trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 06/07/2017

lofið dagsins þreytta barni að sofa

Sem heilbrigðisráðherra vann Kristján Þór Júlíusson mikið starf við leit að leiðum til að einkavæða heilbrigðiskerfið. Hann þurfti því eðlilega að hvíla sig. Oft og mikið. Í vinnutíma og utan hans. Og varð  þjóðkunnur fyrir djúpan svefn og langan á stundum.


Svo hrökklaðist ríkisstjórnin sem hann sat í frá völdum, nýrri var hróflað upp, ekkert tillit tekið til langþreytu Kristjáns og hann gerður að menntamálaráðherra; það þurfti vanan mann að leita leiða til einkavæðingar skóla og menningarstofnana því þar er margt girnilegt fyrir frændur og vini, bæði fé og fasteignir.

Eftir góða hvíld, á meðan verið var að mynda ríkisstjórnina sem hann var settur í, tók hann til við leitina. Og var fljótur að finna leiðir. Sameining skóla var ein. En þetta er erfitt starf og erilsamt; ráðherrann þurfti líka að snúast í öðru; hann sást við opnun listasýningar, á tónleikum og í hringiðu veislusamfélagsins. Þetta er þreytandi.  Virkilega lýjandi.

Og nú sefur hann. Þess vegna verður engin einkavæðing með sameiningu skóla, að svo komnu, enginn skólastjóri í Ármúla, að svo komnu, enginn rektor við Menntaskólann í Reykjavik, að svo komnu, lítil, kannski engin, einkavinavæðing, litlar gjafir, að svo komnu.

Við skulum því hafa hljótt og sýna lúnum ráðherra tillitssemi. Þá sefur hann lengur, sem er gott fyrir okkur öll. Förum að þessum tilmælum Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi:

                                        Ó, hafið lágt við litla gluggann hans

                                      og lofið dagsins þreytta barni að sofa.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,649