. Loksins eitthvað fyrir gaura í leikhúsinu. Sviðakjammi er byssa

Stefán Jón Hafstein heldur áfram að skrifa menningargagnrýni á mannamáli. Í þetta sinn er það sýningin Blam! í Borgarleikhúsinu, en hún hefur hlotið lof og viðurkenningu víða um lönd.Blam!

Nánar um sýninguna til dæmis hér, en gefum Stefáni Jóni orðið:

Blam! er stórskemmtileg sýning fyrir karlmenn um karlmenn. Kristján Valdimarsson kemur með hóp Dana til að setja upp listræna útfærslu á bófahasar í Borgarleikhúsinu. Á yfirborðinu er sagan um nokkra skrifstofuþræla sem leita útrásar milli excelskjala en í raun hyllir sýningin karlmannlega samkennd, leikgleði og bræðraþel sem ekki hefur beinlínis verið uppáhalds viðfangsefni leikhúsa eða listgreina á tímum blæðandi kvenleika.

Strákarnir á skrifstofunni fara í bófahasar par excellens og varla til sá strákur sem einhvern tímann hefur verið sem ekki þekkir hreyfingarnar, látbragðið og fjörið sem vellur fram í óstöðvandi þykjustuhasar. Leikararnir verða auðvitað að ýkja þetta allt og samhæfa með frábærum tímasetningum með hljóði, reyk, tónlist og meiri hvellum eins og sannir akróbatar. Bófahasarinn fær loksins þá hyllingu sem löngu var kominn tími á.

Þetta eru stritandi skrifstofumaurar sem alltaf sjá möguleika á að bregða á leik og mér fannst þetta sprenghlægilegt frá upphafi til enda og þekkti allra frasana og lætin í leikjum æsku minnar og bíóferðum liðinna daga. Ég var farinn að skellihlæja löngu áður en konurnar á næstu bekkjum vissu hvaðan á sig stóð veðrið.

Þarna var komin „combat“ slagurinn frá þeim sem kannast við Kanasjónvarpið, Terminator fílingurinn var mjög dómínerandi og sjálfsagt Die Hard líka með blandi af hinum og þessum „skæramönnum“ og vélsagarskrímslum. Hvernig maður sópar niður óvinaher með fatahengi eða hrynur niður sjálfur í dramatískum látbragðsleik um endalaust dauðastríð. Strákum verður allt að vopni og alveg sama hvað félagsfræðingar þusa um ofbeldisleikföng. Sviðakjammi er byssa, herðatré er byssa, fatastandur er vélbyssa, fatahólkur er sprengivarpa og enginn deyr alveg því alltaf þarf að efna í nýjan hasar…

Þetta var leikrit um það að fíla „resling“ eins og við kölluðum fjölbragðaglímuna í sjónvarpinu, fíla það að vera í þungarokkbandi með allar hreyfingarnar og hvað það er gaman þegar allt gengur upp eins og þegar miðaldra karlar skora úrslitamark í hádegisboltanum og fagna innilega, faðmast og hossast saman í sigurvímu með fölskvalaustu gleðibrosi.

Þeir náðu þessu mög vel strákarnir í Blam!

Sýningin í dag kallaðist á við Skálmaldartóneikana um daginnn. Ósvífin og beinskeytt strákasýning með hávaða og látum og stælum og ekkert helvítis kjaftæði…

Loksins eitthvað fyrir okkur. Strákana. Bara… gaurast.

Sýning sem allir strákar ættu að sjá og enginn karlmaður má missa af.

Flokkun : Efst á baugi
1,365