trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/05/2015

´Light´ útgáfan af Ingva Hrafni skrifar bók. Það er fróðlegt

Eggert SkúlasonEftir Karl Th. Birgisson

Þetta er gagnleg bók. Þetta er ekki góð bók. En hana ættu sem flestir að lesa.

Eggert Skúlason er – svo að það sé orðað pent – ekki með fíngerðustu eða nákvæmustu fjölmiðlamönnum á Íslandi. Það er reyndar ofrausn og óheppilegt að hann skuli vera titlaður blaðamaður á bókarkápu, því að í þessari bók (Andersen skjölin, Almenna bókafélagið, 2015) fer ekki mikið fyrir blaðamennskuhugsun. Þvert á móti, eins og vikið verður að.

Eggert er frekar eins og ´light´ útgáfan af Ingva Hrafni Jónssyni. Eitt dæmi: Leitin að forstjóra Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2009 var „eins og að leita að jómfrú með víðtæka reynslu af kynlífi“ (bls. 20). Athyglisverð líking og kunnugleg týpa.

Og nálgun Eggerts að mörgu í efni sínu verður varla lýst nema svona: Slumpað á staðreyndir.

Egill Helgason hefur þegar hrakið einfaldar staðreyndavillur, sem hefði verið lítið verk að komast hjá. Ég gæti bætt við mínum eigin, en nenni því ekki, bæði af því að þær eru lítilvægar í stóra samhenginu og að staðreyndaslumpið ber bara vitni um slóðaskap og kæruleysi, en segir ekkert um meginefni og -boðskap bókarinnar.

Eggert er nefnilega maður með missjón. Og það er fínt. Fólk má hafa missjón.

———-

Nafn bókarinnar gefur til kynna að hún sé um Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóra fjármálaeftirlitsins. Sem hún vitaskuld er, en hún er um annað og fleira líka. Hún er tímalínuleg rakning atburða eftir Hrun, einkum þeirra sem snúa að rannsóknum á meintum sakamálum, og þannig einnig tilraun til uppgjörs við og mat á þeim rannsóknum.

Þar er aldeilis úr ýmsu að moða og Eggert gerir sér sæmilegan mat úr því. Þess er þó óskandi að alvörublaðamaður taki við keflinu og klári verkið, því að það gerir Eggert hreint ekki. Eins og maður með missjón velur hann þær staðreyndir sem henta málstaðnum og sleppir öðrum. Hann skrifar meira eins og saksóknari en samtímasagnfræðingur.

Gagnlegt er efnið samt. Skoðum nokkur atriði.

———-

Sagan af stuttri forstjóratíð Gunnars Andersens í fjármálaeftirlitinu er tragísk, eiginlega nixonísk í sjálfseyðingarhvöt sinni og paranoju.

Í bókinni gerir Eggert því ítrekað skóna að Gunnar sé óvandaður maður, og nefnir einkum til sönnunar leka hans á trúnaðarupplýsingum og persónulegan hefndarhug í garð tiltekinna einstaklinga. Fyrir þessu færir Eggert engar sönnur – það er allt getgátur og slúður, byggt á því sem einhver fékk á tilfinninguna eða hélt svakalega mikið, af því að eitthvað hafði gerzt og eina skýringin hlaut að vera Gunnar Andersen.

Það voru heldur ekki slúðursögur af því tagi sem réðu örlögum Gunnars í starfi forstjóra. Hann sá fyrir því sjálfur. Annars vegar með því að segja ósatt um hlut sinn í aflandseyjabankabixi þegar hann vann í Landsbankanum og hins vegar þegar hann var gripinn glóðvolgur við að leka upplýsingum um viðskipti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í DV.

Fyrra málið (sem Kastljós upplýsti um) var nógu slæmt, en hið seinna svo yfirgengilega heimskulegt að niðurstaðan – brottrekstur Gunnars – var augljós og óumflýjanleg.

Kastljós byggði umfjöllun sína á upplýsingum sem margar hverjar voru greinilega komnar beint innan úr Landsbankanum og afhending þeirra var þar með trúnaðarbrot – brot á starfsreglum. Eggert hælir Kastljósinu (réttilega) mjög fyrir þessa umfjöllun, en það gefur okkur hins vegar tilefni til að velta fyrir okkur núverandi ritstjóra DV, höfundi bókarinnar, lekum og blaðamennsku.

———-

Eggert Skúlason ritstjóri eyðir löngu máli í bókinni til að hneykslast á þeirri ósvinnu, að lánabók Kaupþings hafi verið lekið í fjölmiðla á sínum tíma (og kennir Gunnari Andersen vitaskuld um, þótt hann finni því hvergi stað). Þetta var yfirgengilegt brot á lögum um bankaleynd, finnst honum, og eina ástæðan fyrir því að fallið var frá kröfu um lögbann á birtingu var múgæsing í samfélaginu. Réttlætið tapaði fyrir dómstóli götunnar.

Semsagt:

Ef Eggert Skúlason hefði á þessum tíma verið ritstjóri DV og fengið lánabók Kaupþings í hendur hefði hann ekki birt neinar upplýsingar úr henni. Ríkisútvarpið gerði það. Kastljósið gerði það. WikiLeaks gerði það. Og fjölmargir miðlar aðrir, útlendir meira að segja.

En DV Eggerts Skúlasonar hefði ekki gert það. Það hefði, að mati ritstjórans, verið gróft brot á lögum um bankaleynd. Hann hefði ekki einu sinni – því að hvergi örlar á þeirri hugsun í skrifum hans – ekki einu sinni leitt hugann að því að leggja mat á gögnin, hvort eitthvað ætti þar jafnvel erindi við almenning. Hann hefði bara skilað lánabókinni og líklega kært þann til lögreglu sem lét hann fá hana.

Þessi afstaða til blaðamennsku hlýtur að vera mjög gagnleg fyrir lesendur þess DV, sem Eggert ritstýrir núna, og raunar synd að hún skuli ekki hafa komið svo glöggt fram fyrr.

Og hún er þeim mun merkilegri, að Eggert lýsir sérstakri velþóknun í bókinni á umfjöllun Kastljóss um Gunnar Andersen, sem var einmitt byggð á leka á trúnaðargögnum.

Hver er eiginlega afstaða ritstjóra DV til meðferðar á trúnaðarskjölum? Eru lekar bara í lagi þegar þeir henta málstað hans?

Ritstjóri DV segir líka á einum stað í bókinni, og vísar þar almennt til efnistaka fjölmiðla í fréttum af Hruninu: „Sjálfsagt þótti að birta myndir og nafngreina þá sem starfað höfðu í fjármálakerfinu við öll tilefni“ (bls. 241).

En ekki hvað? Þykir ritstjóra DV óeðlilegt að birt séu nöfn og myndir af þeim sem fjallað er um? Hvers vegna ekki og í hvaða tilvikum? Gildir nafn- og myndaleynd bara um bankamenn, en ekki um feita strákinn á kassanum í Hagkaup?

Um nafn- og myndbirtingar er ekkert að finna í ritstjórnarstefnu DV. En Eggert er eflaust með þetta allt á hreinu. Vonandi í rassvasanum.

———-

Sem leiðir okkur þó að aðgát í nærveru sálar. Einn þráðurinn í bók Eggerts er nefnilega meðferð rannsóknarvaldsins á einstaklingum. Það er ljót saga sem vonandi verður skrifuð nánar.

Við rannsókn á hrunmálum fengu mörg hundruð einstaklingar misserum og árum saman réttarstöðu grunaðs manns án þess að hafa gert nokkuð af sér annað en að starfa í fjármálafyrirtæki. Fólk var ekki kallað inn til skýrslutöku í mörg ár og bréfum með spurningum um stöðu mála var ekki svarað.

Sérstakur saksóknari sagði í öfugsnúinni hótfyndni sinni að fólk fengi réttarstöðu grunaðra því sjálfu til verndar, en reyndin var sú að þessi meðferð á fólki varð mörgum til óbætanlegs tjóns, ekki aðeins fjárhagslega (fólk fékk ekki vinnu og mótmælt var opinberlega ef það fékk þó starf) heldur líka og ekki síður sálarlega í of mörgum tilvikum.

Við erum hér ekki bara að tala um „stóru kallana“ – alla Sigurði Einarssynina og Sigurjón með snúðinn – heldur hvers kyns millistjórnendur og forsvarsmenn lítilla félaga sem enginn veit hverjir eru.

Um þetta þekkja líklega flestir dæmi og Eggert rekur tvö í bók sinni. Annað er um Ingólf Guðmundsson, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga (aldrei heyrt um hann? einmitt), hitt af Guðmundi Erni Gunnarssyni forstjóra VÍS (ekki heyrt af honum heldur? einmitt). Í báðum tilvikum (og við kunnum tugi annarra) var ríkisvaldi beitt af svo miklu ofbeldi gegn einstaklingum að enginn getur varið.

Rannsakendur höfðu öll gögn í sínum höndum, reikninga, bókhald, tölvupóst, hljóðrituð símtöl – jú neim it – en þegar kom að því að kalla einstakling til skýrslutöku var beitt þessari aðferð:

Bönkum upp á snemma morguns, handtökum manninn í náttfötunum að börnum viðstöddum, færum í lögreglubíl og niður á stöð og geymum hann í klefa í nokkra klukkutíma, jafnvel á annan sólarhring, án þess að tala við hann. Kannske brotnar hann og segir okkur eitthvað annað en öll rafrænu gögnin segja okkur.

Þetta var eftir allar húsleitirnar, þar sem velt var við dýnum í barnarúmum.

Hér er mikilvægt að taka fram, að engu máli skiptir hvort einstaklingarnir, sem sættu þessari meðferð, höfðu gerzt brotlegir við lög (sem fæstir gerðu). Jafnvel hinir seku hafa mannréttindi. Jafnvel gagnvart þeim þarf að virða lágmarksreglur. Hér var tilgangurinn einn að terrorisera og brjóta fólk niður. Lögreglan hefði aldrei farið svona með Lalla Johns.

En aðferðir lögreglunnar voru ekki tilviljun. Sérstakur saksóknari hefur lýst því hvernig hin norsk-franska Eva Joly kenndi rannsakendum að fást við „svona fólk“. Þessar handtökuaðgerðir voru hluti af þeim lærdómi.

Og bók Eggerts vekur áhugaverðar spurningar um Evu Joly.

———-

Eva Joly kom til Íslands taugabilunarveturinn 2008-2009 fyrir tilstilli Egils Helgasonar og birtist í sjónvarpinu í Silfri Egils með boðskap sinn um fjárglæframenn og aðferðirnar við að taka á þeim.

Eva varð smám saman að hughreystandi, gamalli frænku sem Íslendingar þurftu einmitt mjög á að halda á þessum tíma. (Hin hughreystandi gráhærða konan á þessum tíma var Jóhanna Sigurðardóttir.)

Með fylgdi þó að Eva og samstarfsfólk hennar fékk einhver hundruð milljóna úr ríkissjóði fyrir ráðgjöf sína, um hvernig haga skyldi rannsókn á Hruninu. Þau skrifuðu skýrslur og Eva gaf yfirlýsingar um eitt og annað, meðal annars fjölda fólks í fangelsi innan fárra ára.

Þess er þó erfitt að sjá stað, hvar öll þessi ráðgjöf og allar þessar milljónir hafa skilað sér. Getur einhver bent á konkret dæmi um hvar ráð Evu Joly komu að gagni, að öðru leyti en með ofbeitingu ríkisvalds gegn einstaklingum og að klappa okkur á kollinn þegar okkur leið illa?

Einn vandinn við að fjalla um Evu Joly er sá, að mjög harðsnúinn söfnuður snýst henni til varnar sé hálfu orði á hana hallað – Egill er þar náttúrlega fremstur í flokki. Það er persónudýrkun sem verður aðeins jafnað til vandræðalegrar dýrkunar Hannesar Hólmsteins á Davíð Oddssyni.

„Davíð er fullkomlega flekklaus.“ Sömu sannindi gilda í költi Evu Joly, og það er ekki endilega til gagns.

———-

Í lokin er rétt að nefna þrennt fréttnæmt fyrir fjölmiðlafólk, sem mér sýnist ekki hafa fengið athygli.

Hið fyrsta er í formála bókarinnar, þar sem því er lýst að frétta- og myndatökumaður Stöðvar 2 hafi í anddyri fjármálaeftirlitsins fyrir tilviljun rekizt á möppu með mjög viðkvæmum upplýsingum, sem einhver hafði skilið eftir á glámbekk.

Efnið – blaðsíðurnar í möppunni – var náttúrlega fest á filmu og var þar með kjörið til rannsóknar og umfjöllunar, en niðurstaða umræðu innan fréttastofunnar var að nota efnið ekki, heldur láta fjármálaeftirlitið vita af „þjófnaðinum“ og komast að einhvers konar gúddí og kósí samkomulagi við FME í staðinn.

Þetta þykir Eggerti hafa reynzt „giftudrjúg“ ákvörðun hjá fréttastofu Stöðvar 2, án þess að nefna hvernig það lýsti sér í fréttum. Ekki verður séð að skúbb Stöðvar 2 innan úr FME hafi orðið fleiri eftir þetta.

Þessi ákvörðun, eða samkomulag, er nefnilega með því heimskulegasta sem fréttamenn gera. Fréttamenn telja sig með slíku hafa fengið aukinn aðgang eða forgang að upplýsingum, en með samkomulaginu er „heimildinni“ þvert á móti gefið valdið yfir upplýsingum. Stofnunin getur skammtað upplýsingar eins og hún vill og þar með ráðið því, hvað fréttamaðurinn fjallar um, í stað þess að hann beiti sínum venjubundnu og faglegu aðferðum við að vinna fréttir, óháð öllum „samningum“ sem hann gerir við opinbera stofnun.

Annað atriðið er eiginlega aukasetning í bók Eggerts, en þar er því lýst, að fréttamaður hafi farið á fund Stefáns Skjaldarsonar, þáverandi skattrannsóknarstjóra, vegna fréttar (bls. 242). Fréttamaðurinn fékk viðtalið, en gortaði sig af því í kjölfarið að skattrannsóknarstjóri hefði verið svo lausmáll, að fréttamaðurinn „labbaði út með sjö fyrstu fréttir.“ Semsagt sjö skúbb.

Nú veit ég ekki hvað Stefán Skjaldarson hefur um þessar upplýsingar að segja, en það er gott að vita að viðkomandi fréttamaður er ekki lengur í því starfi (ef marka má neðanmálsgrein Eggerts). Fréttamaður sem labbar út með sjö skúbb frá skattrannsóknarstjóra og segir öllum frá heimildarmanninum ætti í bezta falli að skrifa í Smartland. Með viðeigandi virðingu fyrir Smartlandi.

Eggerti virðist þó ekki þykja þetta áhugavert, heldur vera til marks um sífellda og óþolandi leka frá rannsakendum hins opinbera. Þar kom líklega upp í honum blaðamaðurinn.

Og kemur þá að þriðja atriðinu, sem er kannske ekki fréttaefni en til umhugsunar og spurninga: Eggert Skúlason hefur núna árum saman verið ráðgjafi og almannatengill. Viðskiptavinir hans hafa ekki verið krakkarnir á kassanum í Hagkaup, heldur annars konar fólk.

Í bók sinni velur hann til umfjöllunar tiltekin fyrirtæki og einstaklinga. Þá er eðlilegt að spyrja: Hafa þessir einstaklingar og/eða fyrirtæki verið viðskiptavinir hans undanfarin misseri? Eru kannske enn?

Eða svo það sé nú bara orðað brútalt: Er bók Eggerts Skúlasonar sponsoreruð með einhverjum hætti? Nú eða áður?

Annað eins hefur gerzt og slíkt dregur ekki endilega úr gildi bókarinnar. En upplýsingin er mikilvæg.

———-

Eggert Skúlason hefur skrifað gagnlega bók, en hún er augljóslega skrifuð fyrir málstað: Það var illa farið með fjármálafólk.

Réttari niðurstaða væri: Það var illa farið með einstaklinga og hugsun um hópsekt réð för í rannsóknarréttarhugarfari.

Aðrar niðurstöður Eggerts og ályktanir bera þó vott um hvernig hann göslast áfram í lítt grundaðri hugsun:

Önnur er samanburður á Íslandi eftir Hrun og Austur-Þýzkalandi, með Stasi og öllu saman (bls. 167). Sú líking er að vísu höfð eftir öðrum, en Eggert tekur undir og gerir enga athugasemd. Það er ekki boðlegt.

Hin er svo galin, að tekur engu tali: Að rannsókn á hrunmálum – þrátt fyrir alla sína ömurlega galla – verði að öðru Guðmundar- og Geirfinnsmáli þegar fram líða stundir (eftirmáli). Ef Eggert veit eitthvað um þau mál veit hann líka, að svona þvæla er heldur ekki boðleg.

Önnur vond tilfinning vaknar eftir lestur bókarinnar:

Í sinni einföldustu mynd er missjón Eggerts Skúlasonar líklega þessi – og þetta yrði Ingvi Hrafn Jónsson ánægður með:

Að komast aftur í laxveiði með Gulla Þór og Binga eins og í gamla daga. Helzt á kostnað Orkuveitunnar.

Og engir blaðamenn til að trufla.

 

 

 

 

 

Flokkun : Menning
1,267