trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 14/06/2014

Leikir, en ekkert brauð

Tvö andlit Brasilíu

(Mynd af Twitter)

Eftir Ómar Ragnarsson

Rómversku keisararnir höfðu að leiðarljósi aðferðina „brauð og leikir til að viðhalda stöðugleika og völdum.

Herferðir þeirra, svo sem til Egyptalands, voru farnar til að tryggja að nægilega mikið af korni væri til í Róm.

Colosseum og stórbrotnar sýningar þar voru til þess að lýðurinn gæti drepið tímann og gleymt sér við að horfa á spennu og trylling í blóðugum bardagasenum, sem jafngiltu knattspyrnleikjum og bíósýningum nútímans.

Knattspyrnan er dæmi um íþrótt sem virkar eins og segull á fólk af öllum stigum, allt frá götubörnum stórborga þriðja heimsins til ríkustu þjóðfélagshópanna í öflugustu ríkjum heims.

Hún er dæmigerð fyrir „leiki“ rómversku keisaranna og sameinar oft ólíka þjóðfélagshópa í löndum, þar sem ríkir mikil óánægja með sárt misrétti, örbirgð og sult.

En rómversku keisararnir stóðu að því leyti framar ýmsum valdhöfum nútímans að hinum síðarnefndu hefur allt of oft mistekist að tryggja öllum þegnunum ígildi brauðsins hjá Rómverjum.

Og í nútíma þjóðfélagi er það fleira en fæða, sem telst nauðsyn fyrir alla. Heilbrigðisþjónusta, mannsæmandi húsnæði og lágmarks menntun eru líka hluti af því sem svo sárlega vantar í mörgum löndum eins og Brasilíu.

Þegar við bætist að í krafti auðlinda, stærðar og mannfjölda ætti Brasilía að geta staðið mun betur að vígi en raun ber vitni er skiljanlegt að ólga ríki í landinu, jafnvel þótt stærstu leikar ársins fari þar fram.

Einmitt núna voru Hollendingar að komast yfir á móti Spánverjum og þá gleymist margt á meðan. En enginn svangur fátæklingur verður saddur af því.

Ómar Ragnarsson, 13. júní 2014

1,652