trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 04/12/2016

Jarm og jól: Það sem blessaðar skjáturnar geta kennt okkur um aðventuna

Eftir séra Bolla Pétur Bollason í Laufási

Opna tunnu rólega, hljóðlega.
Höndin læðist ofan í.
Graskögglar fylla lófa sem hverfur skjótt í úlpuvasann.
Vandlega, hljóðlega, rólega.
Sama hversu gætilega ég ber mig að,
koma þær askvaðandi, jarmandi, með augun þanin,
rétt eins og síðasta kvöldmáltíðin hafi verið falin. (BPB)kindur-a-garda

Hér skrifar sveitaprestur og frístundabóndi sem hefur verið með kindur í sex ár. Álit mitt á kindum hefur heldur vaxið með árunum. Þær eru ekki bara næmar eins og upphafslínur þessara aðventuorða bera með sér, þær eru sömuleiðis stoltar, vilja gjarnan fara sínar eigin leiðir en þó skal ekki horft framhjá hjarðhegðun þeirra sem er þeim eðlislæg.

Við gegningar tylli ég oft annarri löppinni uppi á garðabandið í útihúsum og velti þessum dýrum nánar fyrir mér sem hafa gengið með mannfólkinu frá landnámi. Náið sambýli manns og sauðkindar í aldaraðir hefur ekki síður mótað manninn og vafalaust þjóðarsálina meira en við mörg höldum. Að því ógleymdu að við erum flest, ef ekki öll, af bændafólki komin.

Ég tel að það sé alls ekki vanhugsað og engin óvirðing í því fólgin að líkja þjóðarsálinni dálítið við íslensku sauðkindina og atferli hennar. Á aðventunni þegar okkur er ætlað að kyrra hugann og ígrunda tilveruna meira en vanalega, hvort sem það er sjálfur kristindómurinn ellegar pólitíkin eða bara eitthvað allt annað, þá leitar hugur minn oftar en ekki til þeirra stunda sem ég er með aðra löppina uppi á garðabandinu.

Ég staldra reyndar aldrei lengi við þar áður en ég gef, því á þeirri stundu er jarmað í kór svo hátt að ég heyri vart í eigin hugsunum, kórinn rekur mig áfram.

Kórfélagar eiga það líka til að stangast á í óþolinmæði sinni, eftirvæntingin er þrúgandi, stundum blóðug, spennan á við stjórnarmyndunarviðræður.

Þegar gengið er um garða með tugguna bíður íslenska sauðkindin ofsaspennt og er farin að kjamsa áður en heyið snertir jötu. Það er alltaf eins og hún sé að sjá þennan mat í fyrsta sinn, eins og hún hafi aldrei smakkað fyrr á þeirri máltíð sem í vændum er.

Um leið og búið er að gefa fellur allt í dúnalogn, himneskur friður færist yfir, aðeins ber á því að ærnar skipti um staði við garðann, því einhverjar þeirra halda að grasið sé betra hinum megin, að öðru leyti er kyrrðin allsráðandi, visst spennufall og ég get tyllt löppinni aftur á garðabandið og notið þess að hlusta á þær éta, notið þess að horfa yfir pollrólegan hópinn og velt betur fyrir mér næstu skrefum eins og sagt er í pólitíkinni. Aðeins eitt gæti rofið þessa kyrrð, það er ef hönd snertir fóðurtunnu.

Atferlið og stemningin í fjárhúsunum minnir óneitanlega á undanfara jóla, á aðventuna og svo þegar jólin ganga í garð. Frá því ég var að alast upp, og er ég ekki enn orðinn miðaldra, hefur aðventan öðlast einhvern veginn stærra og efnismeira hlutverk fyrir utan boðskapinn sjálfan.

Ég minnist þess ekki að auglýstir hafi verið margir tónleikar á aðventu æskuára minna, jólahlaðborðin fóru einkum fram í Danaveldi, og eins les ég það í dagbókum sem ég hélt á unglingsárum að aðventan gekk mikið til út á það fyrir utan skólagöngu að flokka kartöflur, leika við hundinn og bíða eftir að eldri systkini kæmu heim í jólafrí úr framhaldsskóla. Svo birtust þau og jólin og allt sannarlega mikil upplifun, þetta var kærkomin tilbreyting sem veitti fró og hvíld frá amstri dagana.

Nútímaaðventan býður upp á svo ótrúlegt úrval af afþreyingu, tónleika í hverri höll, jólahlaðborð í hverjum sal, jólaball við sérhvert tré, jólasveina á hverju torgi, aðfangadagskvöld á hverjum degi.

Hún býður jafnvel upp á fullorðið fólk að stangast á, stjórnarmyndunarviðræður á hverju horni, flokka að tala saman, fólk á hlaupum í innkaupum, fólk að tala, fólk í dvala og fólk sem ríkið þarf að ala. Og gölluð eggjabú, týndar rjúpnaskyttur, aðstæður flóttafólks, skólaheimsóknir í kirkjur, skiptar skoðanir um uppruna jóla og lengi má telja.

Öll þessi stemning vissrar ringulreiðar og spennu minnir einhvern veginn á samfélagið í krónni í fjárhúsunum rétt fyrir gjöf og hvorttveggja felur í sér í grunninn bæði sálrænt og líkamlegt hungur og skort. Jafnvel þótt fólk hafi allt til alls er svo margt sem framkallar hungur og skort annað en matarleysi, það er hægt að telja til réttlæti, sannleika, frið, meiri kærleika, meira hrós, meiri virðingu. Svo er gefið og allt fellur í dúnalogn og jólin ganga í garð.

sera-bolli-petur-bollason-i-laufasiJólin gegna kannski ekki sama tilbreytingahlutverki og áður og hvíld í því samhengi, enda svo margt í boði á aðventunni, heldur bjóða þau fremur upp á hvíld og frið frá þeirri spennu og oft átökum sem hafa átt sér stað fyrir jól bæði í umræðu og ýmsum atburðarásum vegna þess að boðskapur hinna kristnu jóla kennir þau gildi sem okkur finnst oft og tíðum vanta upp á í samfélaginu okkar, hvort sem það snýr að ójöfnuði eða hvernig við umgöngumst fólk í neyð.

Að því leytinu til svalar sagan um barnið fátæka og allslausa í jötu í Betlehem ákveðnu hungri sem við tökumst oftar en ekki á við í aðdraganda jóla og kallast einkennilega oft á við Betlehemsfrásögnina.

En þrátt fyrir komu jólanna er ég ekki að segja að það verði þá friður á öllum vígstöðvum, en á jólum upplifi ég það samt að einhvern veginn dregur úr vissri spennu, fólk stangast síður á, kirkjurnar fyllast frekar af fólki, talað er um jólabarnið  sem laðar til sín fólk úr öllum flokkum, það er viss lotning þegar komið er að jötunni sem nærir og friðar eins og grasið kindurnar, barnið sem sameinar, barnið sem kallar fram kærleiksþel og gefur því öllu vængi.

Og þrátt fyrir að þetta barn sé ekki miðpunktur í jólahaldi allra að þá er það samt þarna og gerir það að verkum að við skynjum skýrar jólafriðinn enda gætir áhrifa barnsins í svo mörgu sem við hlýðum á og tökum inn, samanber allt það orðasafn sem sungið er á konsertunum sem í boði eru fyrir jól og um jólin.

Kannski stuðlar títtnefnd aðventuspenna að því að þegar loksins jólin koma að þá gerumst við meyr vegna þess að við finnum hvað vantar upp á innan um öll veraldargæðin, við finnum að það er eitthvað sem við erum að sækjast eftir en áttum okkur samt ekki almennilega á hvað það er vegna þess að það er ekki eins áþreifanlegt og maturinn sem við borðum eða bílarnir sem við keyrum.

Sum okkar verða meyr þegar horft er upp í stjörnubjartan himininn á sjálfri jólanóttinni eða þegar við finnum lykt af nýrri bók og byrjum að lesa þegar allir aðrir eru sofnaðir. Þetta eru líka upplifanir sem fela í sér næmi fyrir hinu heilaga, fyrir því sem seður andann eins og þegar við upplifum þakklæti, vináttu, góðan hug, minningar og undir þær upplifanir ýta jólin, upplifanir og næmi fyrir því sem seður og við verðum eins og kindin sem byrjar strax að jarma um leið og bóndinn snertir fóðurtunnuna.

1,326