trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 19/05/2016

Munaðarleysingjar

Fjölskylduharmleikur var fluttur í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkveldi (18.05.´16). Úrdráttur úr honum birtist í blöðum og öðrum fjölmiðlum í dag og aukið í. Orsakir hörmunganna eru deilur um týnda peninga, um horfinn arf.

Peningar, auðmenn

Í fjölmiðlum er aftur og aftur skýrt frá því að hinn umdeildi auður hafi orðið til vegna kommisjónar, umboðslauna, sem fjölskyldufaðirinn, heildsali, hafði fengið vegna viðskipta sinna erlendis. Umboðslaunin ætlaði kaupmaðurinn (bílasalinn) sér sem ellilífeyri og lagði þau inn á bankareikning(a) í skattaparadís(um) en lést áður en hann gat eytt fénu.

Umboðslaun utanlands frá eru, eðli málsins samkvæmt, oftar en ekki greidd í gjaldeyri. Hann er skilaskyldur.

Umboðslaun eru tekjur. Þær eru skattskyldar.

Sá sem þiggur umboðslaun erlendis og leggur þau inn á banka þar brýtur gjaldeyrislög. Sá sem ekki telur umboðslaun fram til skatts brýtur skattalög.

Orlofsreikningar umrædds bílasala voru leynireikningar. Þeirra var hvergi getið í bókhaldi hans. Og ekki heldur í reikningum bílasölunnar. Þegar hann var allur fundust þeir ekki og ekkert um þá. Ekkjan réð erlenda njósnamenn til þess að leita þeirra. En þeir fundu þá ekki; bara grun um slóð eftir munaðarlausa peninga. Svo lést ekkjan og deila erfingjanna harðnaði og er nú komin á það stig að í slagsmálunum hafa börn bílasalans í fégræðgi sinni, meðvitað eða ómeðvitað, komið þjófsorði hvert á annað og þeim stimpli á föður sinn að hann hafi verið lögbrjótur og skattaþjófur.

Í áratugi hefur það verið almælt að erlend kommisjón skili sér vægast sagt illa til landsins og af og til hafa vaknað sakamál tengd lögbrotum við feluleikinn. Oftar en ekki hafa laumupúkarnir sloppið vel frá lögbrotum sínum. Nú gæti aftur á móti verið runninn upp sú stund að almenningur styðji rannsóknaraðila umfram þrjótana. Það gæti leitt til annarrar niðurstöðu en oftast áður í líkum málum því hinn látni bílasali var ekki einn landa vorra á ferð til Paradísar með ósköttuð umboðslaun í erlendum gjaldeyri.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
2,297