trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 01/09/2015

Lífsandi

Af allflestum þjóðflutningum sem veraldarsagan greinir frá má draga þessa ályktun: Því betur sem þjóðir taka á móti ókunnugum þeim mun betur gengur sambúðin og báðir njóta góðs af. Víðsýni og menntun beggja vex. Þær þjóðir sem bregðast til varnar gegn innflytjendum með ofbeldi lenda oftar en ekki í innanlandsófriði og upplausn.

Íslamska ríkið

Ná á dögum erum við vitni af miklum þjóðflutningum. Sumir eru tilkomnir vegna stjórnmála og stríðsátaka. Aðrir vegna breytinga í náttúrfari sem gerir stór landssvæðin óbyggileg. Fólk flýr ekki að heiman frá sér fyrr en í fulla hnefana. Þegar naumast er hægt að lifa þar lengur. Þá er það orðið örmagna, klæðalaust og langsoltið.

Það gefur augaleið að landlaust fólk leitar þangað sem það telur sig eiga möguleika á betra lífi.

Ísland er velmegunarland. Þó að við finnum fyrir óstjórn og misskiptingu auðs erum við eigi að síður ríkt samfélag. Og bærilegt mannfélag. Hér býr vel menntuð þjóð og víðsýn. Það orð fer að minnsta kosti af okkur utan landssteina og sjálf berum við það orð út um okkur. Og nú reynir á.

Afríka

Þjóðflutningarnir sem nú standa yfir hafa ekki náð hámarki. Landlausum á eftir að fjölga til muna á næstu árum. Íslendingar eiga því aðeins einn kost góðan. Hann er að minnsta kosti tvíþættur: Að opna landið frekar en hingað til hefur verið gert, og koma betur fram við landlausa en áður.

En með okkur búa einnig þröngsýnir. Og einsýnir. Báðir hópar þrúgaðir af sjálfhverfu og minnimáttarkennd. Það ýlir í þeim af hræðslu við útlendinga, hvað þá innflytjendur. Og það mun þjóta enn frekar í þeim á næstunni. Þess vegna er þörf á því að góðgjarnir menn leiði hjá sér hvissið í þeim, haldi ró sinni, bjóði flóttamenn velkomna í þeim mæli sem við höfum ýtrustu getu til, veitum þeim lífsanda og aðstöðu til mannsæmandi lífs.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,477