trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 30/09/2016

Með öll tök á flokknum: Sagan af mislukkaðri uppreisn gegn Steingrími

Út er komin bókin Villikettirnir og VG – frá væntingum til vonbrigða eftir Jón Torfason. Rauður þráður í henni er að sýna fram á margvíslega undanlátssemi og jafnvel meint svik forystu Vinstri grænna í afdrifaríkum málum í samstarfi við Samfylkinguna í ríkisstjórn 2009-2013.Steingrímur J. Sigfússon

Einkum er sjónum beint að ESB-umsókninni, en einnig koma við sögu málefni eins og olíuleit á Drekasvæði, Icesave, fjárveitingar til heilbrigðiskerfis, breytingar á fiskveiðistjórnun og fleira. Frásögnin er byggð á fjölda heimilda, opinberra sem annarra.

Herðubreið grípur hér ofan í frásögn bókarinnar frá árinu 2012 þegar líða tók að lokum kjörtímabilsins. Í bókinni er nýrætt um þær athugasemdir Ögmundar Jónassonar í eldhúsdagsumræðum vorið 2012 að ekki hafi verið fyrirséð þegar samþykkt var að ganga til viðræðna við ESB að þær yrðu svo kostnaðarsamar og langar sem raun hafði orðið á. Tilvísunum og neðanmálsgreinum úr bókinni er hér sleppt, en meðal heimilda sem Jón Torfason notar í þessum kafla eru fréttamiðlar og bók Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans.

———-

Ummæli Ögmundar vöktu litla athygli enda tók flokksforystan þau ekki til sín. En síðar um sumarið, þann 11. ágúst, lýstu Katrín Jakobsdóttir varaformaður flokksins og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra efasemdum um framhald viðræðnanna. Í frétt Ríkisútvarpsins er sagt frá því að mörgum í Vinstri grænum þyki óþægilegt að hefja kosningaveturinn með aðildarumsóknina í þeim farvegi sem þá var og margir þingmenn VG teldu að endurmeta þyrfti stöðuna, síðan er haft eftir Katrínu:

Það er líka ljóst að forsendur í Evrópu hafa breyst, efnahagslegar og pólitískar líka. Það er mikil óvissa hvert Evrópusambandið stefnir. Það er ljóst að þessi óvissa þar hefur talsverð áhrif á þetta ferli hér á landi,“ segir Katrín. Hún segir málið hafa verið rætt í VG en fyrst og fremst sé þetta mál sem stjórnarflokkarnir þurfi að ræða sín á milli og fara yfir heildstætt. […]

Það hafa verið hugmyndir uppi um það hjá ýmsum að setja málið á ís, þjóðin fái aðkomu að því hvort halda eigi áfram með málið, eða hvort draga eigi umsóknina til baka og hætta við málið.

Í fréttatímanum var einnig rætt við Svandísi sem tók ekki jafn mikið af, en taldi þó að endurskoða þyrfti ákvörðun um aðildarumsóknina:

En ég árétta það að VG verður að fara yfir þessi mál innan sinna raða og þar eru allir möguleikar uppi á borðinu. Í framhaldinu tel ég rétt að við förum yfir málið með samstarfsflokknum.

Össur Skarphéðinsson lýsir snörpum við­brögðum Samfylkingarinnar daginn eftir, sem fólust annars vegar í hörðum ummælum í fjölmiðlum um að ríkisstjórnarsamstarfið væri í veði og hins vegar í viðtölum við oddvita Vinstri grænna:

Mitt mat er að hún [Jóhanna Sigurðardóttir] eigi að tala vasklega við Katrínu Jakobsdóttur en láta Steingrím Sigfússon alveg vera. Katrín verði skelkuð við hörð viðbrögð forsætisráðherra og muni hugsanlega tala sig til baka. […] Í RÚV segi ég skýrt að ef endurskoða eigi stefnu­mál stjórnarinnar verði stjórnarsamstarfið óhjákvæmilega partur af þeirri endurskoðun.

Og að venju „bjargar“ Össur málunum að eigin sögn:

Viðbrögð mín í RÚV og samtal Jóhönnu við varaformann VG hafa samstundis sterk áhrif á VG. Í fréttum Stöðvar 2 um kvöldið er allt annað og viðkunnanlegra hljóð komið í strokk Katrínar Jakobsdóttur. Hún fer langt með að stíga til baka skrefið frá í gær, segir að umsóknin haldi áfram og á henni verið ekki breyting.

Upphlaupið reyndist því þegar til kom lítill stormur í litlu vatnsglasi sem fljótt lægði. Morgunblaðið hafði samband við nokkra þingmenn VG um helgina og töldu raunar allmargir þeirra að „endurmeta þyrfti stöðuna“ en enginn virðist þó hafa fylgt þeim ummælum eftir af neinni alvöru og engir „endurmatsmenn“ voru nefndir með nafni í umfjöllun Morgunblaðsins 12. ágúst. Kolbeinn Proppé taldi í fréttaskýringu í Fréttablaðinu að ummæli þeirra stallsystra væru engin ógn við ríkisstjórnina, heldur ætluð til að friða flokksmenn:

Málið verður hins vegar að skoðast í ljósi tímasetningarinnar. Heimildarmenn Fréttablaðsins í röðum Vinstri grænna eru sammála um að með yfirlýsingunum hafi stefna Vinstri grænna í málinu verið áréttuð. Það sé ekki síst gert til innanflokksbrúks, til að minna kjósendur á að flokkurinn sé andvígur aðild. Þá verður að teljast afskaplega ólíklegt að þær Katrín og Svandís ætli sér í slag við formann flokksins, Steingrím J. Sigfússon, um málið. Þær eru einfaldlega of nánir samstarfsmenn hans til þess. … Umræðuna um helgina er því helst hægt að skýra með því að hún sé ætluð til heimabrúks. Kosningavetur er í nánd og Vinstri græn munu þurfa að skerpa á sérstöðu sinni. Ekki má gleyma því að í fjölmörgum kjördæmum berst flokkurinn við Framsóknarflokkinn um atkvæði og skýr ESB-andstaða verður þar í hávegum höfð.

Svo vildi til að Steingrímur Sigfússon var staddur erlendis þegar umrædd ummæli féllu en þegar hann kom heim voru mál sett í „eðlilegan“ farveg á nýjan leik, eins og fram kemur í viðtali við hann í Fréttablaðinu 22. ágúst. Fyrst er spurning fréttamanns:

Það er flokksráðsfundur á dagskrá Vinstri grænna um helgina. Leggur þú til einhverja stefnubreytingu í málinu á þeim fundi?

Nei, þessi fundur er fyrst og síðast hugsaður til að undirbúa kosningavetur og síður ætlaður til að afgreiða mikið af ályktunum. En auðvitað mun þetta bera á góma en ég sé ekki að mikill ágreiningur sé í okkar röðum um afgreiðslu þessa máls. Grunnstefna flokksins liggur fyrir; að við teljum það ekki þjóna okkar hagsmunum að ganga í Evrópusambandið. Það liggur fyrir eins og sá réttur okkar að tala fyrir þeim málstað okkar. Ég mun ekki verða í þeim hópi sem lætur óvinveitt öfl þessarar ríkisstjórnar toga sig sundur og saman í einhverjum yfirlýsingum.

Samkvæmt dagbók Össurar Skarphéðinssonar veldur málið Steingrími litlum áhyggjum fyrir flokksráðsfundinn á Hólum:

Ég rekst á viðtal við Steingrím J. Sigfússon í Fréttablaðinu þar sem hann freistar þess að aftengja ESB-upphlaupið fyrr í mánuðinum. Kjarninn í kringum hann er kominn að þeirri niðurstöðu að best sé að kæla málið og tefla því frá stöðu sem gæti leitt til stjórnarslita.

Í viðtalinu birtist meira sjálfstraust gagnvart stöðunni innan flokks en hefur geislað af forystu VG um langa hríð. Steingrímur nefnir engan á nafn en mér dylst ekki að hann er að senda Ögmundi eyrnafíkjur undir rós. Það bendir til að þau Katrín Jakobsdóttir telji sig vera að ná undirtökunum gagnvart villiköttunum.

Vænta hefði mátt þess í ljósi þeirrar eftirvæntingar, sem áðurnefnd ummæli Katrínar og Svandísar höfðu vakið, að vel yrði mætt á flokksráðsfundinn á Hólum í Hjaltadal, sem fram fór dagana 25.-26. ágúst. Svo var þó ekki og mætti tala um meiriháttar spennufall, enda hafði Steingrímur sýnilega náð góðu taumhaldi á sínu fólki og andstæðir hópar sáu litla ástæðu til að mæta á svona hallelújasamkomu. Líka var fyrirfram ákveðið að almennar umræður yrðu í lágmarki. Fundarsalurinn var heldur þunnskipaður ef frá eru taldir þingmenn flokksins og kjarni Steingrímsarmsins. Sem dæmi má nefna að ein tillaga var samþykkt með 15 atkvæðum gegn 13, þannig að innan við 30 tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Eitthvað fleiri voru þó á fundinum. Í Morgunblaðinu er haft eftir tveimur ónafngreindum flokksráðsmönnum að fundurinn hafi verið ólögmætur sökum fámennis. Ályktunin um utanríkismál, þ.e. um samskipti Íslands og ESB, varð á endanum afar látlaus:

Flokksráð VG fagnar þeirri umræðu sem nú fer fram um samskipti Íslands og ESB og hvetur til að henni verði haldið áfram.

Var þetta það eina sem flokksráðsfundurinn lét frá sér um umsóknina og gat varla minna verið. Það kom hins vegar á óvart hvað Katrín Jakobsdóttir var harðorð í setningarræðu sinni þar sem hún rakti feril ríkisstjórnarinnar og taldi hana á réttri leið. Hún gat þess þó að stærstu vonbrigði sín væru að „samstaða og samheldni, sem einkennt hefur okkar hreyfingu frá upphafi, hefur horfið.“ Þá vék hún að ESB-umsókninni sem hefði reynst flokknum erfið og sagði að flokkurinn skiptist í þrjú horn og máttu sumir flokksmenn sitja undir því að vera einsmálsmenn í hennar augum:

Í fyrsta lagi er það meirihluti flokksmanna sem er andvígur aðild að Evrópusambandinu en lítur á það mál sem eitt af mörgum stefnumálum flokksins sem beri að vega og meta í samhengi við önnur. Þannig vildi meirihluti okkar ganga til stjórnmálasamstarfs við Samfylkinguna 2009 þrátt fyrir umsókn að Evrópusambandinu vegna þess að með því mátti koma á brýnum breytingum á íslensku þjóðfélagi í átt að auknu jafnrétti og velferð. Það þarf ekki að efast um árangurinn af því samstarfi þótt áherslur okkar hafi ekki náð í gegn í öllum málum.

Í öðru lagi er það hópur flokksmanna sem vill að Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerist einsmálshreyfing sem byggi afstöðu sína til allra mála á andstöðu sinni við aðild Íslands að Evrópusambandinu. …

Þriðji hópurinn er síðan þeir sem eru hlynntir aðild að ESB, en sá hópur hefur ekki látið mikið í sér heyra og hefur sætt sig við það að vera í minnihluta innan flokksins. Það er ljóst að umtalsverður hluti kjósenda VG kaus flokkinn í seinustu kosningum þrátt fyrir afstöðu hans til Evrópusambandsins, ekki vegna hennar.

[…]

Össur Skarphéðinsson fylgdist með fundarhöldunum úr fjarlægð og hlakkar í honum yfir hagstæðri niðurstöðu fyrir Evrópu­sambandssinna:

Það er fundurinn sem ráðherrar VG sögðu við RÚV í upphafi mánaðarins að ætti að leggja undir endurskoðun á afstöðu VG til ESB-málsins. Nú ríkir þar heiðríkja sátta við samstarfsflokkinn.

Steingrímur J. Sigfússon er með föst tök á fundinum, heldur staffíruga ræðu og bæði hann og Katrín Jakobsdóttir varaformaður tala af meira öryggi en áður. Það er eins og þau skynji straumhvörf í átökunum innan flokks. […]

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er uppgefin á slagnum innan VG. Augljóst er að valdakjarninn mun láta til skarar skríða gegn henni í prófkjörum og hún er farin að sýna skýr merki um að vilja út. Jón Bjarnason dvín að pólitískum kröftum, óvíst hvort hann fer fram og enn óljósara hvort hann næði árangri. Staðan sem er að teiknast upp er að eftir kosningar kunni Ögmundur Jónasson að enda sem síðasti móhíkaninn af þeim hópi sem hefur fylgt annarri línu en Grímur.

 

2,140