trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 23/12/2017

Jólasaga Herðubreiðar: Örlög Hurðaskellis

Eftir Aðalstein Leifsson

Um haustið þegar ég var sjö ára fluttum við úr bæjaríbúð á Bústaðavegi í raðhús í byggingu í Fellahverfi í Breiðholtinu. Á húsinu voru engar hurðir heldur bara gardínur fyrir hurðargötunum og áður en farið var á klósettið var nauðsynlegt að láta alla í húsinu vita svo að enginn myndi ryðjast inn á versta tíma. Í stofunni var stór hrúga af svörtum sandi þar sem pabbi átti eftir að pússa suma veggi hússins og í einum stofuglugga var einangrunarplast sem heyrðist hátt í þegar það var hvasst.

Mér fannst þetta ekkert mál. Það var gaman að leika sér með bíla í sandinum og hurðir voru að mínu mati algerlega óþarfar.

Ég var samt ósáttur við flutningana. Ég gat ekki lengur leikið mér við besta vin minn sem bjó núna allt of langt í burtu í Hæðargarðinum. Þar fyrir utan var ekki keypt Kókópöffs í Breiðholtinu vegna þess að mamma átti aldrei peninga. Verst við Breiðholtið voru samt stóru strákarnir sem lömdu okkur minni strákana. Einn þeirra var algerlega klikkaður og gekk um með spýtu til að lúskra á öðrum krökkum. Stóri bróðir minn varaði mig við því að ganga einn framhjá blokkinni hans á leiðinni í og úr skólanum. Bróðir minn var ellefu ára og algerlega óhræddur. Það var hrikalega gott að eiga stóran bróður. Hann passaði mig fyrir klikkaða stráknum og öðrum árásarmönnum og allir vissu að ef þeir lumbruðu á mér myndi hann lúskra á þeim. Hann hafði líka takmarkalausa þolinmæði gagnvart litla bróður. Ég fékk að vera með honum í heimsóknum til vina hans, hann bjó til mat handa okkur þegar við vorum einir heima og hann hvorki stríddi mér né skammaði mig.

Mamma og pabbi gáfu mér lítinn högna rétt fyrir fyrstu jólin í Fellunum vegna þess að mig hafði alltaf langað í kött og ég var einmana án besta vinar míns. Ég nefndi hann Hurðaskelli þar sem ég fékk hann sama dag og Hurðaskellir setti gjöf í skóinn hjá mér. Hurðaskellir var hrikalega fjörugur köttur og við lékum okkur endalaust. Ég kastaði bolta í gardínurnar sem héngu fyrir hurðagötunum og Hurðaskellir stökk á boltann og greip hann með öllum fótunum. Hann lenti síðan með látum á rassinum þar sem allir fæturnir voru fráteknir við að halda boltanum. Engu að síður fannst honum þetta frábær leikur og stökk á „gardínuhurðina“ aftur og aftur.

Jólin sem Hurðaskellir kom voru stórkostlega skemmtileg. Hann var besta jólagjöf sem hægt var að hugsa sér. Á aðfangadag fékk hann rækjur og rjóma og við grínuðumst með að það væri ekki létt að vera Hurðaskellir í hurðalausu húsi. Hurðaskellir kúrði uppi í rúmi hjá mér þegar hann kærði sig um og ég vaknaði oft með hann við hliðina á mér. Annað sem gerði jólin sérstök var að frænka okkar bræðra kom frá útlöndum með útlenskt nammi sem við bróðir minn hámuðum í okkar þangað til ég kastaði upp á gólfið og hann í kjölfarið. Í lok janúar fjölgaði enn meira í fjölskyldunni þegar litla systir mín fæddist. Pabbi vakti mig hrikalega glaður klukkan sex um morgun til að segja mér að ég væri búinn að eignast litla systur. Mér fannst óþarfi að vekja mann út af því, ég hefði hvort sem er heyrt af því seinna þegar ég fengi mér morgunmat.

Þetta sumar var ég sendur í sveit í fyrsta skipti á bæ í Ísafjarðardjúpi. Ég hafði dálitla heimþrá fyrstu vikurnar en ég beit á jaxlinn og kyngdi tárunum þegar ég talaði við mömmu í síma eftir að ég kom vestur. Sveitasíminn var þannig gerður að allir í sveitinni gátu hlustað á símtalið og ég vildi ekki vera grenjuskjóða sem vældi í mömmu sinni undan heimþrá. Þess vegna hafði ég það „bara fínt“ og sagði bara „allt gott“ og sagði henni frá köttunum Brandi og Snældu sem oft sváfu inni hjá mér og hundinum Káti sem fylgdi mér hvert sem ég fór.

Það varð smám saman meira gaman í sveitinni eftir því sem ég vandist vistinni. Mér fannst skemmtilegt að sækja kýrnar og spjalla við þær, ég kenndi Káti að hoppa yfir hindranir og það voru stelpur á næstu bæjum sem ég gat leikið við þegar þær voru ekki uppteknar við „innistörf“. Ég hafði verið þrjár vikur í sveitinni þegar heimasætan sem var 18 ára kom heim úr skóla á Ísafirði. Hún heilsaði mér hlýlega en setti í brýrnar þegar hún talaði við foreldra sína. Síðan tók hún til við að sjóða vatn í risastórum potti á eldavélinni og setti vatnið í baðkarið í kjallaranum – og mig ofan í baðið. Hún spurði mig blíðlega hvar taskan mín væri og hvort ég væri ekki örugglega með tannbursta? Eftir að hún hafði skrúbbað mig vel í baðinu var ég settur í hrein föt, hárið greitt og tennurnar burstaðar.

Heimasætan var skírð í höfuðið á mömmu bóndans sem hafði lítið herbergi og sér eldhús í húsinu. Ég kallaði hana alltaf ömmu og við vorum vinir. Þegar ég fór í taugarnar á húsmóðurinni á heimilinu og var skammaður eða fékk ekki að borða gat ég alltaf kíkt til ömmu sem gaf mér kanilsnúða og bað mig að sitja hjá sér og spjalla. Hún fæddist í torfbænum sem var í túninu fyrir neðan bæinn og þar hafði hún líka fætt son sinn, sem var bóndinn á bænum. Ég var oft með bóndanum allan daginn að girða eða sinna heyskap eða skepnunum. Ég man ekki eftir einu einasta samtali við bóndann öll sumrin sem ég var á Vestfjörðum en hann var alltaf góður við mig og ég gat spjallað nóg fyrir okkur báða.

Ég var kallaður í símann í sveitinni stuttu áður en ég átti að fara heim og mamma vildi tala við mig. Hún spurði mig hvort ég hefði það ekki bara fínt og hvort ég hefði fengið pakkann í pósti á afmælisdaginn minn. Ég sagði henni að það væri bara gaman hjá mér og að ég hefði fengið pakkann. Mamma sagði mér að ég þyrfti að vera búinn undir það að Hurðaskellir væri ekki lengur hjá okkur þegar ég kæmi heim. Hann hefði orðið veikur og síðan dáið. Ég barðist við gráta ekki en gat ekki haldið aftur af tárunum. Ég reyndi að láta það ekki heyrast í röddinni þegar ég spurði hvort hann hafi ekki getað farið til dýralæknis en það hefur örugglega verið skjálfti í röddinni því mér fannst fólkið á næstu bæjum horfa einkennilega á mig næstu daga. Þau vissu örugglega að ég hafi verið að væla. Ég spurði bóndann um kvöldið hvort ég mætti ekki fá einn af kettlingunum sem Snælda hefði nýlega eignast og hann kinkaði kolli. Viku seinna þegar ég var að fara heim og ætlaði að sækja kettlinginn sagði húsmóðirin á heimilinu að bóndinn hefði gleymt því að ég ætti að fá einn kettlinganna og því ekki tekið hann frá þegar hann drekkti öllum kettlingunum í poka í læknum. Amma gaf mér snúða og mjólk seinna um daginn og ruggaði mér í fanginu.

Þegar ég kom til Reykjavíkur og pabbi sótti mig á nýjum, bláum bíl keyrðum við ekki upp í Breiðholt heldur í blokk í Fossvogi. Við vorum búin að flytja og bjuggum núna á annarri hæð til vinstri. Þetta voru frábærar fréttir því Fossvogur er rétt hjá Bústaðavegi þar sem besti vinur minn bjó. Ég henti frá mér dótinu mínu, faðmaði mömmu og stóra bróður minn og hljóp af stað til vinar míns. Ég mætti honum við ljósin á Bústaðaveginum. Hann var á leiðinni að spyrja eftir mér eins og hann hafði gert á hverjum degi frá því að hann frétti að við værum flutt í hverfið, þó að mamma hefði sagt honum að ég kæmi ekki úr sveitinni fyrr en seinna. Hann tók með sér plasthermenn til að gefa mér. Ég sagði honum að ég væri hrikalega reiður út í mömmu og pabba. Ég vissi nefnilega að kettir væru ekki leyfðir í blokk. Hurðaskellir hefði þess vegna ekki geta flutt með okkur úr raðhúsinu í blokkina. Mamma og pabbi hefðu örugglega gefið hann eða látið drepa hann til þess að geta flutt í blokkina. Í kvöldmatnum sagði ég mömmu og pabba að ég vissi að kettir mættu ekki búa í blokk. Þau sögðu ekkert. Ég sagði líka að þau hefðu örugglega gefið Hurðaskelli og ég vildi vita hvar hann væri svo að ég gæti heimsótt hann. Ekkert svar. Eða kannski þau hefðu bara látið drepa hann svo við gætum flutt í helvítis blokkina. Þau sögðu ekki neitt. Ég sagði þá að ég væri rosalega reiður við þau og þau hefðu örugglega líka komið í veg fyrir að ég fengi kettling úr sveitinni og þess vegna hefði Valdi drekkt kettlingnum mínum í poka í læknum. Pabbi sagði að ég ætti ekki að vera með svona rugl og að hann hefði ekkert drepið neinn kött. Kötturinnn hafi verið veikur og það hafi ekkert verið hægt að gera. Ég fór inn í herbergi og skellti hurðinni á eftir mér. Á þeim tíma fannst mér gott að hafa hurð til að geta skellt henni. Fast.

Ég fór í átta ára bekk í Fossvogsskóla. Fyrstu vikuna var mér fylgt til yfirkennara og hún spurði mig vingjarnlega hvort ég kynni eitthvað að lesa. Síðan rétti hún mér bók og bað mig að lesa fyrstu blaðsíðuna. Ég renndi í gegnum hana og lagði hana síðan frá mér en hún og kennarinn horfðust alvarlegar í augu. Lærðir þú ekki stafina í Fellaskóla? Jú, jú sagði ég. Ég get alveg lesið. Viltu þá ekki lesa aðeins fyrir okkur? Viltu að ég lesi upphátt? Ég las sko í hljóði fyrst, sagði ég. Síðan las ég fyrir þær fyrstu tvær blaðsíðurnar og fékk að fara aftur í bekkinn minn. Mér leið frábærlega vel í Fossvogsskóla og gat leikið við besta vin minn suma eftirmiðdaga og um helgar, en hann var í Breiðagerðisskóla.

Fyrsta desember í Fossvoginum snjóaði mikið og það var mjög kalt. Einhver sprautaði vatni úr garðslöngu ofan á flötu þökin á bílskúrunum við raðhús rétt hjá blokkinni okkar og ég fór nokkrum sinnum með bróður mínum á skauta. Við renndum okkur líka á sleða eftir göngustígum milli húsanna í dalnum. Kvöldið sem ég setti skóinn minn út í glugga var snjór yfir öllu og pabbi hafði hengt upp seríu með stórum rauðum, grænum og bláum ljósaperum á svalahandriðið og þær vörpuðu litríku ljósi á gluggann minn. Ég var alveg með á hreinu hvenær hver og einn jólasveinn liti við. Fyrstur er Stekkjarstaur 12. desember, síðan kemur Giljagaur, svo Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill og Askasleikir áður en Hurðaskellir lítur við 18. desember. Kertnasníkir er síðastur á aðfangadag.

Ég fékk grænan matsboxbíl í skóinn frá Stekkjarstaur og plakat með mynd af Evertonliðinu frá Giljagaur, alveg eins og ég hafði óskað mér. Pabbi og bróðir minn héldu báðir með Manchester United og besti vinur minn með Arsenal en mér fannst Everton í flottustu búningunum og svo voru þeir líka höfuðandstæðingar Liverpool sem hrekkjusvínið í númer 9 dýrkaði. Hann var alltaf í Liverpool treyju og níddist á yngri krökkunum. Bróðir minn varð tólf ára um haustið og fékk þess vegna ekkert í skóinn.

Ég var alltaf látinn fara að sofa klukkan átta og varð þess vegna aldrei var við jólasveinana þegar þeir komu. Ekki fyrr en Hurðaskellir mætti. Nóttina sem Hurðaskellir kom vaknaði ég við hrikaleg læti. Pabbi var kominn fram á nærbuxunum og hrópaði hvað væri eiginlega um að vera. Ég heyrði líka í mömmu þar sem hún sagði að það hlyti einhver að hafa brotist inn í íbúðina. Það er einhver hérna, æpti hún aftur og aftur. Litla systir mín grét. Ég kom fram úr herberginu mínu og í sömu mund skelltist aftur baðherbergishurðin með miklum látum. Pabbi rauk framhjá mér og inn á baðherbergi og ég fór á eftir honum. Þar inni var enginn en einhver hafði skrúfað frá heita vatninu sem fór af fullum krafti ofan í baðkarið. Það steig gufa upp úr baðkarinu og lagðist á spegilinn fyrir ofan vaskinn. Pabbi skrúfaði fyrir og þá heyrðum við útidyrahurðina skellast aftur. Pabbi rauk fram og hljóp niður stigann. Við mamma biðum frammi á gangi eftir að pabbi kæmi aftur. Hann kom upp stigann allur úfinn og hristi höfuðið þegar mamma spurði hvort hann hafi séð nokkurn. Hurðin inn til bróður míns var lokuð þannig að hann hefur sofið í gegnum öll lætin, enda að verða unglingur.

Mamma sagði mér að fara nú aftur að sofa. Ég fór inn í herbergið mitt og áður en ég lagðist á koddann kíkti ég hvort ég væri nokkuð búinn að fá í skóinn. Í takkaskónum mínum í glugganum fann ég ljósbláu hálsólina hans Hurðaskellis. Hún var með glimmerkanti og kringlóttri plötu sem á stóð nafnið hans og gamla símanúmerið sem við höfðum haft í Fellunum. Ég setti hana um vinstri úlnliðinn og hún passaði alveg ef ég hafði hana í þrengsta gatinu.

Aðalsteinn Leifsson, annan í aðventu 2017

1,314