trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 27/12/2015

Leiðtogar ljóss og myrkurs

Prédikun flutt við jólanáttsöng í Eskifjarðarkirkju 24. desember og í hátíðarguðsþjónustu í Þingmúlakirkju 25. desember 2015.Menorah

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mér hafa sagt kaldhæðnir … jafnvel kaldlyndir … menn að til að geta verið hamingjusamur þurfi annað hvort að vera heimskur eða siðblindur. Að ástandið í heiminum sé með þeim hætti að til að geta liðið sæmilega vel í sálinni verði maður annað hvort að vera með öllu óafvitandi um þjáningar annarra eða standa fullkomlega á sama um þær.

Af sama meiði er kenning, sem stundum heyrist – jafnan sett fram í hálfkæringi að vísu – að sá sem ekki logi af hugsjónum og réttlætiskennd sem ungmenni sé illa innrættur, en sá sem það gildi um á efri árum sé illa gefinn.

Þeir sem svona tala gefa sér að heimurinn sé ljótur. Hann sé með þeim hætti að einu eðlilegu, heilbrigðu viðbrögðin við því að kynnast honum séu kulnun á sál og hjarta.

Það er erfitt að verjast málflutningi af þessu tagi. Það þarf ekki annað en að lesa blöðin og fylgjast með fréttum til að sjá eitt og annað sem rennir stoðum undir þau viðhorf sem hann lýsir. Morð, hryðjuverk, fátækt, slíkur sægur fólks á flótta undan hernaðarátökum til að bjarga lífi sínu að nánast er ekki hægt annað en að fallast hendur og gefast upp frammi fyrir vánni.

Þetta er líka auðveldur málstaður að verja. Það krefst hvorki hugrekkis, djörfungar né hyggjuvits að vera þessarar skoðunar. Og það gerir engar kröfur um samúð, samkennd og samhjálp að fallast á þetta. Þetta er hin fullkomna afsökun fyrir að brynja sig gagnvart heiminum og neyð náungans. Heimurinn er vondur og vandamál hans svo stór að það litla sem við gætum gert skiptir engu máli í hinu stóra samhengi svo það tekur því ekki að gera neitt.

Sporin hræða

Á þeim tímamótum sem við stöndum núna, árið 2015 er að syngja sitt síðasta og þeir atburðir þess sem standa upp úr eru flóttamannavandi sem á sér enga hliðstæðu á vorum dögum og hryðjuverkavá, er auðvelt að fyllast geig gagnvart því hvert stefnir. Einkum vegna þess að þeir, sem ekki bara fylgjast með fréttum heldur eru einnig þokkalega vel að sér um sögu síðustu aldar eða þar um bil, hafa séð eitthvað í líkingu við þetta áður. Í kjölfar efnahagskreppu kemur úlfúð, tortryggni og sundrung. Veist er að minnihlutahópum. Mennta- og listamenn eru tortryggðir. Þjóðremba og lýðskrum eiga greiða leið að atkvæðum fólks og þannig í valdastöður. Þetta hefur nefnilega gerst áður. Og sporin hræða.

Síðast leiddi ástand af þessu tagi til heimsstyrjaldar þar sem 70 milljónir manna um heim allan létu lífið, hermenn sem óbreyttir borgarar. Af þeim voru sex milljónir drepnar í þar til gerðum sláturhúsum, útrýmingarbúðum hönnuðum og reistum í þeim tilgangi einum að drepa ákveðið fólk, menn, konur og börn, að losa heiminn við heilan kynþátt manna, eins og hann væri ekki annað en rottuplága eða höfuðlúsafaraldur sem vinna þyrfti bug á með öllum ráðum. Það var ekki einu sinni svo gott að mannslíf væri einskis virði, það var beinlínis töluverðrar fyrirhafnar virði að losa heiminn við ákveðin mannslíf. Þau voru minna en einskis virði.

Upphafið var tiltölulega sakleysislegt. Fyrst  var varað við fólki af ákveðnum uppruna og samneyti við það af því að þetta fólk blandaðist ekki öðrum og hélt fast í siði sína og venjur. Þá komu samsæriskenningarnar, fólk af þessum uppruna var allt þátttakendur í svívirðilegri ráðagerð um að knésetja hina göfugu menningu Vesturlanda. Síðan var farið að sniðganga verslanir og fyrirtæki í eigu þessa fólks, bænahúsum þess var lokað og bygging þeirra  bönnuð. Látið var óátalið að fólk neitaði að leigja því íbúðarhúsnæði vegna trúar þess og uppruna. Gott en grunnhyggið fólk hafði einfaldlega verið gert logandi hrætt við þennan hóp samborgara sinna. Ferðafrelsi þeirra var skert, bakgrunnur fólks var kannaður rækilega til að grennslast fyrir um uppruna þess, ætterni og sögu.

Hljómar þetta kunnuglega? Hafið þið rekist á eitthvað í líkingu við þetta í fjölmiðlum á árinu sem senn er liðið? Hafið þið orðið vör við málflutning hjá stjórnmálamönnum sem miðar beinlínis að því að næra og styrkja þessar kenndir, að kynt sé undir ótta og tortryggni í garð þess minnihlutahóps, sem kannski einmitt stendur höllustum fæti í samfélagi okkar fyrir, í von um vinsældir og atkvæði?

Það er erfitt að fylgjast með og standa ekki á sama án þess að finna til uggs gagnvart því hvert stefnir. Það er erfitt að óttast ekki það sem unnið er markvisst að því að hræða okkur á. En enn erfiðara er þó að standa ekki geigur af samfélagi framtíðarinnar, ef það tekst að hræða úr okkur vitið, samkenndina og kærleikann.

Hvernig samfélag viljum við byggja? Hvernig samfélag viljum við skilja eftir handa börnunum okkar?

Sporin hræða.

Leiðtogi lífs og ljóss

Því er ég að hafa orð á þessu hér við þetta tilefni að skilaboð Guðs til manna fyrir munn engla  sinna einmitt á þessari helgu hátíð eru: „Verið óhræddir!“

Hvílík krafa.

Hvaða ómennska sálarstyrk er Guð að fara fram á? Hve gríðarlegs hugrekkis og andlegs þreks krefst það ekki að hlýða þessum boðum? „Verið óhræddir?“ Heldur Guð að við fylgjumst ekki með? Heldur hann að við skiljum ekki hvað er að gerast? Heldur hann að okkur sé sama? Heldur hann kannski að við séum heimsk? Eða siðblind?

Nei. Guð segir nefnilega meira.

Hann gefur okkur ástæðu. Hann boðar okkur mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum.

Okkur er frelsari fæddur.

Hvað þýðir það? Undan hverju hefur hann frelsað okkur?

Jú. Við höfum fengið nýjan leiðtoga. Konungur ljóssins og lífsins er kominn til okkar. Hann er með okkur fullur náðar og sannleika. Hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Ef við göngum í ljósi hans þurfum við ekki að gefa okkur myrkri óttans á vald. Við erum frjáls undan óttanum.

Leiðtogi lífsins og ljóssins fylkti fólki ekki að baki sér með því að vara það hvert við öðru, hræða það hvert á öðru. Nei, hann höfðaði til náungakærleika, samkenndar og réttlætiskenndar. Þeir sem ekki geta aflað sér fylgis öðruvísi en með því að höfða til tortryggni okkar og ótta eru ekki leiðtogar ljóss og lífs, þeir eru leiðtogar myrkurs og dauða.

Konungur lífsins og ljóssins gekk út í opinn dauðann fyrir okkur. Enda var honum meira umhugað um það hvers konar samfélag fylgjendur hans myndu byggja en því hver staða hans persónulega væri í því samfélagi. Leiðtogar myrkurs og dauða taka hvern þann málstað sem þeir telja líklegastan til að afla sér fylgis án nokkurs tillits til afleiðinganna fyrir samfélagið, jafnvel án nokkurs tillits til borðleggjandi staðreynda, í þeim tilgangi að halda sinni háu stöðu í samfélaginu.

Það sem okkur er heilagt

Vitur maður mælti forðum: „Við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan.“ Og kannski er það einmitt kjarni málsins.

Engir hryðjuverkamenn fá tortímt því sem okkur er heilagt; þeim gildum sem við viljum að einkenni samfélag okkar og það stjórnist af; samhygð, góðsemi og náungakærleika. Þeir einu sem geta drepið það sem okkur er heilagt erum við sjálf. Og við gerum það með því að varpa því á róða fyrir tortryggni og vænisýki. Eru það þau gildi sem við viljum að ráði ferðinni? Eru það gildin sem við viljum að einkenni samfélagið sem það bíður barna okkar eða barnabarna að ala sín börn upp í?

Við höfum ástæðu til að vera smeyk. En það þarf ekki mikla skoðun eða yfirlegu til að sjá að það er mun ríkari ástæða til að óttast það sem mun gerast ef við gefum okkur óttanum á vald heldur en það sem verið er að reyna að beina ótta okkar að.

Heimurinn fer nefnilega batnandi. Það er tölfræðileg staðreynd. Í fyrsta sinn í sögunni búa innan við 10% jarðarbúa við sára fátækt eins og hún er skilgreind. Dauðrefsingu hefur ekki verið beitt sjaldnar í 25 ár. Sífellt færri í okkar heimshluta láta lífið af völdum styrjalda eða hryðjuverka. Kannski ekki frá ári til árs, þar eru sveiflur, en frá áratug til áratugs má sjá jákvæða þróun. Þótt árið 2015 hafi verið óvenju slæmt nær mannfall af völdum hryðjuverka í Evrópu samt ekki meðaltali ára áttunda og níunda áratugar síðustu aldar, þótt óvandaðir fjölmiðlar og stjórnmálamenn sjái sér hag í því að mála skrattann á vegginn í sem sterkustum litum í von um smellur, athygli eða atkvæði.

baby-jesus-in-mangerEinföld tölfræði sýnir að á árunum 1970-1990 var hryðjuverkavá mun meiri ógn við öryggi hins almenna Evrópubúa en hún er í dag. Man einhver eftir því að hafa stanslaust verið hræddur á Írska lýðveldishernum eða aðskilnaðarsinnum Baska á þeim tíma? Eða var fjölmiðlum þá meira umhugað um að upplýsa samfélagið en að fá smellur út á hræðsluáróður? Var leiðtogum þá meira umhugað um að byggja upp gott og heilbrigt samfélag en að tryggja stöðu sína í því?

Ógnin mikla

Mesta ógnin við öryggi Evrópu nú um stundir er lýðskrum, þjóðremba og skeytingarleysi almennra borgara. Sagan kennir okkur að slíku fylgir mun víðtækari tortíming og dauði en misstórum og miseinangruðum hópum vopnaðra brjálæðinga. Hryðjuverkamenn myrtu 148 Evrópubúa á árinu. Það er há tala, hærri en í fyrra og ástæðulaust að gera lítið úr henni. Sorg þeirra sem eiga um sárt að binda af þessum völdum er sár og raunveruleg.

Á þessu sama ári drukknuðu á þriðja þúsund Sýrlendinga í Miðjarðarhafinu við að reyna að bjarga lífi sínu frá styrjaldarátökum heima fyrir, á þriðja þúsund manns sem hefði mátt bjarga með því einu að opna dyr fyrir þeim. Þetta er að minnsta kosti fjórtánfalt hærri tala og enn minni ástæða til að gera lítið úr henni. Sorg þeirra sem eiga um sárt að binda af þessum sökum er jafnsár og jafnraunveruleg og hinna.

Meira en milljón Sýrlendingar eru á flótta í Evrópu á meðan meintar kristnar þjóðir álfunnar keppast sumar hverjar við að senda þessi skilaboð til þeirra hátt skýrt: „Komið ekki til mín, þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðnir.“

Því sem okkur er heilagt er vissulega ógnað. En það eru ekki hryðjuverkamenn sem eru að drepa það. Leiðtogar myrkurs og dauða eru unnvörpum að láta okkur gera það sjálf. Og við erum í síauknum mæli að freistast til að trúa þeim og láta það eftir þeim til að bæta öryggi okkar – jafnvel þótt einfaldar eftirgrennslanir leiði í ljós að við höfum aldrei verið öruggari.

En við eigum okkur annan leiðtoga.

Konung lífsins. Ljóssins Guð.

Leiðtoga sem sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh 13.35)

Sjaldan hefur verið mikilvægara að við, sem teljum okkur til lærisveina hans, stöndum staðföst í trúnni – að við sýnum það í verki að við berum raunverulega elsku hvert til annars; að við göngum í ljósi hans sem sagði: „Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig.“ (Matt 25.35)

„Verið óhræddir,“ eru skilaboð dagsins í dag og það skulum við vera.

Ekki af því að við fylgjumst ekki með, ekki af því að við vitum ekki og skiljum ekki hvað er á seyði. Nei, heldur af því að við erum klædd hertygjum ljóssins. Við erum brynjuð, ekki fyrir neyð náungans heldur fyrir eiturörvum myrkaraflanna sem vilja ekki að við berum elsku hvert til annars heldur að okkur standi stuggur hvert af öðru af því að það er það sem þjónar hagsmunum þeirra, valdagræðgi og metorðagirnd.

Við getum verið óhrædd því okkur stendur til boða að vera frjáls undan ógnarafli ótta og myrkurs.

Okkur er frelsari fæddur.

Það eru skilaboð Guðs til manna á þessum degi.

Gleðileg jól.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,570