trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 29/04/2015

Kveikjum eld

 

Fyrir tveimur áratugum eða svo seldi hægri stjórnin sem þá var við völd í landinu Síldarverksmiðjur ríkisins (SR). Valinn hópur vildarvina stjórnarflokkanna hneppti hnossið. Hvort útborginin var lítil eða engin er ekki alveg ljóst í minni. Hitt er skýrt og klárt að skömmu áður en kom að fyrstu afborgun var greiddur út arður af rekstrinum. Hann var nokkur hundruð þúsundum króna hærri en nam afborguninni sem var á gjalddaga og áttu nýju eigendurnir afgang til lífsnautna. Salan var sum sé engin sala heldur gjafagjörningur með afgangi.

Eldgos

Fyrir fáum vikum seldi bankinn okkar, Landsbankinn, frá sér fyrirtækið Borgun. Valinn hópur vildarvina stjórnarflokkanna keypti. Fyrir lágvirði. Hvernig greitt var fyrir er ekki full ljóst. Hitt er nýlega upplýst að Borgun ætlar að greiða nokkur hundruð miljónir í arð í fyrsta sinn í sögu firmans. Og gerir það örfáum vikum eftir eigendaskipti, kannski rétt fyrir næstu afborgun af kaupunum. Það er ekki vitað. En hitt er augljóst að þetta var naumast sala, miklu skyldara gjafagjörningi. Sagan endurtekur sig. Vinavæðingin lifir.

Og nú er að koma 1 maí. Baráttudagur verklýðsins. Nú rennur hann upp á þeim tíma sem það er sameiginlegt álit þeirra sem leiða hugann að þjóðmálum, að sitjandi ríkisstjórn hafi rekið í stórastrand flest þau mál sem hún hefur komið að vegna hroka, vanþekkingar, vankunnáttu og vinavæðingar.

Ef 1. maí verður ekki veisludagur, heldur baráttudagur, ef 1. maígangan verður ekki skrúðganga að þessu sinni, heldur kröfuganga, ef ræðumenn dagsins tala tæpitungulaust, er næstavíst að kveikna munu þeir eldar sem gera daginn eftirminnilegan, dag sem fæðir af sér róttækt vor, því að fólkið í landinu er þreytt og það er reitt og krefst réttlætis, sanngirni og trúverðugleika sem fullreynt er að það fær ekki úr hendi ríkisstjórnar gjafagjörninganna.

 

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,251