trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 15/12/2017

Kíll í milli

Í þær vikur sem Herðubreið var sambandslaus við heiminn var mynduð ríkisstjórn í landinu. Áður en að því kom voru mörg litbrigði á pólitíska himninum; forboðar um stjórnir sem komu og fóru þar til eftir sat hinn óvænti blær; ríkisstjórn B, D & Vg.  

“Og hvernig lýst þér á’ana?” spyr hann mig ítrekað, ritstjóri Herðubreiðar og ég sé fyrir mér glottið á honum og ímynda mér að það stafi af því að hann sé nokkuð viss um að ég sé aldeilis snarvitlaus yfir því að Vg skuli vera komið á flot með sameinuðu framsóknaríhaldi landsins og margar liðleskjur undir árum.

Ég ætla ekki að svara ritstjóranum berum orðum. Hann finnur útúr þessu þegar hann hefur lesið í gegn um það sem hér  fer á eftir:

Undangengnar vikur hef ég legið í bókum. Af þeim nefni ég þessar:

Claessen, saga fjármálamanns eftir Guðmund Magnússon, Hinir ósnertanlegu, eftir ritastjóra Herðubreiðar, Karl Th. Birgisson, Sá fær allt sem bíða kann, ævisaga Sveins R Eyjólfssonar eftir Silju Aðalsteinsdóttur og í liði forsætisráðherrans eða ekki? eftir Björn Jón Bragason. Þetta  eru prýðis bækur. Allar. Það er margt fallegt falið í þeim. Flestum. Og þær eiga sitthvað sameiginlegt. Meðal annars sannleikann. Að minnsta kosti leitina að honum. Og óhugnaðinn, því þær eru fullar af frásögnum af undirmálum, baktjaldamakki, lygaburði, loforðum og svikum. Þar er að finna óhugnanlegar lýsingar á hegðun gróðamanna og því morkna samfélagi sem þeir hafa búið okkur. Sannleiki þessara bók er slíkur, að jafnvel þeir sem hafa talið sig vita, verða á stundum rasandi við lesturinn. Við þeim hlýtur að blasa hið augljósa: Það verður að stokka upp valdakerfið í landinu svo fljótt sem auðið er og rýna í það með lögskýringum hvernig einstaka burgeisar eignuðust það sem þeir telja sig eiga.

Og nú er rétt að spyrja hvort framsóknaríhaldið sé líklegt til þess að gera þetta.  Ef litið er til fortíðar, og bókanna fjögurra, og síðan beitt hæfilegri forrýni getur svarið ekki orðið annað en nei. Afdráttarlaust nei.

Og þá er komið að hinu óvænta. Því sem oftar en ekki gefur lífinu lit. Ný stjórn hefur tekið við völdum. Í henni situr að vísu framsóknaríhaldið. En. Það er fleygað af Vg. Það er kíll í milli. Þetta er óvenjulegt. Við slíkar aðstæður getur ýmislegt gerst. Óvænt. Nokkuð sem vekur eftirvæntingu. Það er harla gott.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,501