Minn steinn fundinn
Eftir Þórunni Valdimarsdóttur
Steinn og steinar
Steins og Kjarvals:
Grjót, meira grjót,
grimmjökulslípað.
Steina stef
söng mér mín móðir:
„bull er þetta
Hver á sér fegra
Linditré mun ljúfari eru
en beinagrindar grimmkalt grjót
og jökulfljót.“
Vissi hún þó vel,
Palli kenndi og mér að sjá verur í grjóti
og visku í gervi steina og beina.
Eins hnusa fílar formæðra bein.
Þar fer forfeðratrú allra þefgáfudýra
það djúpbeinahnus.
Steins mun ég nú megalóman
mjög þótt hljómi sem lyga róman
að í Kvosinni fannst úr sandsteini vænn
einn snúðr af snældu svo eðalgrænn.
Þær segja þar standi
elsta letur á steinhrúgulandi.
Fornustu rúnir grænum á steini
engum að meini
en mér til gleði
því satt er þar rist er – set sál mína að veði
sögukerlu það gerir mig betri
að þar á stendur með galdraletri:
„Þórunn á mig!“
Þótt kreppan sé komin með Kyllisvík hingað
keppast skal minn við á fullu gasi
og hætta öllu þrasi
þótt Uhu mosi á Ráðhúsi dvelji
við manngerðan stein
og meinagrind Tónhússins tíðlaust mig kvelji
og skyggi á Sundin
er steinninn minn fundinn!
(sbr. forsíðufrétt: „Týndi hlekkurinn fundinn“ með mynd af grænum rúnasteini frá 11. öld sem fannst við fornleifagröft í alþingisreit miðbæjar Reykjavíkur, Fréttablaðið 19. okt. 2008)
Júníhefti 2012, ort haustið 2008 í tilefni af aldarafmæli Steins Steinarrs
- Innan við múrvegginn - 15/01/2021
- Fjárhúsið að sumri til og fleiri þankar - 29/12/2020
- Gamall húsgangur - 24/12/2020