trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 13/10/2016

Laufblöðin á eirplötu Hindenburgs: Dettifoss

Dettifoss leggur af stað í sína hinstu ferð vestur til Bandaríkjanna á gamlársdegi 1944, með skipalest um Bretlandseyjar, eins og venjulega. Síðasta stopp áhafnarinnar í New York, í nóvember 1944, hafði markast mjög af þeim hörmungaratburði sem orðið hafði tíunda þess mánaðar, þegar Goðafoss var skotinn niður við Garðskaga, með þeim afleiðingum að 24 fórust. Raunar setti alla íslensku þjóðina hljóða við fréttina um afdrif Goðafoss. Minningarguðþjónusta var haldin í Reykjavík 22. nóvember um þá sem fórust en líka úti í New York og áhöfnin á Dettifossi var þar enn, hafði ekki enn siglt heim á leið í þessari næstsíðustu ferð sinni til borgarinnar.dettifoss

Í nýútkominni bók Davíðs Loga Sigurðssonar, Ljósin á Dettifossi – Örlagasaga (Sögur, 2016) segir svo frá athöfninni, með góðfúslegu leyfi útgefanda:

———————

Guðsþjónustan fór fram í lúthersku kirkjunni, sem kennd er við heilagan Pétur, á mótum Lexington Avenue og fimmtugasta og fjórða strætis. Í Midtown, mitt í skarkala Manhattan.

Kirkjan bar þess augljós merki, að heimsstyrjöld geisaði. Mikill ys og þys var þar jafnan, enda höfðu salarkynni hennar undanfarin misseri verið notuð til að bjóða hundruðum bandarískra hermanna gistingu og matarbita á leið þeirra til vígstöðvanna í Evrópu. Nú var kirkjan full og um þrjú hundruð Íslendingar þar samankomnir af hinu hryggilega tilefni.

Guðsþjónustan fór fram á íslensku, séra Oktavíus Þorláksson predikaði en Pétur Sigurgeirsson guðfræðingur var til aðstoðar. Hann var reyndar sonur biskupsins yfir Íslandi og var kannski kunnugt um að faðir hans, herra Sigurgeir Sigurðsson, hafði sjálfur predikað í Sankti Péturs-kirkjunni fyrr á árinu 1944.

Það hljómar ef til vill kaldhæðnislega í ljósi tilefnisins, en Sankti Péturs-kirkjan í Midtown hafði verið byggð af þýskum innflytjendum eftir miðja nítjándu öld og framan af var aðeins messað þar á þýsku. Sú hefð hafði hins vegar verið aflögð að mestu tveimur áratugum fyrr og hefði sannarlega verið illa við hæfi að þessu sinni.

Thor Thors sendiherra og bróðir Ólafs Thors, sem nýlega hafði tekið við embætti forsætisráðherra heima á Íslandi, flutti kveðjuorð við athöfnina í kirkjunni, sem og Jón Guðbrandsson, fulltrúi Eimskipafélagsins í New York. María Markan söng einsöng og fimmtán manna söngkór tók líka þátt í athöfninni. Sá sem öllu ræður var ávarpaður: sungnir voru sálmarnir Á hendur fel þú honum, Allt eins og blómstrið eina og Faðir andanna.

Þeir tóku undir, hver með sínu nefi, skipverjarnir á Dettifossi, sumir með tár á hvarmi. Þetta var sérstök stund, sem þeir vissu að þeir myndu aldrei gleyma.

Áföll af þessum toga gera ekki boð á undan sér en þegar öllu er á botninn hvolft blasti ekkert annað við en einfaldlega halda áfram. Taka aðra ferð, sigla sinn sjó og leggja allt sitt traust á guð almáttugan.

Þannig er sá veruleiki sem þeir mega búa við í þessum hildarleik, íslensku sjómennirnir. Hættan á hafinu er stöðug, enginn getur sagt fyrir um hver mun næst mæta örlögum sínum með voveiflegum hætti. Öllu skiptir að halda ró sinni, trúa því aldrei, að neitt geti komið fyrir mann; halda sig að verki og halda vöku sinni. Og vissulega mun þessu stríði ljúka því að allt tekur enda um síðir. Þannig er það nú, þrátt fyrir allt.

Fyrir skipverjana á Dettifossi sem lögðu upp frá Íslandi í aðra siglingu 31. desember höfðu örlög Goðafoss sérstaka þýðingu fyrir Sigurgeir Svanbergsson kyndara, sem nú er með Dettifossi í fyrsta skipti. Hann hafði nefnilega verið í áhöfn Goðafoss og átti að vera í túrnum þegar skipið varð fyrir árás U-300. Sigurgeir hafði hins vegar tekið sér frí þann túr, eins og menn gerðu endrum og sinnum.

Sigurgeir sat því í landi á meðan félagar hans börðust fyrir lífi sínu og töpuðu – sumir að minnsta kosti.

Það er skrítið hlutskipti að hafa þannig vikið sér undan glóandi byssukúlu. Auðvitað hlaut hann að vera feginn en um leið fullur trega; mennirnir sem dóu voru vinir Sigurgeirs og vinnufélagar. Hann hafði þó ekkert hikað við að fara aftur á sjóinn. Þess vegna var hann nú enn á ný á leiðinni vestur um haf, í nýju skipi, með nýjum félögum.

Þannig eru þeir innréttaðir þessir menn, þessar hetjur Íslands sem leggja líf sitt í hættu dag hvern sem þeir eru á hafinu. Svo skammt er hins vegar liðið frá því að Goðafoss var sökkt að sá atburður setur mjög mark sitt á stemmninguna á Dettifossi nú í upphafi enn einnar ferðarinnar vestur. Menn eru einbeittir í fasi, með hugann við verk sín.

Skipverjum á Dettifossi er ætíð nokkur huggun í því að vita að Dettifoss er gott skip og því hefur allt frá upphafi fylgt gæfa; allt frá því að skipinu var hleypt af stokkunum í júlí 1930 í Fredrikshavn í Danmörku.

Fljótlega eftir að Dettifoss var tekinn í notkun heima á Íslandi, í mars 1932, bjargaði skipshöfnin áhöfn þýsks togara, Lübeck frá Nordenhamn, sem strandað hafði á skeri í miklu illviðri við Herdísarvík, vestur af Selvogsvita. Áhöfn Dettifoss lagði sig þá í mikla hættu en björgunarstarf lukkaðist vel og allir komust heilir og höldnu til hafnar.

Svo frækileg þótti framganga áhafnar Dettifoss að Hindenburg Þýskalandsforseti heiðraði hana sérstaklega fyrir afrekið. Dettifoss sigldi allt þar til styrjöldin braust út aðallega til Þýskalands og í einni af næstu ferðum þess til Hamborgar eftir björgunarafrekið fékk áhöfnin afhenda forláta eirplötu með pompi og pragt. Á eirtöfluna eru skráðar þakkir þýska ríkisins, með undirskrift sjálfs Hindenburg.

Afhending eirplötunnar fór fram 5. febrúar 1933. Fimm dögum fyrr hafði Hindenburg forseti skipað Adolf Hitler kanslara Þýskalands.

Enginn vissi þá, hversu afdrifaríkur sá atburður myndi reynast.

Lífsháski stríðsáranna hefur ekki varpað neinum skugga á minninguna um þetta björgunarafrek þó að óvinurinn nú sé þýskur. Þannig hugsa íslenskir sjómenn ekki. Þeir eru fyrst og fremst þrautgóðir á raunastund og gera ekki mannamun í sjávarháska.

Valdimar Einarsson loftskeytamaður er sá eini skipverjanna sem vann þetta merka björgunarafrek, tæplega tólf árum fyrr, sem enn siglir með Dettifossi. Eirtaflan sjálf blasir við öllum sem inn á borðsal fyrsta farrýmis koma, því að þar hangir hún fyrir ofan innganginn og minnir þá á að skip þetta hefur hlotið blessun æðri máttarvalda.

Nöfn skipverjanna níu sem björguðu þýsku sjómönnunum eru á eirtöflunni frá Hindenburg forseta. Efst á plötunni er síðan trjágrein með níu laufum.

Nafn skipsins stendur á laufunum, einn stafur á hverju laufi: D E T T I F O S S.

1,607