trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 13/06/2014

Íslenskar Almannagjár

Eftir Margréti Erlu MaackMargrét Erla Maack

Dagarnir lengdust og svo kom júní. Kuldaleiðrétting síðasta sumars er sannarlega hafin með tilheyrandi freknum og sólarhangsi. Óli frændi minn hefur flutt skrifstofu sína á bakka Vesturbæjarlaugarinnar (mínus rottudaga) og ferðamennirnir í flísinu eru mættir. Sama í hversu stórum borgum þeir búa hika þeir ekki við að stoppa óforvarendis úti á götu til að taka myndir af litríkum húsum eða Hallgrímskirkju. Þeir fylla alla veitingastaði og kaffihús svo Þór Saari-inn sem blundar í okkur vaknar og fussar um að aldrei sé hægt að fá sæti. Samt vitum við innst inni að við Íslendingar trítum okkur svo sjaldan að það eru þessir ferðamenn sem halda stöðunum uppi.

Varúð. Hér á eftir verður nokkrum sinnum sagt „ríða“

Það eru ekki þessir túristar sem ergja mig. Það eru nefnilega ennþá að koma Dirty Weekend-túristar. Auglýsingin var keyrð fyrir meira en áratug. Þegar ég opnaði umræðu um þetta um daginn sagði vinur minn mér að auglýsingin „hefði ekki átt að vera um þetta“ heldur „hefði átt að vera fyrir pör til að sletta úr klaufunum“. Eitthvað hefur sú markaðs setning mistekist.

„Öðk, ég hef nokkrum sinnum lent í útlendingum sem spyrja mig til vegar, telja sig ekki vita hvar hótelið sitt sé. Þegar ég hef útskýrt fyrir þeim hvar hótelið er þykjast þeir ekki skilja og bjóða mér að sýna sér hvar hótelið sé, jafnvel gegn því að ég fái mér drykk með þeim á hótelherberginu. Drykkirnir á Íslandi eru jú, svo dýrir að maður getur ekki afþakkað svo gott boð? eða hvað… *dæs* “

Setta María

Internetið er fullt af heterónormatívum greinum um How to Score in Iceland og How to Land an Icelandic Beauty. Ég hef aldrei séð grein um hvernig á að næla sér í íslenskan strák. Ég fæ stundum gríðarlegt samviskubit að vera ekki að leggja lóð mitt á vogarskálarnar. Kannski væri íslenska krónan mun sterkari ef ég hefði bara farið heim með öllum þessum dónaköllum og lokað augunum og hugsað um Ísland.

„Mér líður stundum eins og þeir haldi að þeir hafi fengið aðgang að líkama mínum í kaupbæti með flugmiðanum.“

Klara Arnalds

Ég hef tvisvar látið færa mig til í flugvél því að mennirnir við hliðina á mér byrjuðu strax í fluginu. Einn frá New York, annar frá London. Ég hafði „þekkt“ þann fyrri í fjórar mínútur þegar hann eiginlega heimtaði að ég kæmi með honum inn á flugvélaklósettið. Hinn var örlítið opnari, þegar hann sá að umræða um að ríða mér féll ekki í góðan jarðveg var hann til í „other beautiful girls like you“.

„Ég lendi mest í þeim þegar ég er að DJ-a þá byrja þeir að spyrja spurninga sem hver og einn djammari gæti svarað þeim og eftir það standa þeir og stara og byrja svo að segja óviðeigandi hluti.“

Sigrún Skaftadóttir

Það er mælt með því í bókinni Bang Iceland að „króa stelpur af“ – útiloka þær frá vinum sínum. Stelpur sem starfa sem plötusnúðar, eins og Sigrún, eru þá þegar einar og komast ekki í burtu. Starfsstúlkur á bar hafa svipaða sögu að segja. Að ganga í gegnum skemmtistaði á þessum tíma árs þýðir að hrasa um túristastandpínurnar sem ýtast í lærið á manni. Farfuglarnir bjóða öllum stelpunum upp á skot. Fallega gert – en, ein greinin gefur einmitt þetta ráð: Hella þær fullar. Það hlýtur einhver að bíta á. Ef ekki núna, þá einhver helluð gella í eftirpartíi. Reyndar segir greinin líka að það sé ágætisregla að fara ekki heim með stelpu sem er svo full að hún geti ekki haldið uppi samræðum. Takk. Takk fyrir tillitssemina. Og einn penni birtir statistík: Ef þú reynir við 46 stelpur mun ein þeirra fara með þér heim.

„Einn Bandaríkjamaður sagði mér að hann hefði verið hérna í þrjá daga yfir helgi án þess að „fá að ríða“ og spurði mig hvað hann væri að gera rangt. Ég benti honum á að hér væri samkoma fólks en ekki kynfæra og sú vitneskja gæti jafnvel fleytt honum langt í þessu verkefni sínu.“

Gunnar Hrafn Jónsson

Ráðið sem sárvantar í þessar greinar er að þeir sem eiga í erfiðleikum með þetta á heimavelli eiga líka í basli annars staðar í heiminum. Í partíi síðustu helgi ræddum við vinirnir um að fara í bæinn. Við stelpurnar nenntum því ekki. „Ég nenni ekki dirty weekend-stemmingunni.“ Strákarnir furðuðu sig á því að þetta væri í alvöru vandamál. Eftir útskýringar og sögur, sem nota bene hver einasta stelpa átti, var ákveðið að sleppa bæjarferðinni. Enda er það líka orðið þannig á sumum stöðum að ef Íslendingur álpast inn finnst túristunum eins og þeir hafi séð fágætt dýr í safaríferð. Þeir fylgjast með hverri hreyfingu og hugsa „Lets see how the Icelandic person parties“. Oftast snýst það um að snúast á hæl og fara beina leið út aftur.

„Tveir menn kynntu sig fyrir mér. Eftir að hafa sagt þeim hvað ég héti spurðu þeir hvort ég vildi koma með þeim í threesome. Þegar ég hafnaði því kurteisislega urðu þeir móðgaðir og sögðu: „But wait – aren‘t you supposed to be, like, a slut?“

Unnur Eggertsdóttir

Ég held að þetta kvót sé mitt uppáhalds, því að þetta er akkúrat stemmingin. Þeir eru nefnilega ekkert að eyða tíma í að heilla konu upp úr skónum. Ég hef ekki enn fundið greinina sem gefur ráðið: KYNNTU ÞIG, OG SPURÐU SVO: VILTU RRRRRRÍÐA? en flestir farandhöstlerarnir sem ég hef átt samskipti við virðast hafa lesið þá grein. Sá skemmtistaður sem setur upp skiltið „No Dirty Weekend Tourists Please“ fær öll mín djammskipti í sumar. Annars sjáumst við bara á tjúttinu í haust.

Margrét Erla Maack, 12. júní 2014

1,783