Íslenskri fjölskyldu vísað frá Noregi. Ástæðan? Hún var í leit að betra lífi
Íslenskri fjölskyldu var synjað um dvalarleyfi í Tromsö í Noregi þar eð sýnt þótti að fólkið væri einungis þangað komið í leit að betri lífskjörum.
Sömuleiðis var manni frá Djúpavogi vísað burt úr Kópavogi og til Vestmannaeyja þar sem hann hafði þegar atvinnu. Einnig var konu meinað að kaupa kjallaraíbúð í Karfavogi enda gat hún ekki sýnt fram á aðra ástæðu fyrir kaupunum en þá, að hún vildi að börn hennar gengju í Vogaskóla.
Eru þetta fáránleg dæmi? spyr Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur í grein í Fréttablaðinu í gær. Ekki fáránlegri en úrskurðir Útlendingastofnunar fyrr og síðar, segir hann.
Guðmundur Andri rifjar upp, að Ísland með öllum sínum auðæfum, lífsgæðum og mannréttindum sé ótrúlega lokað land. Í sama streng tóku þingmenn í umræðum á alþingi í gær, þar sem einnig var bent á hversu mikill efnahagslegur ávinningur væri að því að hingað flyttist fleira fólk.
Þar kom fram í máli þingmanna allra flokka, að gerbreyta þyrfti stefnu Íslands í innflytjendamálum, frá útlokun til opins faðms.
„Ísland er lokað land,“ sagði Guðmundur Steingrímsson í umræðunni. „Það var einhvern tímann ákveðið – eða var það ákveðið? – og hverjar eru forsendurnar fyrir því? Við sjáum ítrekað dæmi um fólk sem vill búa hérna, vinna og starfa, og vera með börnin sín í skóla hérna – það fær það ekki.
Jújú, þær ákvarðanir styðjast við einhverja lagaumgjörð, en af hverju? Hvað er slæmt við það, að fólk vill búa hér og leggja sitt af mörkum? Hefur sú spurning einhvern tíma verið rædd?“ spurði Guðmundur Steingrímsson.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021