trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 20/07/2017

Leikskýrsla frá Tilburg: Gæsahúð, nýtt landsföðurhlutverk og skyndilömun franskrar sóknarkonu

Hallgrímur Helgason skrifar

Ári eftir EM ævintýrið í Frakklandi í fyrra (sem var skemmtilegasta sumarfrí fjölskyldunnar) erum við mætt til að fylgja stelpunum okkar í fyrstu leikjum þeirra á EM í Hollandi. Dóttirin tók ekki annað í mál. Í Amsterdam kom strax í ljós munurinn á karlakeppni og kvenna-. Það tók okkur nokkurn tíma á sunnudeginum að finna boltabar í borginni sem sýndi opnunarleik Hollands og Noregs. Einn barþjónninn sagði með þjósti: „Nei, við erum ekki með hann, fótbolti kvenna er svo leiðinlegur.“

„Varla eins leiðinlegur og kappakstur karla?“ hugsaði ég og leit á skjáina allt í kringum hann. Loks tókst okkur þó að finna lítinn hollenskan bar sem sýndi leik þeirra eigin kvenþjóðar en þar var ekki nokkur sála að horfa, aðeins við, ég og tvær íslenskar stúlkur. Þögnin var átakanleg þegar Holland skoraði, um strætið heyrðust engin húrrahróp, ólíkt því sem gerist þegar Arjen Robben eða Wesley Sneijder skora fyrir land sitt. Hvar voru risaskjáirnir á torgunum?

Kynjamunurinn birtist svo með ýmsum hætti á leikdegi. Við fylltum rútuna úr fjölskyldugarðinum í Kempervennen og ókum til Tilborgar, foreldrar, systkini, frændsystkini og Valsstúlkur, og vorum mætt í Fan Zone klukkan 17.30. Nokkur hundruð Íslendingar fylltu smátorg í hjarta borgarinnar en við komum þó auga á tvo Frakka í hópnum. Engir Fransmenn virtust ætla að mæta á leikinn, fyrir utan liðsmennina sjálfa… Úr varð því eilítil íslensk útihátíð sem var eins og míníatúr af þjóðfélaginu okkar. Þarna voru stærstu poppstjörnur landans mættar til að skemmta en líka forsætis- og menntamálaráðherrar auk Guðna forseta, sem virtist eiga 1% af börnunum á svæðinu (hann er að vinna með landsföður-hlutverkið á alveg nýjan hátt). Einnig mátti sjá þarna skilanefndarfólk, skattrannsóknarstjóra, verkalýðsforkólfa, forstöðumann Listasafns Íslands, aðalfréttakonu landsins sem og fyrrverandi borgarfulltrúa og fyrrum borgarstjóra. Allir sælir og glaðir á þessari góðu stund, allt svo yndislega íslenskt, og auðvitað allir í bláu landsliðstreyjunni.

Við eitt borðið sat Gummi Ben og vakti þetta furðu okkar — því var maðurinn ekki þegar mættur á völlinn til að lýsa leiknum? Hann útskýrði rólegur fyrir okkur að RÚV væri með þessa keppni og hann væri hér bara sem áhorfandi. En afhverju samdi RÚV ekki við hann í tilefni keppninnar? Þetta var nú bara eins og að sjá Ronaldo í Fan Zone fyrir leik sem Portúgal væri að fara að spila.

Tilborgarar voru hinsvegar teknir í bólinu, þeir höfðu ekki átt von á slíkum fjölda og svipurinn á þjóninum eina sem var allt í einu kominn með hálfan Garðabæinn á sína könnu var óborganlegur. Þegar við höfðum svo beðið í 70 mín. eftir hamborgara nefndum ”Tilburger” var lokaúrræðið að fara hreinlega inn í eldhús. Þar stóðu þrír marrokkódrengir í svita sínum og snerust í hringi um sjálfa sig, á svipinn eins og kyndarar í Síldarverksmiðju ríkisins árið 1933 eftir fjórtán tíma vakt. „Taktu bara þessa tvo,“ sagði einn þeirra bugaður og þerraði svita af enni. Í því bili sem ég bar tilborgarann út í síðdegissólina ruddist klettvaxinn íslenskur faðir fram með röðinni inn á staðinn með tvo mojito drykki og hrópaði reiðilega á barþjónana: „This is just icewater with lime! Just Icewater with lime! Go to the manual! How to make a decent mojito!“

Þessi hvassa setning lifði enn í eyrum okkar þegar skrúðgangan langa frá Fan Zone að Het Koning Willem-leikvanginum hófst: Hundruðir íslenskra fótgönguliða á bláum búningi marseruðu í gegnum ókunn úthverfi í ókunnri evrópskri smáborg: Og þá fékk maður enn og aftur tilfinninguna frá því í fyrra: Að hér værum við stödd í fágætum og mjög svo undarlegum íslenskum herleiðangri, óbreyttir hermenn á leið í bardaga, rétt eins og við værum í liði Napóleons fyrir rúmlega tvö hundruð árum. Að minnsta kosti líktist stemmningin á torginu engu öðru en hertöku þar sem þreyttir hermenn hrópuðu hrokafullir á innfædda í krafti liðsmunar og peninga.

Þetta er alltaf svolítið skrýtið fyrir Íslending: Að vera í meirihluta, að marsera syngjandi um erlend stræti og veifa til íbúanna sem hafa sumir stigið út úr húsum sínum, út úr sínu litla lognværa lífi, og vita í fyrstu ekki hvað gengur hér hjá, en eru svo allt í einu komnir með íslenska fánann í hönd og farnir að dansa með, fagna þessum óvænta innrásarher úr norðrinu bláa og fá í staðinn glymjandi húrrahróp hermanna. Gamlar konur stóðu þarna á tröppum sínum eins og aldraðar mýs sem ekki höfðu komið úr holum sínum í áratug og störðu píreygar á hersinguna.

Þegar hið mjög svo séríslenska og undarlega melankólíska heróp „Áfram Ísla-a-and!“ hljómaði um hollensk strætin sagðist ein göngukvenna eitt sinn hafa verið spurð af frönskum vinum sínum hvers vegna við hrópuðum alltaf: „Afganist-a-an!“ En hér var líka eitt og annað nýtt og skemmtilegt á ferð, ekki síst það að sjá íslenska karlmenn merkta kvenmannsnöfnum á bakinu eins og sjá má á myndinni sem Nína systir tók.

Þetta kemur allt, hægt og rólega.

Á vellinum fyllti íslenski herinn tvær stúkur af fjórum, hinar tvær voru tómar, nema hvað 200 Fransmenn fengu inni í einu horninu. Já, það er auðvitað visst afrek hjá okkur Íslendingum að mæta svona margir en samt voru vonbrigðin talsverð. Afhverju komu ekki fleiri? Það er fátt jafn sorglegt og tómar stúkur á stórleik. Afhverju fylgdu bara 3.000 manns kvennalandsliðinu á meðan 15.000 manns fylgdu karlaliðinu á hvern leik?

Þetta var fyrsti landsleikurinn okkar án þess að tvíburabræðurnir Ási og Gunni stæðu oss við hlið til að sjá um heróp og stemmningu og maður vissi ekki alveg hvernig maður átti að höndla þetta. Þá var Tólfan sjálf aðeins tvímennt, aðeins tveir menn mættir, en sem betur fer báðir trommuleikarar. Semsagt, nánast engin Tólfa og enginn Gunni bróðir, maður varð að gera sitt besta, en leið þá soldið eins og maður væri kallaður út í skyndi til að syngja á Eldborgarsviði þar sem allir söngvarar Íslands væru óvænt komnir með salmonellu-sýkingu. Sem betur fer kom Tólfustjórinn góði og rétti mér myndarlegan fána til að veifa og gat ég þá einbeitt mér að því verki, og var þetta hið besta work-out. En hér var greinilegt að margir voru á sínum fyrsta landsleik og auk þess höfðu engin lög verið samin um stelpurnar okkar (Tólfumenn mega bæta úr því!), þannig að þetta urðu mest algengustu herópin, „Áfram Ísland!“ og „HÚH!“

Vonbrigði kvöldsins voru þau að öllum þessum bláa skara var ekki gefinn kostur á að syngja „Ég er kominn heim“ fyrir leik. Þetta var eitt helsta kikkið fyrir mannskapinn á leikjunum í Frakklandi í fyrra: Að fá að kóröskursyngja sig hásan á stórvöllum Frakka í þeim stórkostlega hljómburði sem þar er boðið upp á. Ekki er ljóst hver klikkaði á þessu grundvallaratriði í Tilburg, vallarstarfsmenn eða KSÍ. En þetta þarf að laga fyrir næsta leik.

Gæsahúð hríslaðist um mannskapinn þegar stelpurnar okkar gengu inn á völlinn, hvítklæddar og glæsilegar. Og það var ljóst frá fyrstu sekúndu að þær voru 100% mótíveraðar, 100% klárar í slaginn, óðu í alla bolta og hlupu um allan völl. Frönsku stelpurnar virtust líka nokkuð skeknar af öllum þessum íslenska hávaða, svona fyrst um sinn. Þær stjórnuðu samt leiknum mestan part, við vorum að sjá svipaðan leik og við sáum á EM í fyrra: Íslendingarnir vel agaðir og kraftmiklir en fengu sjaldan tækifæri til að spila. Stelpunar okkar virtust alltaf hafa 1 sekúndu minni tíma en þær frönsku og voru meira og minna að elta. Líkt og í fyrra (þegar Gylfi fékk varla að taka eina gylfarispu á öllu mótinu) gafst okkur sjaldan tóm til að ná upp spili, til að róa leikinn, til að gefa boltann yfirvegaðan hátt, til að ná þriðju sendingunni, það sást að við vorum að spila við eitt besta lið heims. En stelpurnar héngu í þeim og gott betur, „íslenska geðveikin“ skilaði þeim langt, við áttum klárlega að fá víti út úr þessari bakhrindingu og áttum klárlega ekki að fá á okkur víti út á skyndilömun franskrar sóknarkonu.

Það var samt einkar fallegt að sjá æðruleysið sem skein af leikkonum landsliðsins í kjölfar marksins, þær héldu ótrauðar áfram að berjast, eins og sjómenn nýkomnir úr aflalausum túr á leið í þann næsta, eða eigum við frekar að segja eins og Íslendingar sem takast ótrauðir á við næsta vetur þrátt fyrir að sumarið hafi ekki látið sjá sig.

Kvennalandsliðið var einfaldlega óheppið í þessum leik, eins og karlalandsliðið var aldrei í fyrra, en úr stúkunni að sjá eru þetta svipuð lið með svipaða styrkleika, og stelpurnar eiga því að geta náð langt í þessari keppni. Þær sem heilluðu mest voru þær Fanndís Friðriksdóttir (nr. 23) sem var hreint stórkostleg, ódrepandi og kraftmikil, í tæklingum jafnt sem sprettum, og Ingibjörg Sigurðardóttir (3), varnarköggullinn, sem sömuleiðis var að spila af einhverjum ótrúlegum fítonskrafti. Uppáhaldsleikmaðurinn okkar, hin unga Agla María (17), (sem sameinar heiti konu minnar og dóttur) sýndi líka góða takta. Þá var markvörðurinn Guðbjörg pollþétt. Það var líka gaman að sjá hversu heitur þjálfarinn Freyr var á hliðarlínunni, hversu peppandi og lifandi, og hvernig hann talaði stelpurnar upp sem hann skipti út af. Að leik loknum sló hann svo stelpunum í hring framan við stúkuna og flutti eldræðu sem við heyrðum ekki en virtist innihalda öll réttu orðin.

Það var sárt að sjá tvö hundruð Frakka fagna en þrjú þúsund Íslendinga dæsa, en það var eins og áður og oft, stórþjóðin tekur þetta þrátt fyrir algjört metnaðarleysi og litla gleði, svo ekki sé minnst á hrokann sem þjálfarinn sýndi liði okkar fyrir leik. (Hann gat ekki nefnt einn leikmann íslenska liðsins.) En landinn var snöggur að taka gleði sína og við lukum þessu með einu góðu húh-i.

Kvöldið í Tilburg var fagurt, stofuhiti, logn og fallegt sólarlag að flækjast í flóðljósunum yfir vellinum. Landsliðskonurnar hlupu að stúkunni til móts við ættingja sína og sendu þeim fingurkoss. Þreyttar fjölskyldur röltu í rútur sínar og hugsuðu sitt á heimleið. Það var ansi fróðlegt fyrir mann að fara á fyrsta leik á stórmóti kvenna, en líka dálítið sorglegt, burtséð frá tapi. Þessar stelpur þurfa nefnilega ekki bara að keppa hverjar við aðra heldur líka við allan heiminn, strákana, karlana, sjónvarpsstöðvarnar, fréttamiðlana, almenningsálitið, fordómana og FIFA. Ekki lítið það.

Þetta kemur kannski hægt og rólega. En þetta kemur líka alltof hægt og rólega.

1,548