trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 17/06/2014

Þegnarnir eru dauðir. Lifi borgararnir! Gleðilega þjóðhátíð

[Málhornið] Enn gilda á Íslandi lög þar sem kóngurinn í Kaupinhafn tilkynnir hvernig að skuli farið þegar seldar eru kirkjur. Þá eiga seljandi og kaupandi báðir að segja biskupnum og kansellíinu frá málavöxtum – að viðlagðri eitthundrað ríkisdala sekt til fátækra í sókninni. Athugaðu þetta, lesandi góður, ef þú ætlar að kaupa þér kirkju, eða selja þá gömlu. Best að finna í snatri netfangið hjá biskupnum – það er orðið vesin núorðið að skipta í ríkisdali fyrir Félagsþjónustuna.Jón Sigurðsson

Þetta konungsbréf var skrifað á útmánuðum 1751 og „Vaare Undersaatter“ sem standa í þessum viðskiptum urðu heimamönnum til hagræðis þá eða síðar gerðir í þýðingu að „þegnum Vorum“ sem fengu lögin allra-náðarsamlegast afhent svona yfir hafið. Friðrik V var náttúrlega í fullkomnum rétti til að taka svona til máls, einvaldur af guðs náð í ríki sínu gjörvöllu, líka í Láenborg og Stórmæri og Þéttmerski að ekki sé minnst á annes og útsker.

Þetta er sannarlega til prýði í lagasafninu og sýnir að Íslendingar skammast sín ekki fyrir fortíðina – við þurfum ekki að velta styttum og rífa niður hús. Erum ættstórir alþýðumenn. Mætum hvaða fyrirmenni sem er reistu höfði. Best í heimi.

Og samt ganga gömlu þegnarnir um íslenskar umræðugötur og bloggtorg einsog Friðrik fimmti og félagar séu ennþá við bréfaskriftir. Lítum á Netið, texta frá einstaklingum, skólum, sveitarfélögum, fyrirtækjum og ríkisstofnunum:

*  „Ef þú hefur stundað nám erlendis, eða ert erlendur þegn með starfsmenntun frá öðru landi, getur þú sótt um að fá menntun þína viðurkennda á Íslandi.“ – Erlendur þegn? Frá konungsríki?

*  „Þessi skoðun truflar hið andlega bataferli og kemur í veg fyrir að einstaklingurinn finni sig hæfan þegn í samfélaginu.“ – Hvaða skoðun? Frelsi, jafnrétti , bræðralag?

*  „Einn þegn eitt atkvæði.“ – Nú, þurfa þegnar nokkuð svoleiðis?

*  „Þegar nemandi er innritaður í skólann hefur hann staðfest umsókn sína um skólavist. Um leið samþykkir hann að gangast undir þær skyldur og reglur sem á herðum hans hvíla sem þegn í skólasamfélaginu.“ – Hörkukarl, skólastjórinn í VMA.

*  „Til gamans má geta þess að elsti þegn Vestmannaeyjakaupstaðar nú er [N.N.] …, en hún er nú í júlí 2006 orðin 100 ára.“ – Úr Eyjum, auðvitað …

*  „Látum ekki lygi setjast að. / Leyfum henni ekki að segja orð. / Skundum frekar á friðvænlegri stað. / Í friðnum hugsar enginn þegn um morð.“ – Einmitt. Afhverju hefur enginn pælt í þessu fyrr? Enginn þegn um morð / og segir ekki orð.

*  „Mundu að sem þegn EES hefur þú sömu réttindi í öðru aðildarríki og sjálfir borgarar þess ríkis. Biddu um að fá að tala við EURES ráðgjafa sem hefur reynslu …“ – EES-þegnar, halló! Hvað var Jón Baldvin eiginlega að hugsa?

Við losnuðum við danska kónginn fyrir rúmum sex áratugum og þá hafði hann ekki verið til teljandi vandræða í næstum þrjátíu ár – og samt er ennþá daunn af þessu orði. Þegn. Það er einsog sá sem svona talar líti á ríkið – nú eða Verkmenntaskólann / EES / Vestmannaeyjabæ – sem húsbónda, yfirvald. Með skyldur og reglur.

Kannski sýnir þetta að Íslendingar gengu einum of greitt frá áþján einveldis til nútímalegs lýðræðis, tóku kannski aldrei ákvörðun fullkomlega sjálfir um þær breytingar allar heldur fengu niðurstöðurnar sendar með Bakkaskipum aldanna, stjórnarskrána gefins á Þingvallaralli, heimastjórnina uppúr óvæntum úrslitum í dönsku deildinni, fyrri heimsstyrjöldin sendi okkur fullveldið með spænsku veikinni, og að lokum datt lýðveldið af himnum ofan þegar bandamenn voru orðnir nógu öruggir með stríðið við Hitler. (Fyrirgefðu, Jón forseti og þið hin.)

Eina íslenska stjórnarbyltingin gegn Valdinu var einkaframtak djarfhuga útlendings, sem fékk að launum að vera kallaður hundadagakonungur!

Jörundur færði okkur auðvitað hugsjónir frönsku byltingarinnar og það var fjarri honum að kalla sig kóng heldur hét hann „Alls Íslands verndari og hæstráðandi til sjós og lands“ – í stíl við Bonaparte áður en hann breytti sér í Napóleon. Því miður urðu kynni mörlandans af frönsku byltingunni nokkuð skammvinn. Hinir mörlensku héldu áfram að vera þegnar, en Fransmenn höfðu nokkru fyrir Jörundarsumarið okkar kastað slíkum hugtökum í buskann út. Þegar fyrir lýðveldisstofnunina voru titlar allir aflagðir – meira að segja monsieur og madame – og upp tekinn titillinn citoyen – borgari, sennilega undir áhrifum frá stjórnmálaspeki Rousseaus: Citoyen, ekki sujet. Frjáls einstaklingur í samningsbundnum tensglum við aðra frjálsa einstaklinga.

Það er ekki víst að öllum hafi þótt þessi nýja kveðja jafn-skemmtileg. Citoyen Capet naut hennar ekki lengi, því sem kunnugt er var Lúðvík XV hálshöggvinn í nafni lýðveldisins 1793 – síðasti kóngur af Capet-ættinni sem settist að völdum í París um það bil sem hann Þorgeir stóð á þingi.

Svo síðla miðalda merkti þegn á norrænu þegar einhvern sem heyrir undir annan, undirsáta í skipulagi lénsveldisins. „Þér eigið góðan konung en hann þegna illa,“ segir Karl mærski á húsþingi Ólafs konungs digra í einni sögugerð. Af því lénsveldið náði til himins gátu skáldin líka kallað góða menn „Krists þegna“ en púka og djöfla „þegna fjandans“. Áður voru þegnarnir þó einkum þeir sem næstir stóðu konunginum eða höfðingjanum – og það þekkja vinir Shakespeares vel úr Macbeth þar sem lordarnir heita thane. Á engilsaxnesku ðegn. Eð borið fram einsog íslenskt þorn. Germanska orðið er skylt téknon í grísku, sem þýðir barn. Upphaflega, segir orðsifjafræðingurinn mikli Ásgeir Blöndal Magnússon, hefur þetta líklega merkt ‚ungur drengur‘ og síðan ‚ungur maður í þjónustu höfðingja‘ – en að lokum færist orðið á alla þá sem í valdi höfðingjans stóðu.

Fornskáldin létu greipar sópa um orðaforðann gjörvallan að efna í samheitarunur til að stuðla og ríma, ekki síst í dýrum krossgátum dróttkvæðanna – og í skáldskap var þegn notað bara sem ,maður‘ og þurfti engin sérstök félagstengsl. Það var ekki verra að orðið rímar við gegn og regn og hegna – en stundum er þetta einfalt og skrautlaust og sterkt: því alþjóð /fyr augum verður / gamals þegns / gengileysi, segir Egill um sjálfan sig í Sonatorreki.

Þegar lénsveldið og kóngurinn hertu tökin á Frónbúum harðnaði hinsvegar undirsáta-merkingin í þegninum. Þetta hugtak var þessvegna varla brúklegt þegar nútíminn kom til Íslands á 19. öld. Til tíndust smám saman vissulega íslensk orð um nútímafólk í nútímaríkjum: kjósendur, neytendur, þjóðvinir, bæjarbúar, sveitungar, félagar og félagsmenn, skattgreiðendur, netverjar, almenningur og sjálfstæðismenn – en þegnar voru þeir meira og minna samt sem áður.

Borgarinn var litinn hornauga.Framan af bjó hann í borg, en allir alvöru-Íslendingar í sveit. Borgarar voru í skársta falli vetrarkaupmenn og skárri tómthúslýður í handverki. Þessvegna neitar Bjarni Harðar ennþá að tala um borgara og vill frekar vera þegn. Þegar þjóðin fór að flytjast á mölina tók ekki betra við – því þá upphófust langvinn stéttastríð þar sem borgararnir stóðu öðrumegin og kúguðu öreigana hinumegin, að minnsta kosti samkvæmt kenningunni. Orðið komst þessvegna aldrei almennilega í notkun sem aðili að samningnum um Félagið hans Rousseaus – Contrat social. Það gengur hinsvegar þokkalega í samsetningum: ríkisborgarar, skattborgarar. Og jafnvel Ögmundur Jónasson talar stundum um hinn almenna borgara, sem sennilega er frændi litla mannsins, sællar minningar.

Nú eru hinsvegar póstmarxískir þéttbýlistímar. Ísland allt að verða sama borgríkið, og íbúarnir ein samfelld smáborgarastétt, mínus kannski nokkrir þyrlueigendur. Stígum loksins skrefið. Gerum byltinguna.

Þegnarnir eru dauðir. Lifi borgararnir!

Flokkun : Menning
1,406