Manndómur
Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stapa tengist tveimur aflandsfélögum sem frá er sagt í Panamaskýrslunni. Annað þeirra stofnaði hann í Lúxembúrg, fyrir Kaupþing. Það starfaði í þrjú ár, eftir því sem Kári Arnór segir í yfirlýsingu. Samkvæmt sömu yfirlýsingu lagði Kári Arnór hvorki fé til þessa félags né fékk pening greiddan úr því.
Síðan segir í yfirlýsingu Kára: „Hitt félagið var stofnað af MP banka fyrir mína hönd árið 2004. Ég sé í gögnum að ég mun hafa greitt 305.200 kr. fyrir stofnun þess félags. Félagið var aldrei notað. Það var talið fram á framtölum á verðmæti stofnkostnaðar og afskrifað þremur árum síðar, sem tapað fé. Ég hafði því engan ávinning af þessum félögum og þau tengjast engum skattaundanskotum“.
Undir lok yfirlýsingarinnar segir: “Þótt eflaust megi deila um hversu alvarlegir þeir hlutir eru sem ég hef hér lýst, þá met ég þá umræðu sem nú er í samfélaginu um aflandsfélög og skattaskjól þannig að ekki sé boðlegt að maður sem er í minni stöðu, þ.e. forstöðumaður aðila sem varslar (svo) lífeyrissparnað fyrir almenning, hafi tengst slíkum félögum. Skiptir þá engu máli þótt langt sé um liðið, hvort þetta var löglegt eða ólöglegt eða hvort viðkomandi hafi hagnast á slíkum viðskiptum eða ekki. Í ljósi þessa hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Það er að mínu mati eina leiðin sem mér er fær til að axla ábyrgð, enda tengist vinnuveitandi minn ekki á neinn hátt þessum málum.
Ég er leiður yfir þessu máli öllu og vil ég biðja fjölskyldu mína, vini, samstarfsfólk og kollega afsökunar á þeim óþægindum sem þau munu eflaust verða fyrir vegna umræðu um þennan dómgreindarbrest minn.“
Formaður Sjálfstæðisflokksins stofnaði aflandsfélag í skattaskjóli og lagði í það 40 miljónir króna. Álverið á Reyðarfirði stofnaði skattaskjólsfélag fyrir eiginmann varaformanns Sjálfstæðisflokksins og hafði varaformaðurinn pókúru fyrir félaginu. Báðir formennirnir þögðu um tilvist aflandsfélaga sinna þar til óviðkomandi aðilar upplýstu um tilvist þeirra.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er fjármálaráðherra Íslands. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins er innanríkisráðherra landsins og fæst um dómsmál. Hvorugur ráðherrann hefur beðist afsökunar á gjörðum sínum né sagt af sér störfum. Þess í stað tóku þeir báðir sæti í endurlífgaðri ríkisstjórn Framsóknarflokksins eftir að hún missti andann vegna upplýsinga úr Panamaskjölunum.
Kári Arnór Kárason sagði af sér störfum. Hann sýndi manndóm.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020