trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/06/2014

„Lagði nánast líf sitt undir.“ Eins konar eftirmæli um Benedikt Árnason leikstjóra

Eftir Braga KristjónssonBenedikt og Bragi

Á sínum tíma sóttu tveir meiriháttar framsóknarmenn um lóð undir tvíbýlishús í nýju hverfi, á Melunum í Reykjavík, nánar tiltekið á Reynimel 23. Þetta voru þeir Árni Benediktsson forstj. Mjólkursamsölunnar og Kristjón Kristjónsson aðalféhirðir SÍS. Snilldar arkitektinn Þórir Baldvinsson teiknaði húsið. Börn Árna og Jónu Jóhannesdóttur voru Benedikt og Þórdís, afrekskona í sundi, sem síðar giftist til Ameríku.

Benedikt var fæddur árið 1931, hann lézt 25. marz s.l. Hann fór í gamla menntaskólann, hvarf ungur inn fyrir fortjöld leiklistargyðjunnar. Hann bauð okkur systkinum eitt sinn á leikrit, þar sem hann var í aðalhlutverki og vorum við bergnumin af þessum atburði. Jóna, móðir Benna, var bróðurdóttir Jóhanns skálds Sigurjónssonar. Mörgum þótti Benni minna á frænda sinn í útliti og jafnvel að innri gerð. Við grislingarnir á neðri hæðinni áttum ætíð yndissamskipti við þetta góða fólk.

Hann hélt til London í Konunglega leiklistarskólann. Oft kom hann heim um jól og voru fagrar konur með í för. Rannsóknir okkar grislinganna leiddu í ljós, að aldrei var sama konan með í för oftar en einu sinni. Lengi var Benedikt aðalleikstjóri Þjóðleikhússins og setti upp fjölmargar erfiðar og merkilegar leiksýningar. Bakkus var oft förunautur hans.

Lítið atvik getur sýnt lund Benna: Hann setti upp gamanleikrit eftir Bjarna Guðmundsson í Sjálfstæðishúsinu og var Nína mín Björk þar í einni af aðalrullunum.Við Nína vorum byrjuð að skjóta okkur saman, en eg var þá búsettur utanbæjar. Nína bað Benna að skyggnast um í húsinu, rétt fyrir leiksýninguna og aðgæta, hvort „kærastinn“ væri þar. Meðal leikenda var Nestor ísl. leikara, Haraldur Björnsson. Benni fór og fann mig. Haraldi líkaði þetta flangs ekki og sagði: „Sussum sveisvei, svona er leikhúsið orðið: leikstjórinn á flandri útí sal fyrir premíere að leita að einhverjum gæja.“

Erna Geirdal kynntist ung Benna og var held eg fyrsta eiginkona hans, en þau skildu fljótlega vegna margvíslegra atvika.

Fyrir allmörgum árum var Benni mjög veikur á spítala, svo sjúkur, að endurlífga þurfti hann. Erna hafði verið búsett erlendis í áratugi, en var stödd hérlendis. Vinkona hennar, Katrín Thors leikkona, fór með henni á spítalann að hitta Benna. Og þar endurlífgaðist þeirra forna ást. Eg hef í áranna rás þekkt margar konur, sem voru djúpt hrifnar af Benedikt og vildu „eiga hann!“

Seinni árin hitti eg Benna ekki oft, en hann kom til okkar Nínu fyrir nokkuð löngu, en þá var hann á leið í áfengismeðferð og eitt sinn sá eg þau á Laugaveginum og var næstum orðinn undir bíl, þegar eg stökk yfir götuna í faðm þeirra.

Benedikt var mjög hæfileikaríkur listamaður, sem lagði nánast líf sitt undir fyrir listina. Okkur sambýlingunum á Reynimel þótti svo vænt um hann og allt hans góða fólk. Hann var breyskur og raungóður maður, sem lifir með okkur, sem elskuðum hann, meðan öndin blaktir í hálsinum.

Bragi Kristjónsson

1,341