trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 23/11/2014

Minningabrot um Marion Barry. Eða: Leyndarmálið á hárgreiðslustofunni

Marion BarryEftir Karl Th. Birgisson

„Þú mátt alls ekki skrifa um það sem fer fram hér,“ sagði hann ábúðarfullur. Ég samsinnti því og hef staðið við það – þangað til núna.

Þetta var í síðasta sinn sem við Marion Barry hittumst og við vorum staddir á hárgreiðslustofu, af öllum stöðum. Þetta var á kjördag í nóvember 1990. Hann vissi líklega að hann myndi tapa, en hann ætlaði þó í það minnsta að líta vel út þegar það gerðist.

———-

Marion Barry er athyglisverðasti stjórnmálamaður sem ég hef kynnzt. Hann dó í nótt.

Barry fæddist árið 1936 og var af bláfátæku fólki í Mississippi. Honum tókst þó að komast í háskóla og eftir það varð hann virkur í mannréttindahreyfingu blökkumanna undir forystu Martins Luthers Kings jr. Hann vakti athygli fyrir skörulega framkomu, framúrskarandi ræðumennsku og hann átti auðvelt með að hrífa fólk með sér.

Marion Barry bjó yfir því sem Grikkir kölluðu charisma og erfitt hefur reynzt að þýða á íslenzku.

Nema hvað – árið 1978 náði hann kjöri sem borgarstjóri í höfuðborginni, Washington, og var endurkjörinn í tvígang. Hann naut gríðarlegra vinsælda meðal borgarbúa og virtist bókstaflega ósigrandi. Hann var þó líka umdeildur einkum vegna þess að hann var óforbetranlegur fyrirgreiðslupólitíkus og spillingarmál hrönnuðust upp í kringum hann. Það skipti samt minnstu – borgarbúar stóðu með sínum manni. Og Barry leit ekki á það sem spillingu, að hjálpa sínu fólki.

Um að bil sem hann ætlaði að tilkynna um framboð í fjórða sinn kom höggið.

Það hafði verið opinbert leyndarmál í höfuðborginni að Barry var drykkfelldur kvennabósi og þrálátar sögur gengu um fíkniefnaneyzlu hans. Fjölmiðlar höfðu reynt að fá þær staðfestar og lögreglan hafði ekki síður áhuga á að koma lögum yfir borgarstjórann. Hann þvertók alltaf fyrir slíkt slúður.

Þar kom snemma árs 1990 að FBI kom fyrir myndbandsupptökuvél á hótelherbergi í borginni og fékk eitt af viðhöldum Barrys til að boða hann þangað. Barry fékk ekki blíðuhótin sem hann vonaðist eftir og í eins konar sárabætur var dregið fram krakk, sem er reykjanlegt kókaín. Barry setti efnið í pípu, kveikti í og örskömmu síðar réðst FBI inn um dyrnar og handtók hann.

Það þýddi ekki að þræta í þetta skipti – myndbandið talaði sínu máli. Þetta var mikill skandall og heimsfréttaefni. Barry sagði af sér sem borgarstjóri, fékk sex mánaða dóm fyrir fíkniefnabrotið og fór í meðferð. Fallið var hátt og mikið eftir glæstan feril, en hann kom aftur nýr og betri maður, að eigin sögn, hættur öllu sukki og talaði mjög um náð guðs.

Og þarna um haustið 1990 var Barry kominn aftur í framboð og vildi verða borgarfulltrúi. Hann bauð sig fram utan flokka enda höfðu demókratar ekki áhuga á að stilla honum upp svo skömmu eftir hneykslismálin.

———-

Um þessar mundir skrifaði ég einstaka greinar fyrir tímaritið Mannlíf frá Washington. Mér tókst einhvern veginn að sannfæra Árna Þórarinsson ritstjóra um að þessi falleraði fyrrum borgarstjóri væri ákjósanlegt viðfangsefni og hófst þá undirbúningur.

Símtöl í herbúðir Barrys skiluðu engu. Blaðafulltrúi hans hafði minni en engan áhuga á þessum íslenzka blaðamanni enda voru lesendur Mannlífs ekki þeir sem Barry þurfti helzt að ná til. Eftir um það bil tuttugu „Nei“ féllst hún á að faxa til mín dagskrá með fyrirhuguðum opinberum fundum frambjóðandans.

Ég mætti svo á einn slíkan og gerði engin boð á undan mér.

Fundurinn var í suðausturhluta borgarinnar þar sem fátækt var mest, fíkniefni og glæpir. Ég hafði aldrei komið þangað og hafði heyrt óskemmtilegar lýsingar á þessum borgarhluta. En ég þurfti að taka viðtal við Marion Barry.

„Þú hlýtur að vera Karl,“ var það fyrsta sem ég heyrði eftir að ég steig út úr bílnum. Það var blaðafulltrúinn sem ávarpaði mig. „Þú ert ákveðinn ungur maður, að ég segi ekki einþykkur,“ bætti hún við. Ég gat ekki svarið það af mér, en undraðist hvernig hún gat vitað hver ég var. Það kom fljótlega í ljós. Ég var eini hvíti maðurinn á staðnum.

Þetta var upphafið að skemmtilegasta ævintýri mínu í blaðamennsku: Í þrjá daga fylgdi ég Marion Barry eftir, hlustaði á ræður hans og fylgdist með honum tala við kjósendur. Hann tók óhjákvæmilega eftir mér og þegar ég dúkkaði upp annan daginn í röð fór hann að spyrjast fyrir. Blaðafulltrúinn sagði honum að þarna væri kominn íslenzkur blaðamaður sem ætlaði að skrifa um hann grein og vildi eiga við hann viðtal.

Barry hló hátt og benti, en kom þó til mín og heilsaði. Hann kvaðst ekki hafa tíma fyrir erlenda blaðamenn, en stakk samt upp á að ég fylgdi honum eftir og kannske gæfist einhvern tíma stund til að spjalla stuttlega saman.

Við tóku enn fleiri fundir, en líka stórfengleg negramessa og AA-fundur. Hann var haldinn niðri í bæ, í norðvesturhlutanum, og þar snerust kynþáttahlutföllin við: Barry og hans fólk var næstum því eina blökkufólkið á fjölmennum fundi. Þetta var ekki hans kjörlendi – þarna átti hann ekkert fylgi – en hann vildi sýna sig og koma því skýrt á framfæri að hann, nýhættur sem valdamikill borgarstjóri til tólf ára, væri ekkert hættur eða farinn. Hann væri þvert á móti að koma aftur.

Við náðum ekki mikið að tala saman og svosum nægði mér ágætlega að fylgjast með honum, hvernig hann talaði og bar sig. En svo eftir einn fundinn undir lok dags númer tvö – upp úr þurru – benti hann mér að koma með í frambjóðandabílnum. Þar gætum við átt tal saman.

Viðtalið var ekki eftirminnilegt – svörin voru stöðluð, svipuð þeim sem hann hafði gefið ótal sinnum áður, sömu frasarnir – en ákvörðunarstaðurinn var það hins vegar. Hann var semsagt á leið í kvöldmat til háaldraðrar móður sinnar.

Hún átti heima í litlu, snyrtilegu húsi í norðausturhlutanum. Innan dyra var mjög notalegt, en líka ótrúlega mörgum hlutum komið fyrir í svo litlu rými. Og það voru gamlir munir, ljósmyndir, málverk, blómavasar, ótal lampar, eitthvað af bókum og það sem vakti óhjákvæmilega fyrst og mesta athygli gestsins: Risastór svarthvít mynd af Martin Luther King jr. og Marion Barry.

Gamla konan var lágvaxin og vinnulúin eftir langa ævi. Hún heilsaði þó glaðlega og sagði: „Vertu velkominn, ungi maður. Ég man ekki hvenær hvítur maður kom síðast í þetta hús – það er svo langt síðan.“ Svo hló hún.

Ef eitthvað vantaði upp á að ég væri staddur í Mississippi á fyrri hluta síðustu aldar gerði maturinn útslagið: Djúpsteiktur kjúklingur með kartöflumús, baunum, kornbrauði og sígildri ljósbrúnni sósu. Ég velti fyrir mér hvernig ég hefði eiginlega komizt hingað, í suðurríkjakvöldmat hjá móður umdeildasta stjórnmálamanns Bandaríkjanna þar sem hann sjálfur lék á als oddi.

Annar öryggisvörðurinn skutlaði mér til baka að mínum bíl, en þó ekki fyrr en eftir að við Barry höfðum mælt okkur mót daginn eftir. Það var kjördagur, ekki fleiri framboðsfundir, og hann ætlaði í klippingu í hádeginu. Þá gætum við talað enn betur saman.

Í bílnum virtist öryggisvörðurinn vera tortrygginn. Kannske fylgdi það starfinu. Hann spurði hvort rétt væri, að það væru engir svertingjar á Íslandi. Ég varð að jánka því. Hefði verið asnalegt að nefna Ívar Webster.

Ég man ekkert af viðtalinu þarna á hárgreiðslustofunni daginn eftir. Man þó að Barry spurði mikið um Ísland sem hann vissi eiginlega ekkert um. Eftir klukkutíma dvöl kvöddumst við vinsamlega og mér var orðið frekar hlýtt til hans. Hann var að vísu ófyrirleitinn sem pólitíkus og hafði verið gerspilltur í embætti, en það var alveg ekta hlýja í fasinu og brosinu. Svo var hann skemmtilegur.

Að lokum tók hann af mér alvarlegt loforð um að ég skrifaði ekkert um það sem gerðist á hárgreiðslustofunni. Ég hafði ekki hugsað mér það og þótti þetta soldið skondin krafa, en líklega er tímabært að lyfta hulunni af hinu mikla leyndarmáli Marions Barrys, í trausti þess að það sé honum skaðlaust úr því sem komið er.

Barry var þarna 54 ára gamall og var eilítið farinn að grána, þó miklu minna en flestir á hans aldri. Þetta þykir mörgum virðuleikamerki, en hann var kannske viðkvæmur fyrir því. Erindið á hárgreiðslustofuna var semsagt ekki bara klipping, heldur að lita þessi gráu hár og skerpa um leið á krullunum.

Hann var enda flottur þegar hárgreiðslukonan hafði lokið sér af með efni sín: Nýklipptur með stífglansandi kolsvartar krullur. Stórmyndarlegur maður.

Það var þeim mun meiri synd að hann skyldi ekki ná kjöri þennan dag.

En þetta voru líka einu kosningarnar sem Barry tapaði á ævinni. Og hann var heldur ekkert hættur og farinn – hann var nú einu sinni Marion Barry. Tveimur árum síðar var hann kjörinn í borgarstjórn.

Og enn tveimur árum síðar – 1994 – var hann aftur orðinn borgarstjóri í höfuðborg heimsins, eftir ævintýralegasta kombakk í bandarískri stjórnmálasögu. Og hann var auðvitað heldur ekkert nýr og betri maður, spillingarskandölunum fjölgaði bara og löggan fann leifar af dópi í bílnum hans. Og svo framvegis næstum endalaust.

En hefði Marion Barry ekki verið eins og hann var, hefði hann aldrei verið svona forvitnilegur. Og ég hefði aldrei fengið þennan dásamlega kvöldmat í litla húsinu heima hjá mömmu hans.

Það eitt er næg ástæða til þess að vera ævinlega þakklátur fyrir að Marion Barry skuli hafa verið uppi.

2,049