trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 04/07/2014

Matvælaöryggið, Costco, gæðin og hreinleikinn

Þegar allt hrundi í október 2008 voru margir sem brugðust við með því að fara að hamstra mat og kaupa sér frystikistur til að búa sig undir þær hamfarir sem fyrirsjáanlegar voru. Sumir gerðu jafnvel ráð fyrir því að með gjaldeyrisþurrð myndi innflutningur leggjast af og helstu nauðsynjar yrðu ófáanlegar. Á þessum tíma íhugaði ég stöðu mína sem móðir og aðalmatráður heimilisins en komst að því að við fjölskyldan myndum lifa veturinn af svo lengi sem við héldum rafmagninu enda var frystiskápur heimilisins fullur af nýju slátri (sem ekki var tekið í tilefni kreppunnar heldur af gömlum vana) og hálfu folaldi sem ég hafði keypt beint frá býli í sumarlok. Allir eldhússkápar voru líka fullir af hveiti, pasta, hrísgrjónum og niðursuðudósum. Við myndum í versta falli fá skyrbjúg.

Síðan þá hefur orðið „matvælaöryggi“ verið nokkuð í umræðunni og því jafnvel haldið fram að Ísland geti tekið að sér að framleiða matvæli fyrir aðra jarðarbúa í stórum stíl. Þá er því líka haldið fram að íslensk matvara sé slík hágæðavara að fólki hinum meginn á hnettinum sé sama þótt hún kosti mikið, þeir vilji ólmir fá að kaupa hana. Ég skellti upp úr þegar ég las grein Össurar Skarphéðinssonar 1. júlí s.l. í Fréttablaðinu. Greinina skrifar hann í tilefni að fríverslunarsamningi Íslands og Kína og segir:

„Íslenskir ostar eru samkeppnisfærir í Kína. Skyrið, sem fer sigurför hvarvetna sem því er drepið niður, mætti framleiða á sérleyfum í samstarfi við kínverskan mjólkuriðnað.“

Hér hljóta allir glöggir menn að sjá brandara. Við sem höfum smakkað erlenda sérosta“ vitum nefnilega að í samanburðinum eru þeir íslensku oft eins og kertavax. En fæstir Kínverjar vita mikið um það, einfaldlega af því að þeir borða ekki osta. Um 90% fólks af asískum eða afrískum uppruna sem slitið hefur barnsskónum er nefnilega með mjólkuróþol. Hin 10% sjá litla ástæðu til að sækja í mjólkurafurðir enda hvorki vant þeim né eru þær ómissandi hluti af þeirra daglega kosti. Í stórborgum Kína má hins vegar finna og kaupa alla bestu osta heimsins, innflutta og selda á mun lægra verði en á Íslandi. Þeir sem það gera eru upp til hópa útlendingar. Á það hefur verið bent að mjólkurneysla fer þó vaxandi í Kína eftir því sem vestrænt matarræði breiðist þar út og það er rétt. Ekki er þó hægt að gera ráð fyrir því að líkamar Kínverja fari á næstunni að framleiða laktasa svo þeir þoli mjólkurafurðir í meira mæli en nú er.

Þá er það þetta með sérleyfið fyrir skyrframleiðslu. Ég segi bara, Össur, kanntu annan?

Þó er það auðvitað svo að Ísland er stórveldi þegar kemur að matvælaframleiðslu (hér miðum við auðvitað við hina frægu höfðatölu). „Við“ veiðum rosalega mikinn fisk og seljum til útlanda. Það eina sem vantar er að „við“ fáum arðinn af þeirri auðlind sem við eigum öll saman, lögum samkvæmt. Og hinar „sjálfbæru fiskveiðar“ eru ekki sjálfbærari en svo að þær eru algjörlega háðar olíuinnflutningi. Gjaldeyrisþurrð myndi því fljótlega setja þær úr skorðum.

Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim usla sem fyrirhuguð verslun bandaríska fyrirtækisins Costco hefur valdið síðustu daga. Inn í slíka verslun hef ég aldrei stigið fæti en mér skilst að þar megi fá fullt af ódýru allskonar. Verslunin ku vera heildverslun og þar má spara mikið fé, t.d. með því að kaupa kjöt í kössum. Þá munu frystikisturnar sem keyptar voru haustið 2008  koma sterkar inn aftur. Mér skilst líka að Costco sé samfélagslega ábyrgt fyrirtæki sem geri vel við starfsmenn sína og að hin lágu verð séu tilkomin með gríðarlegri hagræðingu og útspekúleruðum rekstri. Walmart ku vera allt önnur ella.

Ef það er eitthvað sem vantar á Íslandi er það samkeppni. Fyrir utan hárgreiðslustofur fyrirfinnst vart samkeppni á landinu bláa heldur ríkir hér fákeppni á flestum sviðum þar sem þrír til fjórir stórir aðilar skipta markaðnum á milli sín. Það væri ljómandi að fá samkeppni og ég nenni ekki einu sinni út í umræðuna um hvort við þurfum fleiri bensínstöðvar. Okkur vantar frekar fleiri orkusölufyrirtæki en útsölustaði.

Okkur vantar líka samkeppni á matvörumarkaði. Eftir hrun voru stórkostleg tækifæri til að skipta þeim markaði upp en þau voru ekki nýtt nema að litlu leyti. Þess í stað er eitt stórt fyrirtæki sem gnæfir yfir markaðinn og skilar eigendum sínum ofurhagnaði þótt stutt sé síðan það gekk í gegnum endurskipulagningu. Við þetta mega aðrir á þeim markaði keppa og það er ekki sérlega sanngjarnt.

Því hefur verið haldið fram að gæði íslenskra matvæla séu meiri en útlenskra. Það er bara ekki rétt. Auðvitað er það svo að íslenskt grænmeti sem flutt er kannski 50 km í búð er ferskara en grænmeti sem hefur þurft mun lengra ferðalag. Það segir sig sjálft. En það er ekkert endilega betra upprunalega og oft má sjá myglaða vöru á boðstólnum í íslenskum verslunum. Og sumt sem framleitt er hérna er hreinlega skelfilegt. Mikið af íslensku brúnu gumsi stenst ekki reglugerð um kakó- og súkkulaðivörur sem við höfum blessunarlega þurft að innleiða vegna EES-samningsins. Ef umbúðir brúna gumsins er skoðaðar er orðið súkkulaði þar hvergi að finna ef varan stenst ekki kröfurnar. Við þurftum sem sagt hjálp frá Evrópusambandinu til að fá úr því skorið hvað væri súkkulaði og hvað ekki. Gervisúkkulaðið er upprunnið frá tíma haftabúskapar þar sem réttu hráefnin voru ekki tiltæk en landinn vandist þessu svo bara og mörgum finnst þetta betra en alvöru. Og enn eimir eftir af þessum haftakerfi og þau bergmála skemmtilega í orðum Sigrúnar Magnúsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, sem segir að tilkoma Costcos myndi leiða til heilsuleysis.

En auðvitað eigum við að endurskoða lög og reglur um innflutning á matvælum. Eins og þetta er núna eru verndartollar sem halda vöruverði hér háu og torvelda mjög innflutning. Engu að síður komst það upp s.l. vetur að framleiðslu- og söluaðilar höfðu í stórum stíl flutt inn frosið útlenskt kjöt, jafnvel á síðasta söludegi, þítt og selt sem ferska vöru hér á landi. Enginn vissi neitt vegna glufu í lögum og reglum. Nú er ég alls ekki að halda því fram að allt útlenskt kjöt sé hættulegt eða eitrað, staðreyndin er sú að yfir sjö milljarðar manna lifa á erlendum matvælum og margir bara ágætu lífi. Ég myndi gjarna vilja eiga þess kost að kaupa erlent kjöt og ég tala nú ekki um osta án verndartolla og á hagstæðu verði. En neytandinn á rétt á að vita hvað hann er að kaupa, rétt á að geta tekið upplýsta ákvörðun og á því hefur verið nokkur brestur og það er ólíðandi. Það er líka óþolandi að geta ekki keypt erlenda osta nema á uppsprengdu verði vegna forræðishyggju (eða hagsmunagæslu) þeirra sem flytja svo inn erlent smjör í innlendu ostaframleiðsluna.

Sigrún Magnúsdóttir hefur auðvitað nokkuð til síns máls þegar hún hafnar amríska kjetinu. Reglur um kjötframleiðslu eru aðrar í Evrópu en Bandaríkjunum og bannað að flytja inn kjöt frá Bandaríkjunum þar sem hormónagjöf er hluti af framleiðsluferlinu inn á evrópska efnahagssvæðið. Það er ágætt og ég er sammála Sigrúnu um að við eigum ekki að borða hormónakjöt þótt ég hefði orðað svarið öðruvísi. Við eigum ekki að slá af gæðakröfum þótt stórar, erlendar keðjur vilji opna búðir. Og þar verður það að segjast að EES-samningurinn hefur reynst neytendum mun betur en íslenska batteríið sem knúið er áfram af sérhagsmunum. Fréttir af flúor- og díoxínmengun sýna okkur það. En Costco rekur líka verslarnir innan ESB. Í Bretlandi eru 25 verslanir. Í fljótu bragði sýnist mér kjötið þar allt eiga uppruna sinn í Bretlandi svo við Sigrún getum sennilega verið alveg rólegar, neysla þess mun ekki leiða til frekara heilsuleysis en önnur nútíma kjötframleiðsla sem getur vart talist fögur eða heilnæm.

Þetta er nefnilega öðru fremur spurning um forsendur. Við eigum að taka landbúnaðarkerfið sem er okkur gríðarlega dýrt til gagngerrar endurskoðunar, ekki fyrir Costco eða önnur erlend stórfyrirtæki heldur fyrir okkur sjálf. Hvort matvörubúð eigi að geta selt bensín? Er ekki bensínstöð rétt við margar matvörubúðir? Ég nefni Fjarðarkaup sem dæmi en þar er hægt að keyra beint af bílastæði verslunarinnar yfir á bensínstöð. Svipað fyrirkomulag er hjá Bónus í Smiðjuhverfinu. Og sumar bensínstöðvar hafa hægt og bítandi verið að breytast í matvöruverslanir án þess að miklar athugasemdir séu gerðar við það. Í sumum matvöruverslunum hafa svo apótek útibú. Skiptir einhverju hvort sami rekstraraðili sjái um hvoru tveggja ef öllum reglum og öryggiskröfum er framfylgt?

Ég nenni ekki í hina SUS-uðu umræðu um áfengi í matvörubúðum en sömu lögmál hljóta að gilda um búsið og allt hitt. Ef við ætlum að breyta reglum, gerum  það þá fyrir okkur sjálf og á  forsendum neytenda en ekki freku hagsmunaaðilanna og látum eitt yfir alla ganga.

 

DSC_1956

 

Flokkun : Pistlar
1,480