trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 24/07/2014

Lífsreynslusaga: Með rauðan Ópal á geðdeildinni

Eftir Jón Knút ÁsmundssonÓpal, LSH

Djöfull líður tíminn hratt, hugsa ég og horfi á klukku á veggnum fyrir framan mig. Klukkan er sömu gerðar og í kennslustofum. En ég er ekki í kennslustofu. Ég er á biðstofu. Á geðdeild Landspítalans.

Mér finnst eins og ég fái verk í bakið í hvert skipti sem vísirinn mjakast áfram. Eins og hann sé að ýta mér á undan sér. Ég fæ mér rauðan Ópal. Klukkan er hálf þrjú á föstudegi. Mér líður eins og ég sé að missa af einhverju.

Ég stend við einhverskonar afgreiðsluborð og bíð. Bíð, bíð, bíð. Með mér bíður ungur maður á að giska um tvítugt, bíður líka eftir afgreiðslu. Hann er ör og trommar með hnúunum á borðið. Mér heyrist hann vera að leika paradiddlur og hann gæti auðveldlega verið trommari í einhverju altrokkbandi. Grindhoraður með lubba, buxurnar víðar, í röndóttri stuttermaskyrtu. Minnir mig á ungan Ian Brown.

Hlátur berst innanúr herbergi sem ég kemst síðar að er kallað „Vaktin.“ Kona talar hátt. Segir sögu sem virðist vekja lukku hjá tilheyrendum. Mér heyrist hún fjalla um einhvern vandræðagang í Ikea. Trommarinn við hlið mér verður sífellt óþolinmóðari. „Hvað gengur eiginlega á?“ spyr hann og horfir á mig. Ég á engin svör. Hann ber fastar í borðið. Enn kemur enginn og þá snýr hann sér að mér:

„Vinnurðu hérna?“

„Nei.“

„Ertu sjúklingur?“

„Nei.“

„Hvað ertu að gera hérna?“

„Ég er að sækja um vinnu.“

Ég veit ekki hvort hann heyrir svarið en af svip hans að dæma finnst mér það ólíklegt. Hann snýr sér aftur að lokuðu dyrunum og ber enn fastar í borðið. Núna lætur hann fylgja með „Halló!” Hláturinn í herberginu þagnar. Út kemur kona. Af röddinni að merkja er þetta sögumaðurinn. Hún er um fimmtugt, með dökkt krullað hár, skakkar tennur. Ófríð.

„Get ég aðstoðað?“ segir hún fýlulega. Hefur sennilega unnið í sjoppu á unglingsárum. Horfir til mín og brosir: „Ert þú Jón?“

„Já, afsakaðu…“

„Heyrðu, ég er svo agalega tensaður eitthvað,“ grípur drengurinn frammí. Honum virðist líða talsvert verr en mér. Ég dreg mig í hlé og fæ mér rauðan Ópal. Leyfi stráknum að klára sín mál. Mér liggur ekkert á. Í raun.

„Já, það er nú bara eðlilegt,“ segir konan. „Þú sagðir mér að þú værir að ná þér eftir kókaíntúr. Hélstu að það væri svefnlyf?“ Undarleg tímasetning fyrir kaldhæðni, hugsa ég. Hún horfir eitt agnarbrot úr sekúndu til mín og blikkar öðru auganu. Ég blikka líka. Áður en ég veit af. Ekki búinn að vera hér í nema fimm mínútur og strax orðinn þátttakandi í samsæri gegn geðsjúklingi. Efnilegur.

„Já, ég veit. En gæti ég fengið Largactil, sama skammt og í morgun? Mér leið svo miklu betur.“

„Bíddu, ég þarf að tala við hjúkrunarfræðinginn.“ Konan hverfur inní herbergið en kemur svo aftur að vörmu spori. „Því miður en þá getur þú ekki fengið meira af lyfjum. Þú ert þegar búinn að fá meira en þú átt að fá. Má bjóða þér eina Panódíl?“

„Panódíl?! Mér líður svo illa! Ég er að fokkin drepast! Mér finnst eins og hausinn á mér sé að springa! Finndu fokkin púlsinn!“ Hann réttir fram úlnliðinn; dreki og allt.

„Þú skalt reyna að leggja þig. Svefninn læknar allt.“

„Ég get ekki fokkin sofnað, maður! Ég er svo fokkin stressaður!“

„Á ég að lána þér AA-bókina?“

Strákurinn horfir undrandi á konuna. Hefði sennilega hreytt einhverju í hana en í ljósi reynslunnar, býst ég við, veit hann að það borgar sig ekki. Setur frekar upp sinn aumingjalegasta svip og biður um sígarettu.

„Sígarettu? Ég skal nú segja þér það að margar rannsóknir sýna að sígarettur eru, ólíkt því sem margir halda, ekki róandi. Má ekki frekar bjóða þér te?“ Núna þarf hún ekki staðfestingu hjúkrunarfræðings. Þetta segir hún með vísindalegri vissu. Horfir á mig. Ég horfi niður. Þrifin ágæt hérna.

Hann gerir lokatilraun: „Gæti ég fengið að tala við hjúkrunarfræðinginn?“

Konan hikar. „Nei, hún er… hann er, hérna, upptekin. Hún er í símanum… á símafundi. Já, hann er á símafundi.“

„Hvenær er hann búinn?“

„Eftir klukkutíma en þá er vaktin búin.“

Drengurinn gengur í burtu. Hann sest við borð þar sem tveir aðrir ungir menn sitja og ein stelpa, aðeins eldri, sennilega á aldur við mig. Hann lætur móðan mása og notar hendurnar til að leggja áherslu á hvert orð. Hin kinka skilningsrík kolli.

Konan snýr sér nú aftur að mér: „Þú hlýtur að vera Jón?“

Ég kinka kolli.

„Það er beðið eftir þér.“ Hún brosir vingjarnlega og verður næstum því falleg.

———-

Hjúkrunarfræðingurinn er um fimmtugt en lítur út fyrir að vera miklu yngri. Hún er grönn og seinna kemst ég að því að hún hefur verið á danska kúrnum í tvö ár; hennar bjargfasta trú að helsta vandamál eiturlyfjasjúklinga og alkóhólista væri mataræðið. „Þeir borða of mikið af ruslmat sem ruglar efnaskipti líkamans og þar með finna þeir fyrir sljóleika. Þetta ýtir undir löngun í örvandi efni,“ útskýrði hún fyrir okkur starfsfólkinu og stakk uppí sig gulrót. Við hin kinkuðum kolli.

———-

„Skilvirkni er forsenda góðrar geðdeildar.“ Hún snýr ennþá baki í mig.

Röddin mild en ströng og hún getur allt eins verið að ávíta mig. Ég er jú alltof seinn. Sest á stól upp við vegg. Hún á skrifstofustól sem stilltur er á hæstu stöðu. Þegar hún snýr sér við horfir hún niður til mín og ég upp til hennar. Hún ER að skamma mig, hugsa ég. Ég opna munninn:

„Afsakið að ég kem of seint. Ég þurfti að taka strætó. Þetta strætókerfi hérna er nú alveg…“

„Vertu ekkert að afsaka þig. Ég er að skrifa grein í Moggann. Fólk heldur að við séum algerir villimenn og við ætlum að breyta því. Það er hluti af framtíðarsýn okkar í geðheilbrigðisgeiranum – að bæta ímyndina. Mig langaði bara að bera þetta undir þig. Þú ert blaðamaður, er það ekki?“

„Ja, ég var það allavega.“

„Eru menn ekki alltaf blaðamenn?“

„Ö… jú, líklegast.“

„Eins og skátar.“

„Ha?“

„Þú veist. Eitt sinn skáti, ávallt skáti.“ Hún hlær.

„Já, akkúrat.“ Ég hlæ líka. Prýðilegur brandari. Þannig séð.

Hún snýr sér til hliðar og teygir sig í umslag sem liggur á skrifborðinu. Í því er CV-ið mitt sem ég hafði sent fyrir þremur dögum. Fékk svar daginn eftir. Það vantaði mann strax, sagði konan í símanum, rétt eins og í síldinni í gamla daga. Hún opnar umslagið og dregur upp tvö A4-blöð sem hún hefur heftað saman. Þetta er ævisaga mín í hnotskurn. Samkvæmt henni eru helstu afrek mín í lífinu að hafa skrifað þætti um Brian Wilson fyrir Rás 2. Núna var ég á geðdeild. Meikar sens myndu sumir segja.

„Þú hefur litla reynslu, sé ég.“

„Ha?“

„Þú hefur aldrei unnið með geðveiku fólki?“

„Nei, varla.“

„Varla?“

„Nei, ég hef aldrei unnið með geðveiku fólki.“

(Þarna hefði ég getað sagt að ég væri aðstandandi og því ekki fullkomlega vanhæfur. En stundum er betra að geyma trompin.)

„En þú ert með meistaragráðu í fjölmiðlafræði sé ég.“

„U, já. Frá Leicester.“

„Sniðugt. Við erum einmitt með einn doktor í fjölmiðlafræði hérna, einmitt frá Leicester, og annan í stjórnmálafræði. Svo erum við með tvær stúlkur með meistaragráðu í heimspeki eða einhverju svoleiðis. Já, og reyndar einn guðfræðing líka en hann er nú eitthvað… já, eða allavega. Við erum semsagt með fjölmiðlafræðing hérna. Frá Leicester. Sniðugt finnst þér ekki, ha?“

„Nú? Starfsmaður þá?“

„Jájá. Við höfum líka haft fjölmiðlafræðimenntaða sjúklinga. Nokkuð marga reyndar – flestir geðklofar ef ég man rétt. En hvað um það. Menntunin þín hentar ágætlega.“ Hún byrjar að hlæja. Ég hlæ líka en snarhætti þegar hún galopnar augun og starir á mig.

„Segðu mér Jón, reykirðu?“ Þessu fylgir þögn en svo brosir hún. Virðist vera við það að bresta aftur í hlátur.

„Ef þú átt við krakk þá hætti ég því um síðustu áramót. Bindindið stendur enn þó ég geti ekki neitað því að oft langar mig í pípu – sérstaklega ef ég heyri brothljóð.“

Þetta segi ég auðvitað ekki. Ég svara spurningunni neitandi.

„Drekkurðu?“

„Bara eins og gerist og gengur.“ Ég fæ mér meira af rauðum Ópal og býð henni.

„Nei, ég borða ekki sykur. Eins og gengur og gerist? Áttu við að þú sért hófdrykkjumaður?“

„Já, ég fæ mér kannski bjór þegar ég er í góðum félagsskap. Þetta er sykurlaust Ópal sko.“

„Aha. Þú ert eins og ég. Nei, það festist alltaf í tönnunum.“ Hún brosir. „Við höfum haft fíkil í vinnu hérna. Hann var, bíddu við, hvað var hann aftur? Jú, hann var með B.A. í bókmenntafræði. Það endaði með hryllingi án þess að ég ætli að fara nánar útí það.“

Þetta segir hún alltsaman skælbrosandi. Ég veit ekki hvernig ég á að bregðast við allri þessari kátínu. Er ég ekki á geðdeild? Hægt og rólega er hún að taka mig á taugum.

„Ég skil.“

„Þess vegna vildi ég vita hvort þú drykkir.“

„Akkúrat.“

Hún skoðar CV-ið betur. „Ég sé að þú hefur unnið í netagerð?“

„Já, bara í stuttan tíma. Eftir menntaskóla.“

„Aha, en þetta er reynsla engu að síður. Þú þarft að vera jákvæður ef þú ætlar að vinna hérna. Þú mátt ekki tala sjálfan þig niður. Þú verður að sýna gott fordæmi.“ Hún brosir til mín og flettir svo í ævisögunni.

Ég þegi og hugsa til baka til áranna í netagerðinni. Þau voru leiðinleg en það var þá kannski einhver tilgangur með þessu öllu saman.

Ég hrekk upp þegar hún hrópar upp yfir sig:

„Velkominn um borð!“

„Ha?“

„Velkominn um borð! Ég ætla bara að ráða þig á staðnum! Mér líst svo vel á þig! Við siglum af stað klukkan átta í fyrramálið.“ Hún brosir sem aldrei fyrr. „Þér á eftir að líða vel hérna,“ segir hún og réttir út höndina. „Starfsandinn á okkar deild er sá besti í húsinu. Það er búið að mæla hann. Og mundu eftir að taka með þér súdókó. Öll áhöfnin er brjáluð í súdókó!“

 

Höfundur er Austfirðingur

1,577