trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 15/01/2021

Innan við múrvegginn

Karl Th. Birgisson skrifar

Til stendur að ráða forsetaritara. Hvaða djobb er það nú aftur?

Forsetaritari er ígildi ráðuneytisstjóra hjá forsetaembættinu, hjá þessum sirka tíu sem vinna þar.

Þessu starfi hefur gegnt Örnólfur Thorsson hin seinni árin og gert það vel, en mátt þola að hafa verið kallaður varaforseti í skensi.

Þetta er ekki átakastarf – í það minnsta ekki eftir að Ólafur Ragnar lét af embætti – en krefst nákvæmni, festu og reglu.

Forsetaritari er sumsé einn af þessum andlitslausu embættismönnum, sem eru þarna innan veggja og skipta máli, þótt við vitum ekki af þeim dags daglega og heyrum sjaldan af þeim.

Forsetaritari er þess vegna heppilegt starf fyrir síðmiðaldra fólk með þekkingu og reynslu, sem sækist síður eftir átökum en kann að standa á sínu.

Og nú á semsagt að ráða einn slíkan forsetaritara.

Skelfilegur listi umsækjenda

Að því sögðu er listi umsækjenda um þetta starf býsna fróðlegur.

Og þó ekki. Hann er á köflum alveg skelfilegur.

Umsækjendur eru um sextíu. Suma þekki ég ekkert, aðra vel, enn aðra lauslega, og restina aðeins af því sem ég hef séð til þeirra á opinberum vettvangi.

Listinn veldur mér allnokkrum ugg.

Þarna er nefnilega svo margt hæfileikafólk á bezta aldri, að það stappaði nærri landráðum að gera það að forsetaritara.

Við þurfum á öllu okkar fólki að halda, en ekki að senda það inn fyrir múrana á Staðastað, Sóleyjargötu númer eitt. Með fullri virðingu.

Hvaða fólk er þetta svo?

Ég neyðist sennilega til að nefna dæmi. Gerum það samt í stafrófsröð til að gæta jafnræðis. Og sleppum fjölmörgum hinna saklausu.

Sumir hinna seku

  • Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra. – Semsagt forstjóra Landspítalans. Hún á að verða næsti heilbrigðisráðherra vegna reynslu sinnar og þekkingar, ef við fáum aftur heilbrigða ríkisstjórn.
  • Ásgeir B. Torfason rekstrarhagfræðingur. – Síðast þegar ég vissi var hann lektor að reyna að berja inn í okkur einhverja skynsemi í alþjóða- og ríkisfjármálum. Það er átakanlegur skortur á slíku fólki.
  • Bergdís Ellertsdóttir sendiherra. – Sendiherra okkar í Washington við góðan orðstír? Hvað er Guðlaugur Þór að gera í utanríkisráðuneytinu, sem hrekur hana í fang forsetans?
  • Birgir Hrafn Búason yfirlögfræðingur. – Við sem héldum að Jón Steinar hefði einkarétt á starfsheitinu yfirlögfræðingur. Þessu náungi hefur líka unnið hjá Evrópudómstólum. Áfram þar, Búi Hrafn, eða í öðrum gagnlegri störfum en þessu.
  • Davíð Stefánsson stjórnsýslufræðingur. – Þessi gaur, já. Þegar hann var – mjög skammvinnt – ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins var loksins hægt að lesa leiðara þess. Þeir hafa heldur rénað síðan. Fer ekki að losna djobb á Mogganum? Altjent ættu ómældir hæfileikar Davíðs Stefánssonar að nýtast betur annars staðar. 
  • Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, starfandi yfirmaður samvinnusviðs mannréttindastofnana Evrópuráðsins. – Einmitt. Lesið bara starfsheitið. Lilja býr að einu heitasta réttlætishjarta landsins. Þann eld má bara alls ekki kæfa innan múra.
  • Gunnar Þór Pétursson prófessor. – Hér er nú einn enn (sem ég þekki ekki neitt). Lögmaður hjá stórfyrirtæki í Stóru bólu, fyrr og síðar hjá Evrópudómstólum, líka hjá rannsóknarnefnd alþingis. Augljóst talent sem þarf trúlega meira frelsi til, en ekki minna, að gera okkur meira gagn.
  • Kristján Guy Burgess stjórnmálafræðingur. – Piff. Einn af okkar snjöllustu og skýrustu greinendum um alþjóðastjórnmál (og íslenzk ekki síður, ef því er að skipta). Hvað dregur hann inn fyrir múrana? Og hvurn fjandann á það að þýða?
  • Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður. – Hér fallast mér eiginlega hendur. Vill þjóðminjavörður – stjórnandi einnar mikilvægustu menningarstofnunar þjóðarinnar – gerast aðstoðarmaður og baunateljari hjá forseta Íslands? Hvað veldur eiginlega?

Látum hér staðar numið.

–– –– ––

Þetta hefur verið hæfilega kæruleysisleg ferð yfir nöfn – og ég biðst forláts hafi ég sært einhvern óafvitandi.

Og enda eru þessi nöfn ekki meginefni málsins, heldur hitt:

Hvað veldur því að svo margt hæfileikaríkt fólk í blóma lífsins – uppfullt með þekkingu, reynslu og jafnvel vizku – það ákveður að sækja um starf forsetaritara?

Sem er ekki endilega mikilvægasta starf á Íslandi – með fullri virðingu, minn kæri Örnólfur.

Eflaust hefur hver og einn sína ástæðu, og ekki hvarflar að mér að þýfga þau um þær persónulega.

Eftir stendur samt spurningin: Hvers vegna? Þegar þau gætu gert samfélaginu svo margfalt meira gagn í öðrum störfum? Jafnvel áfram í störfum sem þau gegna nú þegar?

Hvers vegna vill hæfileikafólk draga sig í skjól?

Er eitthvað í tíðarandanum – hinni svokölluðu umræðu – sem knýr þau til þess?

Ég kann ekki svarið, hef kannske tilgátur, en ber aðeins fram eina.

–– –– ––

Ég nefndi múra hér að ofan. Það er ekki tilviljun.

Jón Helgason prófessor orti um tíma sinn í Árnasafni í Kaupmannahöfn á síðustu öld:

Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti,

utan við kvikaði borgin með gný sinn og læti.

Jón Helgason þoldi ekki gnýinn og lætin, barasta alls ekki. 

Er hugsanlegt að eitthvað svipað gildi um þetta afbragðsfólk hér að ofan og miklu fleiri? Að álagið og samfélagshávaðinn hreki það til að leita vars?

Vonandi hef ég rangt fyrir mér, en ef ekki – þá erum við í allnokkrum vanda.

Karl Th. Birgisson

1,448