trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 23/05/2014

Nokkrir skrítnir dagar með Pírötum

Upp úr síðustu mánaðarmótum upplifði ég undarlega viku. Hún hófst á föstudagskvöldi 2. maí þegar ég skráði mig í Pírata og segja má að farsanum hafi lokið föstudagskvöldið 9. maí eða dagana þar á eftir. Síðan þá hef ég lítið verið við tölvu eða net en mér finnst hluti af því sem átti sér stað það alvarlegt að ekki sé annað hægt en að gera grein fyrir því á opinberum vettvangi.

Þessi rúma vika sem félagi í Pírötum var gríðarlega fróðleg fyrir manneskju eins og mig sem hef viljað hag nýrra framboða sem starfa á málefnalegum og lýðræðislegum grunni sem mestan. Ég hef meðal annars komist að því að:

  • Bara sumir félagsmenn í pírötum fá tölvupóst og fréttir frá flokknum.
  • Þingmenn flokksins láta sér detta í hug að hringja í frambjóðendur í prófkjöri til að reyna að fá þá til að falla frá framboði.
  • Hið rafræna kosningakerfi pírata virkar ekki sem skyldi og er auk þess notað til að auka á miðstýringuna í flokknum.
  • Einn af þingmönnunum er jafnframt “tæknimaður” og virðist hafa aðgang að öllum innviðum og upplýsingum í kerfinu.
  • Annar þingmaður greinir frá trúnaðarupplýsingum um starfsumsóknir til flokksins á opinberum vettvangi og reynir að nýta þær í pólitískum drulluslag.
  • Kjörnir fulltrúar leyfa sér að nota orðbragð um aðra félagsmenn flokksins sem hæfir frekar götustrákum en alþingismönnum.
  • Kjörnir fulltrúar yfirtaka félagsfundi aðildarfélags sem þeir eiga enga aðild að.

 

Forsaga málsins er sú að síðastliðið haust hélt Dögun aukalandsfund sem ályktaði að stjórnmálasamtökin skyldu taka þátt í sveitarstjórnakosningunum komandi. Það gæti gerst með ýmsum móti; í samstarfi við aðra, ein og sér, með íbúahreyfingum eða hverjum þeim hætti sem henta þætti á hverjum stað, svo lengi sem það væri á málefnalegum forsendum. Fundurinn ályktaði einnig um málefnin, lýðræðisumbætur, húsnæðismál, velferðarmál og fleira. Í kjölfarið var send út tilkynning til félaga og þeir sem hefðu áhuga á að taka þátt voru beðnir um að gefa sig fram.

Við vorum nokkur í Kópavogi sem höfðum áhuga á að gera gagn í bænum okkar. Eftir að hafa hist og borið saman bækur okkar var þó ljóst að engu okkar langaði að verða bæjarfulltrúi. Okkur var hins vegar ekki sama um bæinn okkar og vorum sammála um að víðar væri þar fnykur en í hesthúsahverfinu.

Í janúar hafði ég samband við kunningja minn, Hjálmar Hjálmarsson bæjarfulltrúa Næstbesta flokksins og bað hann að setja mig aðeins inn í stöðuna í bænum, starfið og bæjarpólitíkina. Við áttum gott spjall og Hjálmar var allur af vilja gerður til að aðstoða okkur og í kjölfarið kom upp sú hugmynd að hann myndi hitta okkur og fara með okkur yfir málin. Ég vissi af því að Píratar væru að hugsa um að bjóða fram í Kópavogi þar sem sonur minn hefur starfað með Pírötum frá því flokkurinn var stofnaður. Ég vissi líka að þeir sem voru að hittast í Kópavogi voru ungir og góðir krakkar en reynslulitlir þegar kæmi að stjórnmálum og stjórnsýslu. Því hugsaði ég með mér að þau myndu hafa gagn af því að heyra í Hjálmari líka og eftir að hafa ráðfært mig við félaga mína bauð ég þeim einfaldlega í kaffiboðið. Skemmst er frá því að segja að Hjálmar hafði frá miklu að segja og að þessi kvöldstund var afar gagnleg fyrir okkur öll og við virtumst auk þess sammála um flesta hluti. Ég velti þeirri hugmynd upp hvort ekki væri réttast að taka höndum saman og bjóða fram sameiginlega einn sterkan lista. Okkur í Dögun langaði að leggja hönd á plóg en ekki standa í eldlínunni. Menn sögðust ætla að hugsa málið. Píratar þurftu að stofna sjálfstætt félag í Kópavogi til að geta tekið formlegar ákvarðanir og því gætu þeir ekki ákveðið neitt.

Píratar stofnuðu svo félagið sitt 1. mars og þá varð til formlegur vettvangur þeirra í Kópavogi. Formaður var kjörinn, maður sem heitir Pálmi Einarsson og gat ég ekki betur séð en að málin væru í góðum höndum. Pálmi og fleiri Píratar hittu okkur í Dögun og áttum við gott spjall þar sem við sögðum honum að við værum öll að vilja gerð að aðstoða Pírata en myndum ekki bjóða fram undir eigin nafni einfaldlega vegna þess að okkur langaði ekki í bæjarstjórn og við höfðum engan áhuga á að dreifa atkvæðum á ný framboð sem kynni að valda því að ekkert þeirra kæmi manni að.  Pálmi þakkaði stuðninginn og við ákváðum að vera í sambandi síðar. Ég kom honum einnig í samband við reynsluboltann og viskubrunninn Hjálmar Hjálmarsson sem endilega vildi veita aðstoð og ræða við sem flesta.

Svo dregur ekki til tíðinda fyrr en eftir páska. Þá var ég reyndar löngu búin að gefa upp á bátinn að eitthvað yrði af þátttöku Dögunar í sveitarstjórnarkosningum í Kópavogi. Þá var staðan hjá Pírötum orðin þannig að formaður félagsins og oddvitaefni hætti bæði í stjórn og við að bjóða sig fram. Halda þurfti aukaaðalfund til að kjósa nýjan formann og breyta einhverjum samþykktum því þau voru að renna út á tíma og hið rafræna kosningakerfi Pírata er svifaseint að mér skyldist. Árni Þór Þorgeirsson hafði samband við mig og spurði hvort ég væri ekki til í að mæta á þennan fund þeim til halds og trausts sem óháður reynslubolti. Það var alveg sjálfsagt af minni hálfu enda hafði ég þegar boðist til að aðstoða þau með hverjum þeim hætti sem ég gæti.

Fundurinn var haldinn að kvöldi 23. apríl og það kom mér skemmtilega á óvart að sjá að þarna var fólk á öllum aldri og hellingur af því. Það virtist reyndar koma stjórn Pírata í Kópavogi jafnmikið á óvart og mér hvað það mættu margir því fram til þessa hafði verið mannekla í félaginu og starfið lent á herðum fárra. Nú voru allt í einu ekki til stólar undir nema hluta af mannskapnum.

Fundurinn hófst á að gefa öllum fundargestum atkvæðarétt en samkvæmt lögum félagsins átti enginn að fá að kjósa nema hafa verið í félaginu í 30 daga. Ég ákvað að nýta mér ekki þann atkvæðarétt sem fundurinn veitti mér enda fannst mér ég ekki eiga að hlutast til um samþykktir og starf í félagi sem ég væri ekki í.

Tekist var á um tvennt á þessum fundi: Lagt var til að hægt væri að taka ákvarðanir í félaginu án þess að það færi allt í gegnum rafrænt kosningakerfi Pírata á landsvísu og lagt var til að opnað yrði fyrir möguleikann á að bjóða fram með öðrum hópum undir listabókstaf Pírata en nafninu Píratar og umbótasinnar.

Rökin fyrir því að notast ekki við rafræna kosningakerfið fannst mér nokkuð góð. Píratar í Kópavogi voru einfaldlega að renna út á tíma en afgreiðsla í gegnum kerfið er tímafrek og ef eitthvað ætti að reyna að flýta fyrir myndi það krefjast forritunarvinnu og hún tæki þann tíma sem myndi sparast. Auk þess væru allir Píratar í Kópavogi í Kópavogi og því mun einfaldara að hittast í eigin persónu til að taka ákvarðanir en að nota netið.

Þá kom einnig fram á fundinum að stjórn félagsins fengi ekki að vita hverjir væru félagsmenn í þessu félagi sem þau þó stofnuðu. Skráning færi fram í gegnum móðurfélagið sem héldi í alla þræði og neitaði stjórninni um félagatal vegna persónuverndarsjónarmiða. Það fannst mér kúnstugt því þótt félagatöl stjórnmálasamtaka eigi ekki að liggja á glámbekk hlýtur það að vera réttur stjórnar að vita hverjir eru félagar og hverjir ekki og ómögulegt að halda utan um félagsstarf án aðgangs að félagatali. Eins hafði stjórnin rekist á veggi við að reyna að nota kosningakerfið. Það virtist vera opinbert leyndarmál Pírata að kosningakerfið þeirra virkaði ekki sem skyldi m.a. vegna þess að þeir forritarar sem hefðu komið að því væru báðir horfnir til starfa í útlöndum og því erfitt að eiga við það. Einn af örfáum tæknimönnum sem eftir væru sem væri inni í kerfinu væri einn þingmaður flokksins, Helgi Hrafn Gunnarsson. Hann væri auðvitað í fullu starfi við annað.

Þá kom einnig fram að erfitt hafi reynst að fá niðurstöður úr prófkjöri Pírata í Reykjavík enda hafi kerfið verið hannað með þeim hætti að allir píratar hefðu kosningarétt allsstaðar. Því hafi þurft að fara yfir niðurstöður hinna rafrænu kosninga handvirkt til að sjá hvort aðeins þeir sem höfðu kosningarétt hafi greitt atkvæði – sem hlýtur að þýða það að kosningin var ekki leynileg, alla vega ekki í augum þess eða þeirra sem fóru yfir niðurstöðurnar.

Í fundarhléi spjallaði ég við geðþekkan náunga sem sagði mér að að hans mati væri það mikilvægasta við framboð Pírata í sveitarstjórnum að reyna að brjóta upp miðstýringuna í flokknum. Að hans mati var meiri miðstýring innan Pírata en innan gamla Alþýðubandalagsins þar sem klíkuveldið var þó alræmt. Hann hefði samanburðinn. Lítil klíka í kringum þingflokkinn reynda að ráða öllu sem hún gæti og afar brýnt væri að reyna að koma upp fleiri kjörnum fulltrúum til að dreifa valdinu og skapa mótvægi við þessa valdaelítu. Þetta var ekki alveg í fyrsta sinn sem ég heyrði á þetta minnst.

Helstu niðurstöður fundarins voru að hægt væri að klára og samþykkja stefnumál án þess að það færi í gegnum rafræna kosningakerfið en að prófkjör þyrfti að fara sína leið í gegnum kerfið. Það kom mér töluvert á óvart hve hluti fundargesta lagði mikla áherslu á að ákvarðanir væru aðeins teknar með rafrænum kosningum, sérstaklega í ljósi tilgreindra annmarka og ekki síst í ljósi þess að væri það gert var ljóst að aðeins fáir félagsmenn myndu hafa atkvæðarétt því fólk þarf að hafa verið skráð í félagið í 30 daga til að mega kjósa og félagið var ekki einu sinni orðið 60 daga gamalt.

Þá var borin upp tillaga um að möguleiki væri á að bjóða fram undir listabókstaf Pírata en heitinu “Píratar og umbótasinnar”. Hluti fundargesta var hrifinn af þeirri hugmynd enda höfðu virkir píratar í Kópavogi fram til þessa ekki náð tölunni 11 sem er lágmarksfjöldi á framboðslista. Aðrir voru algjörlega á móti því. Að lokum var sú tillaga þó samþykkt sem þýddi að fleiri hópar eða einstaklingar gætu tekið þátt með því að skrá sig í Pírata og í prófkjör sem þeir hefðu þó ekki leyfi til að taka þátt í. Ég tók ekki þátt í þessari atkvæðagreiðslu frekar en öðrum á fundinum.

Eftir fundinn hafði ég samband við fólkið mitt í Dögun en einnig Hjálmar og Næstbesta flokkinn og funduðum við öll með stjórn Pírata í Kópavogi 1. maí. Hjálmar ákvað að halda sína leið og bjóða fram með sínu fólki undir merkjum Næstabesta flokksins en við héldum áfram að velta vöngum. Þetta var ansi undarleg staða sem komin var upp; til að taka þátt sem “umbótasinnar” þyrftum við samt að gerast Píratar og bjóða okkur fram en máttum ekki taka þátt í kjörinu sjálf!

Eftir að hafa sofið á þessu eina nótt ákváðum við þó að láta slag standa, einkum þó vegna þess að við höfðum engar sérstakar ambisjónir um að lenda ofarlega á listanum. Framboðsfresturinn rann út á hádegi 3. maí og á sama tíma hófst prófkjörið en því lauk svo nákvæmlega þremur sólarhringum seinna, á hádegi þriðjudagsins 6. maí. Þarna upphófst súrrealísk atburðarrás.

Föstudagskvöldið 2. maí stóðum við því nokkur í því að skrá okkur í Pírata sem reyndist þrautinni þyngri því kerfið var eitthvað bilað. Okkur var komið í samband við “tæknimanninn” Helga Hrafn sem aðstoðaði okkur við innskráningu frá því rétt fyrir 22:00 fram yfir miðnætti og þar með voru nokkrir félagar í Dögun orðnir að Pírötum. Sum okkar höfðu ekki notað Íslykilinn áður og fengu hann ekki sendan í heimabankann eins og átti að gerast en það tókst að skrá þau inn framhjá kerfinu. Helgi var bara hress og kvaddi svo með orðunum “Þá kveð ég og held á fyllerí, börnin góð! Lifi lýðræðið! o/  – Stay crazy!”

Snemma á sunnudagsmorgninum (ja alla vega miðað við að þetta var sunnudagur) hringdi Helgi Hrafn svo í mig og átti við mig undarlegt erindi. Hann sagðist ekki vita hvort einhver óuppgerð mál væru á milli okkar Birgittu því þau í þingflokknum töluðu aldrei um mig nema þegar rætt væri um stjórnarskrána. Birgitta væri hins vegar gjörn á að lesa stundum meira í aðstæður en tilefni væri til og því hefði hann áhyggjur af því að ég væri að bjóða mig fram í þessu prófkjöri og velti fyrir sér hvort það væri heppilegt og gæti kannski skapað leiðindi. Ég tjáði honum að ég vissi ekki til þess að við Birgitta ættum einhver mál uppgerð, við hefðum meira að segja borðað saman hádegismat vikuna áður þótt ég vissi til hvers hann væri að vísa þegar hann sagði að hún ætti til að leggja saman 2+2 og fá 5. Svo útskýrði ég að hvorki ég né aðrir úr Dögun ætluðum okkur stóra sigra í þessu prófkjöri, við vildum bara hjálpa. Þarna væri margt gott fólk sem við teldum okkur eiga málefnalega samleið með og vildum bara leggja okkar lóð á vogarskálarnar – ef fólk vildi hafa okkur með. Ekkert okkar hefði minnstu löngun til að verða bæjarfulltrúar í Kópavogi né troða okkur í selskap þar sem nærveru okkar væri ekki óskað. Helgi skellti upp úr og var augljóslega létt. “Þú gerir þér samt grein fyrir því að þú gætir unnið,” sagði hann. Ég sagði honum að það myndi ekki gerast enda hefðum hvorki við né okkar fólk kosningarétt. Ef svo færi myndi ég þá bara láta færa mig neðar en það er heimilt samkvæmt samþykktum Pírata. Ég stefndi ótrauð á neðsta sætið og hefði meira að segja planað sumarfríið mitt þetta árið með það í huga að láta ekki plata mig til að taka alvörusæti á neinum lista.

Við kvöddumst í góðu en eftir símtalið klóraði ég mér í kollinum. Hafði kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga virkilega hringt í mig til að reyna að telja mig af því að bjóða mig fram í prófkjöri í félagsskap sem hann var ekki einu sinni félagi í vegna þess að öðrum alþingismanni gæti þótt það óþægilegt, þótt hann vissi að sjálfsögðu ekkert um það að eigin sögn? Þetta var í meira lagi bogið.

Prófkjörinu lauk svo á hádegi þriðjudaginn 6. maí. Það kom okkur ekkert sérstaklega á óvart að við úr Dögun vorum neðst. Það eitt og sér skipti heldur engu máli. Það sem kom okkur á óvart var að Píratarnir sem höfðu lagt á sig ómælda vinnu og setið ótal málefnafundi og gert allt sem gera þurfti til að stofna til framboðsins lentu mun neðar á lista en þau höfðu boðið sig fram í. Í fjórum efstu sætum voru ungir strákar, bræður í tveimur efstu og vinur þeirra í því þriðja. Sá hafði sagt í kynningu á sjálfum sér að hann væri Pírati vegna þess að hann vildi stuðla að þörfum fólksins í Kópavogi. Bræðurnir höfðu mætt ásamt einum bróður til og foreldrum sínum á aukaaðalfundinn og þau öll alfarið verið á móti öllum lagabreytingartillögum og samvinnu við aðra hópa.

Ég sagði Árna Þór formanni að ég myndi ekki treysta mér til að vera í stuðningssæti aftan við þessa peyja, mér litist hreinlega ekkert á þá og það hafi aldrei verið meiningin að vinna með fólki nema í fullri sátt. Ég myndi því draga mig út úr þessu. Aðrir “umbótasinnar” upprunnir úr Dögun reyndust sama sinnis. Síðar um daginn, þegar ég var að hjóla heim úr vinnunni, ákvað ég að koma við á kosningaskrifstofu Píratanna í Hamraborginni og heyra nánar í þeim. Þar sat dapur hópur stjórnarmanna sem hafði ákveðið að taka ekki heldur þátt í listanum. Ekkert hafði heyrst í bræðrunum og vininum en fólk vonaði að þeir myndu hafa samband við stjórnina. Ég stoppaði stutt við því ég var að fá stórfjölskylduna heim í júróvisjónpartí.

Um kvöldið, eftir að Pollapönkararnir voru komnir áfram í Júróvisjón, hringdu Píratarnir og spurðu hvort ég gæti hitt þau smá stund. Ekkert mál, ég skundaði upp í Hamraborg. Þar voru staddir flestir ef ekki allir frambjóðendur pírata í prófkjörinu fyrir utan bræðurna og vininn en auk þess fleiri Píratar sem höfðu verið að vinna með þeim. Enginn treysti sér til að vera á listanum eins og hann kom út úr kosningakerfinu. Bræðurnir höfðu komið og hitt þau og þeim verið tjáð að stjórnin treysti sér ekki til að vinna að framboði þeirra og engir væru eftir á listanum nema þeir. Engan samstarfsvilja var að finna hjá þeim bræðrum og þeir voru harðákveðnir í því að niðurstaðan skyldi standa. Þeim var þá tilkynnt að þeir þyrftu að vinna að sínu framboði sjálfir, þ.e. finna frambjóðendur til að filla á listann, safna undirskriftum og skila inn kjörgögnum. Það er held ég ekkert óeðlilegt við það, alla vega hefur því verið þannig háttað í þeim framboðum sem ég hef tekið þátt í til þessa. Frambjóðendur flestra flokka safna undirskriftum stuðningsmanna sjálfir.

Stjórnin tilkynnti bræðrunum einnig að hún myndi að sjálfsögðu halda áður boðaðan félagsfund föstudagskvöldið 9. maí þar sem listinn í endanlegri myndi yrði borinn undir félagsmenn til samþykktar eða synjunar eins og henni bæri að gera. Þeim var einnig tilkynnt að húsnæði Pírata í Hamraborginni hefði verið leigt af einstaklingi en ekki félaginu. Leigutakinn studdi fjölskylduframboð þeirra bræðra ekki og myndi ekki lána þeim húsnæðið undir kosningaskrifstofu.

Um kvöldið var samt hugur í stjórn og stuðningsmönnum Pírata í Kópavogi því nú hafði nýrri hugmyndi skotið upp á yfirborðið. Af hverju ekki bara að bjóða fram undir merkjum Dögunar í staðinn? Ég hringdi í mitt fólk sem brást vel við og flýtti sér á staðinn. Síðar um kvöldið mætti einnig framkvæmdastjóri Pírata á landsvísu, Sindri Þór Hilmarsson.

Eftir nokkrar umræður og símhringingar m.a. í formann framkvæmdaráðs Dögunar sáum við ekki nokkra meinbugi á því að boða til félagsfundar Dögunar í Kópavogi sem gæti tekið ákvörðun um framboð og val á framboðslista. Fréttabréf var sent út og fundur boðaður daginn eftir, miðvikudaginn 7. maí.

Sá fundur var skemmtilegur enda hugur í fólki. Framboðslisti var valinn á staðnum en samþykktir Dögunar bjóða upp á mun meira svigrúm en hið formfasta og miðlæga kerfi Pírata. Í Dögun er miðast við að ákvarðanir séu teknar í “konsensus”, þ.e. að menn ræði sig niður á niðurstöðu en forðist atkvæðagreiðslur. Komi til þeirra þarf hins vegar aukinn meirihluta til að samþykkja ákvörðun. Lýðræðið felst nefnilega miklu frekar í samræðunni en atkvæðagreiðslunni að okkar mati.

Á fundinum var sterkur framboðslisti samþykktur einróma og ákveðið að bjóða fram undir nafninu “Dögun og sjóræningjarnir”, bæði vegna þess að Píratarnir litu enn á sig sem Pírata og vegna þess að einn Dögunarmaðurinn var eitt sinn eftirlýstur hjá Interpol fyrir sjórán. Hann var reyndar alsaklaus. Það var líka ánægjuefni að ofarlega á listanum endaði líka frábært fólk úr hvorugum hópnum, fólk sem bara vill vinna samfélaginu gagn.

Eftir fundinn var haldið út að safna undirskriftum fyrir hið nýja framboð.

Á Pírataspjallinu veltu menn eðlilega fyrir sér hvað væri á seiði í Kópavogi og kvöldið áður hafði verið sett inn færsla frá félaga sem velti fyrir sér hvers vegna stjórnarmenn Pírata í Kópavogi væru að safna undirskriftum fyrir Dögun og sjóræningja. Þar fer Helgi Hrafn mikinn í útskýringum á atburðarrásinni og sakar stjórnina um “botnlaust dómgreindarleysi” og að grafa markvisst undan framboðinu vegna óánægju með úrslitin. Svo segir hann: “Á sama tíma harðneitar yfirþyrmandi meirihluti stjórnarinnar að segja af sér” og staðfestir hann þar með opinberlega þrýsting þingflokksins á stjórn sjálfstæðs aðildarfélags. Þá sakar hann stjórnina um “aumingjaskap” og “óheiðarleika”. Þetta eru stór orð frá þingmanni sem á ekki beina aðkomu að þeim félagsskap sem um ræðir. Þá fullyrðir hann að stjórnin ætli að setja sig í efstu sæti lista Dögunar sem er rangt. Listinn lá þá þegar fyrir en í endanlegri útgáfu hans eru fyrrum stjórnarmenn Pírata í 1., 5. og 8. sæti listans. Einn stjórnarmanna, Bjartur Thorlacius sem lenti í 4. sæti í prófkjörinu hafði raðast í 2. sæti Dögunar þótt hann gerði kröfu á það fyrsta til að byrja með, ákvað að taka frekar sæti á lista Píratanna.

Föstudaginn 9. maí var svo félagsfundurinn sem boðað var til fyrir prófkjörið haldinn. Fyrr um daginn hafði félagi minn, sem ég hafði ekki haft minnsta grun um að væri skráður í Pírata, hvað þá í Kópavogi enda er hann ekki búsettur þar, samband og spurði mig hvað væri eiginlega um að vera. Hann hafði fengið tölvupóst frá Pírötum með hvatningu um að fjölmenna á félagsfund í Kópavogi til að sýna einhverjum Ingólfi stuðning. Í póstinum bað Ingólfur sem lent hafði efst í prófkjörinu alla Pírata á suðvesturhorninu að mæta til að sýna honum samstöðu. Einhverra hluta vegna fengu þó nýir félagsmenn Pírata í Kópavogi ekki þennan póst.

En það gekk eftir, fjölmennt var á fundinn. Hann gat ekki hafist fyrr en sitjandi stjórn hafði fengið aðgang að félagatalinu sem hafði þanist umtalsvert út síðustu daga og klukkustundir fyrir fundinn til að ganga úr skugga um hverjir væru raunverulegir félagar í Kópavogi og hverjir ekki. Nú lá nefnilega félagatalið allt í einu fyrir en stjórnin átti í upphafi ekki að fá það afhent en fékk að lokum með herkjum.

Ég hafði öðrum hnöppum að hneppa þetta kvöld og mætti ekki á þennan fund og langaði heldur ekki til þess. Ég fékk hins vegar af honum fréttir, bæði úr fjölmiðlum sem og frá fundargestum sem ég þekki og treysti. Fyrirsögnin á Vísi.is er “Uppreisn í Pírataskútunni í Kópavogi” , RÚV segir “Hitafundur hjá Pírötum í Kópavogi” og Eyjan birtir “Sauð upp úr á fundi Pírata í Kópavogi”.

Þingflokkurinn mætti allur ásamt starfsmanni á fundinn. Þó er ekkert af því fólki búsett í Kópavogi og getur því ekki verið félagsmenn Pírata í Kópavogi. Mér skilst að Helgi Hrafn hafi talað meira en allir aðrir fundargestir til samans. Það er fróðlegt að skoða myndir sem teknar voru á fundinum.  Allir kjörnir fulltrúar flokksins virðast hafa haldið tilfinningaþrungnar ræður. Það stemmir við frásagnir.

Í fjölmiðlum var greint frá því að prófkjörið lyktaði af “smölun” sem var auðvitað fyndið í ljósi þess að aðeins 25 tóku þátt í að velja 11 frambjóðendur. “Smölunin” var auðvitað ekki í prófkjörið sjálft heldur á aukaaðalfundinn 23. apríl þar sem til stóð að breyta lögunum svo fleiri gætu kosið. Niðurstaðan réðst af því að aðeins örfáir höfðu atkvæðarétta.

Tilfinningaþrungnu ræður þingmannanna héldu áfram í kommentakerfum fréttamiðlanna og á samfélagsmiðlum eftir fundinn og voru reyndar byrjaðar áður en fundurinn var haldinn. Annað eins hefur vart sést síðan Borgarahreyfingin var og hét og logaði stafnanna á milli. Í þeim komu nokkur atriði fram sem mér finnst rétt að vekja athygli á enda finnst mér sú hegðun sem þar birtist hjá þingmönnum flokksins ekki til eftirbreytni hjá flokki sem segist byggja á fallegum grunngildum sem birtast í svokölluðum Píratakóða. Þau eru meðal annars frelsi, friðhelgi einkalífs, gagnrýni, sanngirni, virðing fyrir lífi og virðing fyrir mannhelgi. Eitt er að setja orð á blað, annað að fara eftir þeim.

Botninum var náð þegar Birgitta Jónsdóttir greinir frá því á Facebook síðunni sinni þann 12. maí, sem n.b. allir geta lesið, að framkvæmdastjóri Dögunar hafi sótt um starf framkvæmdastjóra Pírata en svo aftur tekið við starfi Dögun þegar hún fékk ekki starf hjá Pírötum.

birgitta

Hægt er að smella á myndina til að sjá hana stærri.

Reyndar er það svo að Dögun hefur aldrei haft framkvæmdastjóra en það er auðvelt að átta sig á að hér er átt við Ástu Hafberg sem starfaði sem kosningastjóri Dögunar fyrir Alþingiskosningarnar 2013 og vinnur nú að framboði Dögunar fyrir sveitarstjórnir. Staða framkvæmdastjóra Pírata var auglýst opinberlega og öllum frjálst að sækja um hefði ég haldið en auglýsinguna má sjá hér.

Í auglýsingunni er hvergi tekið fram að upplýsingar um umsækendur verði birtar opinberlega og í tilvikum þar sem slíkt er gert, t.d. þegar um opinberar stöðuveitingar er að ræða er haft samband við umsækendur og þeim greint frá því fyrirfram og jafnvel boðið að draga umsóknina til baka ef þeir kæra sig ekki um að vera nafngreindir opinberlega. Yfirleitt er nefnilega farið með umsóknir sem trúnaðarmál enda varða þær friðhelgi einkalífsins, einmitt það sem Píratar gefa sig út fyrir að standa vörð um sbr. fyrstu og aðra grein Píratakóðans:

Píratar eru frjálsir

Píratar eru friðelskandi, sjálfstæðir, sjálfráðir og hlýða ekki í blindni. Þeir vilja að einstaklingar hafi vald yfir sínum persónugögnum og njóti skoðanafrelsis. Píratar axla þá ábyrgð sem fylgir frelsi.

Píratar virða friðhelgi einkalífs

Píratar vernda einkalíf. Þeir berjast gegn vaxandi eftirlitsæði ríkja og hagkerfa því að slíkt hamlar frelsi og þróun hjá einstaklingum. Frjálst og lýðræðislegt samfélag þrífst ekki ef friðhelgi einkalífs er ekki virt.”

Það að alþingismaður, sem byggir pólitíska tilveru sína á baráttu fyrir friðhelgi einkalífsins, slúðri með svo viðkvæmar upplýsingar og noti þær í pólitískum sandkassaleik þar sem viðkomandi átti ekki nokkurn hlut að máli finnst mér gríðarlega alvarlegt og að hljóti í það minnsta að kalla á opinbera afsökunarbeiðni. Ég vil að gefnu tilefni taka það fram að þessi umfjöllun mín er tekin saman með vitund og samþykki Ástu Hafberg.

Þau orð sem þriðji þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson lét falla á Pírataspjallinu eru hins vegar í besta falli hlægileg þótt það hafi sennilega ekki verið ætlunin: “Píratar stóðu vaktina. Nepótisminn (frændhiglin [svo] og klíkuræðið) tapaði og lýðræðið vann.” Í ljósi tengsla efstu manna á lista Píratanna og umfjöllunar DV um þá og þeirra fjölskyldu þar sem greint er frá deilum fjölskyldunnar við Kópavogsbæ vegna lóðamála (sjá prentaða útgáfu) ætti að vera ljóst hvað hér býr að baki.

En hvað varðar mig um þetta allt saman? Af hverju er ég að hafa fyrir því að skrifa þessa langloku? Í fyrsta lagi er ég enn félagi í þessum furðuflokki þótt ég skilgreini mig ekki sem pírata. Mér finnast mörg stefnumál þeirra góð og grunngildin (Píratakóðinn) fallegur. Óskandi væri að kjörnir fulltrúar flokksins færu eftir honum.  Sumt í stefnu Pírata á landsvísu myndi ég þó aldrei skrifa upp á, svo sem ýmislegt er viðkemur höfundarétti þótt ég sé sammála Pírötum um að aðlaga þurfi lagaumhverfið að breyttri tækni. Í öðru lagi er mér annt um lýðræðið í landinu og nýsprotana í íslenskum stjórnmálum eftir hrun. Ég upplifði múgæsingarástand í Borgarahreyfingunni á sínum tíma sem var engum til góðs. Hér sé ég ekki ósvipað munstur þar sem lítill hópur telur sér þess umkominn að taka sér meiri völd en þeim ber með réttu að hafa. Í þriðja lagi þekki ég nokkuð marga Pírata sem ég hef mikið álit á og veit að er gott fólk sem er að reyna að vinna að heildinum að betra samfélagi og ég óska því alls hins besta. Ég hef hins vegar ekki nokkra trú á að það muni ganga nema flokkurinn fari að starfa lýðræðislega í raun og veru og hafa eigin gildi að leiðarljósi.

 

 

Flokkun : Pistlar
1,330