trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 01/07/2015

Nokkrar staðreyndir um stöðu mála í Grikklandi

Eftir Vilhjálm ÞorsteinssonVilhjalmur Þorsteinsson

Staða mála á Grikklandi er flókin og erfitt að henda reiður á því hvað snýr upp og hvað snýr niður.

Svona horfa grundvallaratriði málsins við mér:

1. Skúrkarnir í málinu eru þeir stjórnmálamenn (og þau sem kusu þá) sem skuldsettu gríska ríkið svo gríðarlega sem raun ber vitni. Að hluta til var sú skuldsetning uppi á yfirborðinu og afleiðing viðvarandi fjárlagahalla, en að hluta var hún falin og „utan efnahagsreiknings“.

2. Í samningum árið 2012 náðu Grikkir, með aðstoð Íslandsvinarins Lee Buchheit, að semja um verulega afskrift (~75%) þeirra skulda sinna sem einkaaðilar áttu (ágætt yfirlit hér). Að því loknu voru lánardrottnar Grikkja að langmestu leyti AGS og sjóðir og ríki ESB.

3. Í þeim pakka komu AGS og Evrópusambandið að málum með því að lána Grikkjum peninga og gera þeim kleift að skuldbreyta og lengja í eldri lánum. Hluti af pakkanum er að ESB-sjóðir gefa eftir vaxtamun og gengishagnað af lánum sínum til Grikkja. Evrópski seðlabankinn ECB hefur jafnframt veitt Grikkjum lausafjárfyrirgreiðslu. Þetta hefur forðað gríska ríkissjóðnum frá greiðsluþroti og bankakerfinu frá því að verða uppiskroppa með lausafé.

4. Síðan þá hefur verið reynt að vinna með grískum stjórnvöldum að því að teikna upp hvernig unnt sé að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs smám saman yfir tíma („Debt Sustainability Analysis„). Það gerist með blöndu af því að gefa eftir vexti og fjármagnskostnað annars vegar, og að ná frumafgangi af ríkissjóði (þ.e. að tekjur séu umfram gjöld önnur en vaxtagjöld). Í þeim tillögum sem lágu á borðinu á föstudaginn af hálfu Eurogroup (fjármálaráðherra evruríkjanna) var miðað við að frumafgangur ykist í skrefum og næði 3,5% af VLF á árinu 2018. Það er svipað hlutfall og í íslensku fjárlögunum 2013.

5. Tillögur Eurogroup um leiðir til að ná umræddum frumafgangi hljóma alls ekki frjálshyggjulega eða óskynsamlega fyrir utanaðkomandi; þar er m.a. gert ráð fyrir hækkun tekjuskatta á fyrirtæki úr 26% í 28%, framhaldi hátekjuskatts og lúxus-skatts á skemmtibáta og snekkjur, að loka ýmsum skattundanþágum, að hækka VSK á hótelgistingu (sem væri upplagt á Íslandi líka), að herða mjög skatteftirlit, að draga saman útgjöld til varnarmála um €400m – og raunar að hækka eftirlaunaaldur í skrefum í 67 ár (eða 62 ár eftir 40 ár í starfi).

6. Vandinn er meðal annars sá að aðhaldsaðgerðir með hækkun skatta og lækkun bóta og millifærslna draga þrótt úr hagkerfinu, sem aftur lækkar skattstofninn, sem aftur kallar á meiri aðhaldsaðgerðir. Hitt er líka ljóst, að jafnvel þótt ESB og AGS kæmu ekki að málum, og jafnvel þótt allar skuldir Grikkja yrðu afskrifaðar á morgun, þyrftu Grikkir engu að síður að ná að reka ríkissjóð sinn með jákvæðum frumjöfnuði (því ekki yrðu margir til að lána þeim við svo búið).

7. ESB eru þröngar skorður settar í því að færa skuldir Grikkja með beinum hætti yfir á skattborgara í öðrum löndum sambandsins. Slíkt er raunar bannað í Lissabon-sáttmálanum (sjá 125. gr. hans) og ákvæði svipaðs eðlis eru í stjórnarskrám sumra aðildarríkja, t.d. Þýskalands. Einnig er skiljanlegt að skattborgurum finnist ekki sjálfsagt að greiða skuldir annarra ríkja, a.m.k. ekki uden videre, enda fá fordæmi fyrir slíku, og má segja að þar reyni fyrir alvöru á evrópska samheldni.

8. Málið er því í erfiðum hnút. Eina mögulega leiðin virðist vera sú að halda áfram viðræðum, finna millileiðir til skemmri tíma og vinna svo að langtímalausnum í betra ráðrúmi. Minna má á að unnið var úr skuldavanda Íra með slíkum hætti; á endanum var búinn til skuldbreytinga- og afskriftapakki sem gerði að verkum að ríkissjóður Írlands getur nú fjármagnað sig sjálfur á skuldabréfamörkuðum á góðum kjörum.

9. Að hætta viðræðum og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta margbrotna mál með viku fyrirvara, eins og Tsipras forsætisráðherra gerði,  gagnast grískum almenningi lítt, að mínu mati. Nær væri að álykta að þar sé Tsipras að leika sér að eldinum.

10. Að hætta við evruna og taka aftur upp drökmu hjálpar heldur ekki grískum almenningi. Drakman myndi falla eins og steinn, nauðsynjavörur hækka í verði, skattstofnar ríkisins dragast enn frekar saman (enda yrði til neðanjarðarhagkerfi í evrum), fjármagnsflótti yrði úr landi og vextir yrðu óbærilegir.

11. Lexían hlýtur að vera sú að skuldsetning ríkja sé afskaplega vandmeðfarin. Stjórnmálamenn, kjósendur og lánardrottnar þurfa að líta í eigin barm varðandi þá hættu sem óvarleg skuldsetning skapar í nútíð og framtíð.

Það er sársaukafullt að horfa upp á raunir grísks almennings þessa dagana, og þessi árin. En lausnin er ekki svört eða hvít frekar en flest annað; einhvers staðar er grátónn á milli sem varðar bestu leiðina. Vonandi bera menn gæfu til að finna hann.

Vilhjálmur Þorsteinsson, Eyjan, 29. júní 2015

1,459