trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 28/07/2017

Leikskýrsla númer 2 – Kósýleg blanda af Gísla Marteini og Jóni Hreggviðssyni. Og fegursta málverk heims

Eftir Hallgrím Helgason

Hollendingar hjóla beinir i baki, uppréttir. Það er sjálfsagt skipun frá dulvitund þeirra. Þjóð sem býr undir sjávarborði reynir allavega að hafa höfuðið ofan sjávar og reigir það ósjálfrátt eins hátt og hún getur.

Hjólastígarnir eru hið raunverulega taugakerfi þessa lands (hraðbrautirnar eru æðakerfið) því þeir liggja dýpra, inn í skógana, nær hjartanu. Ég hjóla úr fjölskyldubúðunum i De Kempervennen til Eindhoven til að sækja þar bílaleigubíl, upp á von og óvon hvort hjólið komist fyrir í honum, og líður því létt eins og pápanum í ævintýrinu. Kannski tapa ég bæði hjóli og bíl og kem til baka með nokkur skemmd epli í poka?

Google lofar því að leiðin sé klukkustundarlöng en ég er enginn hollenskur hjólahestur og túrinn tekur mig tvo tíma. Ég fer rólega yfir og tek umhverfið inn, stíg pedalana eins og kósýleg blanda af Gísla Marteini og Jóni Hreggviðssyni, sem fór yfir þetta blauta land fyrir nokkrum öldum síðan, og bíð af mér þrumuskúr undir eikartré og aðra í strætóskýli. Á leiðinni rekst ég á roskið par sem hjólar berfætt, fimmtíu gæsir, fimm kýr, þrjá hesta og einn héra. En einnig eitt fálkaskinn á flugi um High Tech háskólasvæðið í útborg Eindhoven. Það er ævintýri að hjóla og á leiðinni læt ég mig dreyma um að hjóla einn frá Amsterdam til Istanbúl á þremur mánuðum og skrifa um það bók sem myndi heita „Jakobsvegurinn hvað?“

Það sem slær mann hvað mest við Holland er að sjá hvergi neinar bakhliðar, ófrágengnar lóðir eða atvinnusvæði sem mætt hafa afgangi. Hér er allt ein framhlið, baklóðin líka, allt saman vel hannað og snyrtilegt, blómum og runnum skreytt. Jafnvel hverfið í kringum flugvöllinn í Eindhoven, þar sem bílaleigurnar búa, er fagurlega frágengið. Þeir sem búa þröngt fara vel með plássið.

Ég finn Hertz og bílinn og kem hjólinu í hann með því að leggja niður sætin en er samt svolítið eins og Kínverji í Leifsstöð þarna fyrstu mómentin, því bíllinn fyllist skyndilega af útvarpsviðtali við franska DJ-inn David Guetta og ég finn enga leið til að lækka niður í honum, en um leið byrjar GPS konan að hrópa á mig, akkúrat þegar ég er að reyna að toða miðanum í raufina á bílastæðishliðinu og þar sem ég hef lagt aðeins of langt frá því þarf ég að opna hurðina sem veldur því að bíllinn byrjar að veina… Mér tekst þó að ruglast ekki á bremsu og bensíngjöf og enda því ekki út í næstu tjörn.

Við í fjölskyldunni ákváðum semsagt að keyra til baka úr boltaferðinni eftir að hafa þvælst við komuna í allt of mörgum lestum frá Amsterdam til sumarhúsanna í Kempervennen. Lestin til Eindhoven hafði þá stöðvast á miðri leið vegna þess að ólukkuleg sál hafði kastað sér fyrir lestina á undan og starfsmenn þurftu tíma til að þrífa teinana. Við urðum því að taka tveggja lesta krók í gegnum Tilborg. Þar hittum við full hjálpsaman Hollending á lestarpalli sem kynnti sig sem „góðan bankamann, einn af örfáum“ og vildi kenna okkur að fylla út form á netinu sem gerði okkur kleift að fá lestarmiðana endurgreidda, vegna seinkunarinnar. „Þetta tekur ykkur ekki nema svona tvo tíma, og hundrað evrur eru miklir peningar.“ En eftir að hafa haft hann yfir okkur í tíu mínútur fór Íslendingunum að leiðast þófið og vildu nú fúsir greiða aðrar tólf þúsund krónur til að losna við þennan hjálpsama bankamann. Og var okkur þá hugsað til Icesave og munarins á þjóðunum tveimur. Íslendingar myndu aldrei eyða tveimur tímum í að fylla út form á netinu fyrir minna en tvö hundruð evrur.

Þegar við náðum loks til Eindhoven var okkur vísað í strætisvagn sem fór þó aðeins hálfa leið til De Kempervennen. Að auki var ég svo hugulsamur að gleyma innkaupapokanum frá Amsterdam í vagninum, og sá sár á eftir vetrarúlpu frá G-Star, sem ég hafði fundið á sumarútsölu, og nýjum buxum og gallajakka sem dóttirin hafði verslað fyrir ömmupeningana sína. En þegar ég sá vagninn stöðvast á næstu ljósum tók ég stökkið og hljóp. Hann var hinsvegar horfinn þegar ég náði þangað. En eins og hver annar Inspector Clouseau vatt ég mér að næsta bíl sem beið þar á rauðu og bankaði í rúðu, bað bílstjórann kurteislega en þó ákveðinn að „follow that bus!“, ég hefði nefnilega gleymt farangri í honum. Við stýrið sat roskin kona sem brást hin blíðasta við, sagðist ljúf myndu elta bússinn fyrir mig en var alls ekki til í að taka mig með. „That is out of the question,“ sagði hún höst og ók af stað. Eftir stóð ég á gatnamótunum eins og hver annar bandóður kvennahrellir. Ég gafst þó ekki upp heldur reyndi að veifa til mín fimm öðrum bílum, en allir bílstjórarnir veifuðu bara brosandi á móti, og var ég þá orðinn gaga-gaurinn á gatnamótunum.

Ég rölti vonsvikinn til baka en varð þó vonbetri þegar vegfarandi tjáði okkur að vagninn færi hring um úthverfið og kæmi síðan til baka á stoppistöðina. Þarna biðum við því í hollenskri kvöldsól og tók nú að pípa í þvagblöðrum. Allt í einu vorum við orðin eins og túristar á Íslandi, klósettlaus í spreng. Í Hollandi er hinsvegar, sem fyrr segir, hvergi að finna ófrágengin svæði og enginn runni hafður þannig að hann sjáist ekki frá nálægum svölum. Á þeim svölum sátu svo grillvinir á notalegu spjalli og því var eina ráðið að leita á þeirra náðir, hefja samtal um fegurð kvöldsins, spyrja lúmskt um nálægt klósett sem síðan myndi kannski leiða til þess að þurfandi fólki yrði boðið inn að pissa. Eða myndi maður ekki gera það heima, ef anaroksfólk í spreng myndi kalla yfir lóðina manns? Þetta gerðu Hollendingarnir á svölunum hinsvegar ekki, heldur lýstu af mikilli nákvæmni fyrir okkur leiðinni á næsta tojlett. „Það tekur ykkur um það bil sjö og hálfa mínútu að ganga þangað á meðalhraða lægri vikmarka, þar sem þið eruð í spreng, og maður gengur jú hægar þegar maður er í spreng, og aðgangurinn er 0.50 sent. Athugið líka að þeir taka engin kort.“ Hollendingar eru danskari en andskotinn hugsuðum við, svona líka ferkantaðir í sinu grasreykjandi frjálslyndi, og við fórum skömmu síðar að hugsa hlýlega til Sigurjóns digra og allra hinna Icesave snillinganna á hjá Landsbankanum í den. Já, var ekki bara glæsilegt hjá þeim að ræna ævisparnaðinum af þessu nánasarlega klósettvarnarliði? Við hörkuðum af okkur 17 mínútur í viðbót uns leigubíllinn kom. Bílstjórinn var hið mesta blíðalogn, eins og síbrosandi íslenskur afdalabóndi, og náði að skila okkur inn í fjölskylduparadísina rétt fyrir myrkur.

Þannig var fyrsti dagurinn okkar í Hollandsferðinni, eftirminnilegur, en þó var ekki vilji til að endurtaka hann. Þess vegna bílaleigubíll.

Jæja. Leikskýrsla:

Leikurinn gegn Sviss í Doetinchem hófst í mikilli stemmningu. „Ég er kominn heim“ var leikið á réttum tíma og hljómgæðin fyrir bláa herinn voru enn betri en í fyrsta leik, því leikvangurinn var minni og krúttlegri. Gamaldags bárujárnsþök slúttu yfir stúkunum sem skörtuðu engum skjá, hér var allt eins og 1950 og lélegustu boltasækjarar Evrópu hafðir á hliðarlínunum. Einhvernveginn var þetta ofur fagurt, maður var nánast ofan í teignum, þetta var eins og Eurovision á Rósenberg. Leikurinn spilaðist svipað og sá gegn Frökkum, þótt svissneska liðið væri ekki eins sterkt og það franska var það þó sterkara en það íslenska. Við eltum sem fyrr. Rússneski dómarinn vakti athygli fyrir fantaform og vaskleg hlaup, hún virkaði eins og Olga Korbut á sterum, virtist geta farið á handahlaupum um teiginn og sveiflað sér á haus með minnsta fyrirvara, til að skoða betur tæklingarnar. En þegar líða tók á leikinn kom æ betur í ljós að hér var kannski maðkur í mysu. Svissneskt lið og rússneskur dómari… tvær spilltustu þjóðir Evrópu saman í leik… Pútin & óhreinir peningar. En til þess að blása upp dómaraskandal hefði liðið okkar þurft að vera aðeins betra. Freyr var enn að leita að besta liðinu og einhvernveginn vantaði öxulinn í þetta allt saman. Fanndís Friðriksdóttir var sem fyrr yfirburðamanneskja í íslenska liðinu, sú eina sem náði að gera eitthvað óvænt og skemmtilegt.

Gamalkunn tilfinning fylgdi okkur heim í rútunni, vonleysið að vera Íslendingur, nokkuð sem maður var nánast búin að gleyma en ólst upp við alla sína æsku. Jæja, hugsaði maður og litaðist um í rútunni, næsta kynslóð gerir örugglega betur, þessar stelpur verða orðnar sautján og átján ára í næstu keppni…

Fótboltadæturnar okkar hristu vonbrigðin úr sér með því að sitja í rússíbönum allan sunnudaginn og komu vankaðar til baka úr því hollenska tívolíi. Á mánudeginum ókum við svo á umræddum bílaleigubíl að flugvelli nefndum Skiphóli en til að gera gott úr þeim degi ákváðum við að koma við í Den Haag, hjá frænda vorum, Karli Steinari Valssyni, lögreglumanni og tengslafulltrúa Íslands hjá Europol. Þar var ekki komið að tómum kofa og eftir dýrindis löns á heimili hans lóðsaði hann okkur um þessa sjarmerandi borg sem er hálfgildings höfuðborg Hollendinga, hér er bæði þing þeirra og hæstiréttur, sem og aðsetur forsætisráðherrans. Kalli kunni sögu borgarinnar utan að og fór létt yfir listasöguna líka, líkt og hún væri aukafag í lögregluskólanum, sýndi okkur hvar Van Gogh bjó og hvar „faðir hollenska lýðræðisins“ var drepinn af lýðnum og vísaði okkur svo inn í helgidóminn…

Því hér kom óvæntur hátindur Hollandsferðarinnar, lögreglumaðurinn leiddi okkur inn á Mauritshuis, örlitla hallarnefnu við hlið þinghússins. Hún lætur ekki mikið yfir sér en hýsir nú samt sem áður eitt besta listasafn Evrópu. Allt í einu var gamall draumur að rætast, því hér inni hékk eitt af mestu listaverkum heimsins „Útsýn yfir Delft“ eftir Johannes Vermeer.

Allt frá því Björn Th. kynnti þetta málverk fyrir okkur í listasögutímanum í MHÍ sáluga, sem lyft hafði ungum listnema upp úr vetrinum og borginni, hafði ég beðið eftir því að berja verkið augum, en hafði hinsvegar í baráttu lífsins gleymt því hvar það hékk. Hér hafði það þá beðið eftir manni allan tímann! Beðið eftir því að Kalli Vals lærði til lögreglumanns og færi síðan í afbrotafræði í USA, kæmi svo heim og væri 7 ár yfir fíknó, uns hann var ráðinn út til Hollands, þangað sem dóttirin teymdi okkur til að sjá EM í knattspyrnu kvenna… Allan þennan tíma hafði verkið beðið þarna inni, rólegt á eilífðarveggnum, listin er svo fjandi þolinmóð.

Ég gekk upp tröppurnar undir trommuslætti hjartans, framhjá frægum málaradúett þeirra Rubens og Breughel, og framhjá Holbein og Hals og Jakobi mínum Ruisdael, og inn í grænfóðrað herbergi á annarri hæð, tróð mér leið fram með hópnum sem stóð þar og gapti á „Stúlku með perlueyrnalokka“, annað meistaraverk eftir sama málara, og tróð mér lengra, á milli japanskrar konu og ástralskrar fjölskyldu og þarna var hún, „fegursta mynd heimsins“, eins og Marcel Proust hafði orðað það. („Útsýn yfir Delft“ er lykilverk í ofurskáldsögu hans, Leitin að liðnum tíma.) Og engin vonbrigði hér, hún var og er í alvörunni fegursta mynd og málverk heimsins, hjartað tók kipp. Og síðan heilan jarðskjálftakipp þegar augað kom nær, því í 10 cm fjarlægð er verkið ærið groddalegt að sjá, grófar litaklessur og tilviljanakenndar punktaraðir fylla flötinn, maður verður jafn hissa og Van Gogh sjálfur þegar hann sá sama verk fyrir 130 árum síðan: „Þegar maður fer alveg upp að því sést hversu ótrúlegt málverkið er, því þar sér maður allt aðra liti en þá sem sjást í nokkurra feta fjarlægð,“ ritaði hann í bréfi til Theos bróður síns þann 7. nóvember 1885.

Ég tók skrefin afturábak og gekk síðan aftur upp að verkinu, og endurtók þetta nokkrum sinnum, þessi uppgötvun var ákveðið sjokk. Í fjarlægð var myndin sú fegursta í heimi, í nálægð var hún óskapnaður, groddaverk sem bar í sér harðneskju og heift, ískaldan hug. Það þurfti þá þetta til, ljótleikinn var lykillinn að fegurðinni. Snilld Vermeers fólst í því að honum tókst að sameina listrænt innsæi og vísindalega smásjárskoðun á heiminum, ískalda og sundurgreinandi raunhyggju annarsvegar og eldheita fegurðarástríðu hinsvegar. Afleiðingin var fegursta málverk heimsins, ljóðrænt og hljóðlátt raunsæisverk laust við allar allegóríur og öll symból, laust við hverskonar listræn flókindi, listamaðurinn hafði aðeins málað einfalda og heiðarlega „ljósmynd“ af heimabæ sínum, og þegar maður hugsaði til ártalsins 1660 var verkið ennþá magnaðra. Aðeins hundrað árum eftir að Michelangelo deyr verður fyrsta „nútímalistaverkið” til. Því verkið er enn jafn „aktúelt“ og daginn sem það þornaði, manni finnst maður vera á staðnum, maður upplifir þennan vordag árið 1660 líkt og væri maður samtímafugl Vermeers. Dúnmjúk skýin yfir og árflöturinn undir, hér er kominn einn sólarköflóttur hollenskur dagur eins og þeir gerast enn, bærinn Delft er að hálfu í skugga og hálfu baðaður sól og maður veit að sekúndu síðar munu sólarþökin standa í skugga og skuggaþökin í sól; listamaðurinn hefur fangað eitt hárfínt andartak í sögu heimsins og sent inn í eilífðina. Mannkyninu tókst semsagt að varðveita einn af sínum dögum.

Eftir slíka upplifun er erfitt að halda einbeitingunni, jafnvel þótt í næsta herbergi hangi sá frægi Goldfinch, málverk eftir Carel Fabritius frá 1654, sem kveikti samnefnda skáldsögu eftir Donnu Tartt frá árinu 2013 og hefur í kjölfarið fengið heiðurssess í safninu, auk þess sem kaupa má eftirmynd þess fyrir litlar 700 evrur í safnbúðinni. Já, mikill er máttur bókmenntanna. Málverkið af Stúlkunni með perlueyrnalokkana hefur einnig verið „skrifað upp“ og er nú kynnt sem „Móna Lísa norðursins“ en „Girl with a Pearl Earring“ eftir Tracy Chevalier sló í gegn upp úr síðustu aldamótum.

Þetta safn er því stútfullt af sögu og sögum, bókmenntatengdri list. Áður er nefndur þáttur Marcels Proust og á neðri hæð er síðan að finna portrett eftir Hans Holbein sem tengjast verðlaunatvíleik Hilary Mantel um Thomas Cromwell, Wolf Hall og Bring Up the Bodies. Hér mætti því staldra við í tvær vikur enn, ekki síst þar sem hér hanga einnig nokkur af helstu meistaraverkum Rembrandts, þar á meðal síðasta sjálfsmyndin hans, sem og „Anatómíutíminn“ frægi, einnig „Lofsöngur Simeons“ og já já, portrett hans af Hómer.

Maður gengur hálf ringlaður út og vill helst koma sem fyrst aftur. Þetta er svona mitt U2…

1,360