trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 04/04/2016

Norski hundurinn

Leiðari – Karl Th. Birgisson skrifar

Þegar flóknar tilfinningar leita útrásar er auðveldast að fara leið vatnsins og finna farveginn þar sem mótstaðan er minnst.Guð blessi Ísland Geir

Með reiði, hrópum og hneykslun í eyru viðhlæjenda.

Þótt mikilvægara sé að vinna á stóru steinunum sem hefta för. Hægt og bítandi.

En okkur þykja þægindin betri.

Í netmiðlaumhverfi nútímans birtist þessi tilhneiging einkum í þeirri hegðun, að skrifa og birta það sem skoðanasystkinum okkar líkar. Við þekkjum það af facebook: Skrifum eitthvað sniðugt, jafnvel snjallt, og bíðum eftir lækunum. Eftir því sem þeim fjölgar, þeim mun betur líður okkur og þeim mun sannfærðari erum við um eigið ágæti.

Þetta er alveg nothæf sjálfsstyrkingarleið fyrir einstaklinga á facebook og twitter, en málið vandast þegar heilir fjölmiðlar eiga í hlut. Eða fjölmiðlafólk á opinberum vettvangi.

Fyrir svosum sjö árum skrifaði ég örlítinn pistil um frétt sem Þóra Kristín Ásgeirsdóttir flutti á Stöð 2. Yfirbragð fréttarinnar var sakleysislegt, en kjarninn og undirliggjandi frásögnin var þessi:

Í dag lætur hinn hálfnorski Geir H. Haarde af þingstörfum vegna meðferðar við krabbameini. Í dag fékk Helgi Hjörvar norskan blindrahund sér til aðstoðar.

Þetta var svona í alvöru. Þóra Kristín súrraði saman í einni og sömu fréttinni brotthvarf hins gamla norska hunds og tilkomu hins nýja norska hunds. Samhengið var öllum ljóst sem á horfðu.

Ég er enginn aðdáandi Geirs Haarde. Hann er ýmislegt í mínum huga, sumt slæmt og annað skárra. En hann er fyrst og síðast manneskja. Ekki norskur hundur.

Ef ætlunin var að vekja athygli á því sem Geir Haarde gerði rangt, þá féll hún um sjálfa sig með þessum kjánalega samanburði Þóru Kristínar.

Þetta var fyrir sjö árum.

Í gær gengur Kvennablaðið enn lengra í viðlíka umfjöllun og kann sér ekkert hóf:

Lögmannsstofan í Panama, sem aðstoðaði við stofnun aflandsfyrirtækja sem síðar enduðu í eign forsætisráðherra og „hóps íslenskra stjórnmálamanna,“ tók þátt í að hylma yfir með barnaníðingum og alls kyns öðrum glæpamönnum og peningaþvættisþjófum.

Jebbs. Barnaníðingum. Þið lesið þetta bara sjálf.

Ég er enginn aðdáandi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, svo að ég sé nú venju fremur kurteis.

Kvennablaðið hefur farið mikinn í umfjöllun um Wintris-mál forsætisráðherra, stundum ágætlega, stundum mun síður.

En þegar miðillinn kýs að setja Sigmund Davíð Gunnlaugsson í hóp með barnaníðingum, nauðgurum og rússneskum mafíósum, þá er heldur langt til jafnað.

Meira að segja fyrir minn smekk á honum.

Það þarf ekkert að setja Sigmund Davíð Gunnlaugsson í samhengi við fyrirlitlega glæpamenn. Hann er það ekki og svo víðs fjarri því. Og reyndar hvílík andskotans svívirða.

Aðrar gjörðir hans dæma hann hins vegar sjálfkrafa úr embætti forsætisráðherra hvaða vestræna lýðræðisríkis sem er. Alveg skilyrðislaust. Ósköp væri gott að halda fókus þar, en ekki á samanburðarkláminu.

Kvennablaðið er hreint ekki eitt um þessi samanburðarviðbrögð, en það fylgir fordæmi vatnsins og leitar þangað sem fyrirstaðan er minnst.

Það gæti þó lært eina grundvallarlexíu af Kastljósi, Reykjavik Media og öllu hinu alþjóðlega fjölmiðlaumhverfi:

Fjölmiðill hefur engin áhrif með skoðanaríki, upphrópunum og hneykslun á nýjasta skandal dagsins.

Fjölmiðill getur hins vegar haft áhrif með upplýsingum, staðreyndum og heiðarlegri greiningu á þeim.

Þannig tekst okkur að sverfa jafnvel stærstu steinana. Hægt og bítandi.

1,718