Jóhanna er kannski hætt, en þingið á eftir að klára síðasta málið hennar
Hvað eiga lögmenn, blaðamenn, endurskoðendur, kennarar, leiðsögumenn, félagsráðgjafar, dýralæknar, arkitektar, jarðfræðingar, Eimskip, Landsnet, Vegagerðin og íþróttafélagið Fram sameiginlegt?
Svar: Að lúta siðareglum sem viðkomandi hafa sett sér, sjálfviljug og án nokkurra fyrirmæla eða tilmæla.
Þetta kom fram í úttekt Björns Þórs Sigbjörnssonar í útvarpsþættinum Samfélagið á Rás eitt í gær.
Tilefnið er þingsályktunartillaga sem forsætisnefnd alþingis og formenn þingflokka hafa lagt fram á þing um siðareglur fyrir þingmenn.
Alþingismenn lúta nefnilega engum skráðum siðareglum. Það gerir þó Hestaíþróttadómarafélag Íslands.
Í yfirferð sinni rekur Björn Þór sögu tilrauna til þess að láta íslenska stjórnmálamenn lúta siðareglum sem þykja bæði sjálfsagðar og nauðsynlegar í öllum nágrannalöndum okkar.
Í slíkum málflutningi fór Jóhanna Sigurðardóttir fremst í flokki um aldamótin, en tillögur hennar komust ýmist ekki úr þingnefnd eða ekki einu sinni á dagskrá.
Það var ekki fyrr en ríkisstjórn undir forystu hennar tók við völdum að skriður komst á setningu siðareglna, fyrst með slíkum reglum fyrir ráðherra og starfsfólk stjórnarráðsins, lögum um skráningu hagsmunatengsla þingmanna, svo og lagafyrirmælum um að setja skyldi alþingismönnum siðareglur.
Það er í samræmi við þetta síðastnefnda sem forsætisnefnd og formenn þingflokka flytja tillögu sína. Það er raunar gert í annað sinn. Í fyrra skiptið komst málið ekki á dagskrá.
Herðubreið mælir með þessari fróðlegu úttekt Björns Þórs sem hægt er að hlusta á í lok þáttarins hér.
- Örlítil greining á ummælum formanns stjórnmálaflokks - 04/04/2021
- Offramboð á ónothæfum röksemdum - 14/03/2021
- Innan við múrvegginn - 15/01/2021