trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 18/03/2019

Menn gera menn að mönnum

Guðspjall: Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbíni, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni. (Mrk 10.46-52)

úlfurNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Homo homini lupus, segir latneskt máltæki. Það má þýða bókstaflega sem „Maður er manni úlfur“.

Þarna er ansi ömurleg mannsmynd á ferðinni og sannast sagna, að því er ég best veit, býsna ósanngjörn úlfsmynd líka. Mér skilst að mönnum stafi alla jafna lítil ógn af úlfum í raunveruleikanum, að flest ef ekki öll illvirki þeirra séu unnin í ævintýrum.

Hvað um það. Merking máltækisins er ljós: „Hættulegustu skepnurnar sem herja á menn eru aðrir menn.“ Og víst er að þegar veröldin er skoðuð getur margt rennt stoðum undir þá mynd af heiminum. Ekki síst á dögum eins og þessum þegar við erum ekki búin að jafna okkur á fréttum af því að vitfirringur hafi gengið berserksgang hinum megin á hnettinum og myrt með köldu blóði tugi manna, meðal annars börn, fyrir þær sakir að honum fannst honum standa ógn af þeim vegna uppruna þeirra og trúarbragða. Ógn. Af fjögurra ára barni sem var skotið í bakið. Hvílík grimmd, hvílík illska. Manni fallast hendur. Maður er manni úlfur.

Og hér uppi á Íslandi er fólk sem lætur í ljós ánægju sína með athæfið, ekki bara í einkasamtölum sem það vill ekki að fari hátt, heldur undir fullu nafni og mynd í athugasemdakerfum netmiðla. Auðvitað spyr maður sig hvað vanti bæði í hjartað og hausinn á slíku fólki.

Það þarf ekki að leita logandi ljósi að ljótleikanum í heiminum. Hann blasir við okkur. Það þarf að grafa ansi djúpa holu og hafast við í henni alllengi til að hann fari fram hjá manni.

En er það þá maðurinn? Úlfur … eins og þessir í ævintýrunum, ekki þessir í raunveruleikanum? Erum við blóðþyrst skrímsli? Hvert annars verstu óvinir?

Ubuntu

Það er til önnur mannsmynd.

Ég rakst nýlega á hugtak sem hefur verið mér hugleikið æ síðan. Það er úr tungumáli hinna afrísku Bantú manna og lýsir mannskilningi þeirra. Orðið yfir hana er „ubuntu“. Suðurafríski mannvinurinn og kennimaðurinn séra Desmond Tutu hefur lagt út af henni með hætti sem ég treysti mér ekki til að endurtaka.

En þetta orð má útleggja: „Menn gera menn að mönnum.“

Samkvæmt þessari speki eru menn ekki úlfar öðrum mönnum heldur kennarar og fyrirmyndir. „Ubuntu“ hefur verið þýtt „Ég er af því að við erum.“ Og ég er maður af því að ég er hér með ykkur.

Við þekkjum sögur af börnum sem alist hafa upp meðal dýra. Ekki bara úr ævintýrum heldur í raunveruleikanum. Þau urðu aldrei að mönnum, þau gengu ekki upprétt, þau töluðu ekki. Börn hafa alist upp af úlfum og hegðað sér á allan hátt eins og úlfar. Mógli er lygi. Falleg og skemmtileg lygi, en lygi engu að síður. Tarzan apabróðir er líka lygi. Hann hefði aldrei orðið neitt annað en Tarzan api.

Það sem gerir okkur að mönnum er aðrir menn.

Við eigum val um hvaða afstöðu við tökum. Hvort við mætum hvert öðru með tortryggni og ótta, hvort við sjáum aðeins úlfinn í náunga okkar eða hvort við sjáum okkar minnstu bræður og systur í honum. Því staðreyndin er sú að í okkur flestum blundar bæði úlfur og maður. Hvorn sýnum við? Hvorn sjáum við í náunga okkar?

Hvorn kallar samfélag okkar á?

Homo homini lupus eða Homo homini Jesus? Menn frelsa menn.

Menn frelsa menn

Í guðspjalli dagsins sjáum við menn frelsa menn.

Takið eftir því að menn færa blinda manninn til Jesú. Þetta er gegnumgangandi stef í lækningafrásögnum Markúsarguðspjalls. Jesús á sjaldnast frumkvæðið. Þeir sem koma til hans gera það gjarnan fyrir hönd annarra. Fjórir menn koma með lamaðan vin sinn og þegar þeir komast ekki að Jesú láta þeir hann síga niður um þekjuna. (2.3-4) Jaírus samkundustjóri kemur fyrir hönd fársjúkrar og deyjandi dóttur sinnar. (5.22-23) Menn færa blinda menn til Jesú í tvígang. (8.22, 10.49) Örvæntingarfullur faðir færir honum son sem haldinn er illum anda. (9.17) Á einum stað segir:

„Hvar sem Jesús kom í þorp, borgir eða bæi lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans“ (6.56)

Menn lögðu þá á torgin.

Og það er trúin sem læknar. Jesús segir aldrei: „Ég er búinn að redda þessu.“ Hann segir ítrekað: „Trú þín hefur bjargað þér.“ Og í öllum tilfellum birtist þessi trú í gjörðum. Trúin er ekki bara einhver tilfinning í hjartanu sem fólk situr með eitt og sér og út af fyrir sig úti í horni án þess að aðhafast neitt. Sönn trú knýr fólk til gjörða.

En hvað er trú?

Í Hebreabréfinu er trú skilgreind sem „fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Um trúarhugtakið hefur margt verið ritað og það mætti ræða endalaust. Fráleitt er að ætla að gera einhverja almennilega grein fyrir því í einni lítill prédikun.

En það má leggja orð í belg.

Og mig langar að velta tvennu upp í þessu samhengi.

Afstaða

Hið fyrra er að trú er afstaða. Skýr afstaða til lífsins, til heimsins og til mannsins. Sú afstaða að sjá náungann sem bróður eða systur. Að sjá hann sem úlf er skortur á trú. Og ef það er trúin sem frelsar þá er það skorturinn á henni sem hneppir í fjötra, dæmir okkur til að dvelja í myrkri ótta, tortryggni og haturs. Gerir okkur blind á kærleikann. Gerir okkur jafnvel svo ofsahrædd við fjögurra ára börn af framandi uppruna að við veigrum okkur ekki við að myrða þau … eða fagna því að einhver annar geri það. Nærir og eflir úlfinn í okkur en svæfir manninn.

En önnur afstaða getur bjargað okkur úr þessu myrkri, gefið okkur sýn á hið góða í heiminum … og í manninum. Kallað fram það góða í okkur. Svæft úlfinn og gert okkur að mönnum öðrum mönnum.

Afstaða okkar bjargar okkur og öðrum … eða tortímir.

Við eigum val.

Hið síðara sem mig langar benda á er að það að trúa er að treysta.

Þetta er ekki langsótt líking. Að trúa er ekki „eins og“ að treysta, ekki „líkt því“ að treysta.  Á frummáli Nýja testamentisins, grísku, er sama orð notað um hvort tvegga. Pistevo. Ekki vegna þess að menn hafi notað sama orðið um tvö ólík fyrirbæri og ráða verði í samhengið til að sjá hvað átt er við hverju sinni. Nei, fyrir forngrikkjum voru þetta einfaldlega ekki tvö ólík fyrirbæri. Á þessu var enginn merkingarmunur. Að trúa á Guð var að treysta á Guð. Að trúa á hið góða … í heiminum, í manninum … er að treysta á hið góða í heiminum og manninum. Að vænta ekki eilífilega úlfsins í náunga okkar.

Jesús segir þarafleiðandi ekki bara við blinda beiningamanninn að trú hans hafi bjargað honum. Hann segir ekki síður að traust hans hafi bjargað honum. Og það sama gildir um alla hina sem Jesús læknar. Það er ekki hann … það er traust þeirra á honum.

Að trúa er að treysta

Þetta traust knýr þau til að aðhafast. Til að brjóta reglur samfélagsins og ögra viðmiðum þess. Holdsveikur maður virðir að vettugi einangrunina sem sjúkdómur hans hafði dæmt hann í. Kona með blóðlát virðir að vettugi reglur um hvað konum leyfist og lög samfélagisins sem kveða á um einangrun vegna óhreinleikans sem fylgir bágindum hennar. Og Bartímeus heldur áfram að hrópa þótt honum sé sagt að þegja, rétt eins og hann eigi einhvern rétt á því að rödd hans, réttlauss ölmusumanns, heyrist. Þau treystu og höfðu erindi sem erfiði.

Að treysta á kærleikann lætur blinda sjá, lamaða standa í lappirnar, holdsveika vera menn með mönnum. Reisir upp frá dauðum.

Og ef traustið frelsar okkur þá er það andstæða þess sem hneppir í fjötra, sem blindar innri augu okkar og dæmir okkur til eilífðarvistar í myrkri tortryggninnar. Og við þurfum ekki annað en að lesa blöðin til þess að sjá dæmi um það hvernig menn sem dvelja í myrkri ótta og tortryggni geta orðið mönnum úlfar.

Skilaboð dagsins – eins og allra daga – eru því að óttast ekki. Heldur treysta. Treysta á hið góða, velja ljósið … því það er afstaða sem við eigum val um. Og að láta þá afstöðu knýja okkur til góðra verka. Reynast mönnum menn.

Menn gera menn að mönnum

Eftir hryðjuverkin í Christchurch, borgarheiti sem hljómar eins og argasta öfugmæli þegar það er tengt við myndir af hryllingnum, sögðu margir: „Þetta er ekki Nýja Sjáland.“ Og það þótt enginn vafi leiki á að myndirnar eru frá Nýja Sjálandi skiljum við hvað átt er við. Átt er við: „Þetta er ekki það Nýja Sjáland sem við viljum byggja. Þetta er afskræming þess. Þetta er árás á það.“

Og við … við getum ekki horft upp á þessi voðaverk, yppt öxlum vegna þess að þau voru framin hinum megin á hnettinum og sagt: „Svona er lífið.“ Ekki ef við höfum valið ljósið. Ekki ef við treystum á hið góða í heiminum og í manninum. Þá horfum við á voðaverkin og segjum: „Svona er lífið ekki. Svona er dauðinn.“ Og ef við höfum valið ljósið þá höfum við valið lífið, þá trúum við á lífið og það er köllun okkar að þjóna því, að reynast mönnum menn. Og þannig verðum við og aðrir menn en ekki úlfar.

Ubuntu. Ég er af því að við erum.

Menn gera menn að mönnum.

Úlfar gera menn að úlfum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 17. 3. 2019

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,759