trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 04/12/2014

Í útistöðum við vont fólk. Svona át búsáhaldabyltingin börnin sín

Margrét TryggvadóttirRitdómur – Svanborg Sigmarsdóttir

Með nokkurri einföldun getum við sagt að lærdómur frönsku byltingarinnar sé annars vegar að byltingin étur börnin sín og hins vegar að í kjölfar byltingar verða breytingar. Þær breytingar komast þó hvorki jafn hratt á og framvarðarsveit byltingarinnar vildi, né heldur verða þær breytingar sem kallað var eftir í upphafi. Þessum lærdómi gleymum við svo jafnharðan þegar að kemur að því að við viljum bylta og breyta.

Eftir að hafa lesið Útistöður (Hansen, 2014) eftir Margréti Tryggvadóttur virðist sem búsáhaldabyltingin hafi a.m.k. tekið nauðsynleg skref til að byltingin næði að éta börnin sín. Ekki er enn liðinn nógu langur tími til að meta á nógu heildstæðan hátt áhrif hrunsins og búsáhaldabyltingarinnar á varanlegar breytingar í samfélaginu þótt vissulega sé hægt að benda á eitt og annað.

Meðal þeirra sem vildu hvað róttækustu breytingarnar hafa vonbrigðin orðið mest. Hér sé allt að hverfa í sama horfið, sem muni að lokum leiða okkur aftur til glötunar. Staða lýðræðisins sé veik og „fjórflokkurinn“ hafi eitthvert ógnarvald yfir kjósendum og pólitísku valdi. Þetta er hópurinn sem Margrét talar meðal annars um sem „reiðasta fólkið á Íslandi“, hópurinn sem byggði upp Borgarahreyfinguna sem nýjan valkost kjósenda í kosningunum 2009 og náði inn fjórum þingmönnum. Var varla kominn á þing þegar flokkurinn klofnaði. Reyndi undir nafni Dögunar að sameinast aftur, með basli, en hafði ekki erindi sem erfiði í síðustu alþingiskosningum eða sveitarstjórnarkosningum.

Fyrir áhugamanneskju um smáflokka lýsir bókin mjög vel vandamálum smáflokka og þó svo að ekki sé fjallað sérstaklega um hið mikla vantraust sem dreifðist um allt samfélagið, lýsir bókin því hvernig vantraustið varð svo yfirgnæfandi tilfinning að það gróf ekki bara undan því kerfi sem fyrir var, heldur kom í veg fyrir „eitthvað nýtt“ og samstöðuna um „Nýtt Ísland“. Vantraustið náði ekki bara til gamla kerfisins, heldur líka til samherja og hins nýja þingflokks og kom þannig í veg fyrir nauðsynlega samstöðu sem er grunnurinn ef á að byggja eitthvað nýtt.

Klassíski vandi Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar virðist hafa verið skortur á gæðum til að útdeila. Margrét heldur því fram að vandi smáflokksins hafi verið of miklir peningar til að höndla með. En á sama tíma lýsir hún því hvernig er brugðist við þegar í ljós kemur að aðeins annar armur upphaflegrar Borgarahreyfingar kemst á þing. Hinn armurinn situr eftir valdalaus gagnvart þingmönnum flokksins sem kusu á Alþingi samkvæmt eigin sannfæringu, eins og rétt er.

Þegar baklandið telur sig loksins vera búið að finna leið til að hafa einhver skipulögð áhrif á þingmenn og völd inn á Alþingi, segir þingflokkurinn sig úr Borgarahreyfingunni. Við lesturinn varð mér nokkrum sinnum hugsaði til þess þegar að Frjálslyndi flokkurinn logaði stafnana á milli vegna þess að maður úr röngum armi var ráðinn vefstjóri, í eitt af fáum launuðum störfum flokksins.

Margrét gengur mjög langt í að birta tölvupósta og endurrekja samtöl við samflokksmenn sína og kjarninn í bókinni er samstarfið innan Borgarahreyfingarinnar, Hreyfingarinnar og Dögunar. Það er líka greinilegt að „vonda fólkið“ eru mestmegnis fyrrum samherjar. Á fyrstu blaðsíðunum vitum við að Guðmundur Andri Skúlason og Gunnar Sigurðsson, sem báðir voru framarlega í Borgarahreyfingunni, eru ekki vinir Margrétar. Það er aðeins ýjað að því að Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sé í „óvinaliðinu“. Sömuleiðis fáum við að vita að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrum þingforseti og þingmaður Samfylkingarinnar, sé ekki náðinni þó það sé aðallega með lýsingum á því að hún kunni ekki að stýra veislum með erlendum gestum með jafnmiklum skörungsskap og Ólafur Ragnar Grímsson. Að öðru leyti er lítið fjallað um nafngreinda þingmenn annarra flokka en meira púður fer í að ræða samherjana.

Mesta dýnamíkin virðist vera í samskiptum Margrétar og Birgittu Jónsdóttur, nú kapteins Pírata. Í samskiptum við Birgittu er heimur Margrétar loks ekki svart/hvítur. Birgittu ekki lýst sem nánast alvondri, eins og Guðmunda Andra, eða algóðri eins og Þór Saari eða Þórði Birni Sigurðssyni, starfsmanni þinghóps Hreyfingarinnar. Margrét virðist hafa átt í einhverjum erfiðleikum með að skilja Birgittu og eiga við hana samstarf en samt vill hún ítrekað reyna að koma þeim skilaboðum á framfæri að aðskilnaður þeirra tveggja hafi ekki verið persónulegur, að þrátt fyrir allt og augljós sárindi sé henni vel við Birgittu. Oft hefur lesandinn það á tilfinningunni að hún hefði viljað vera gagnrýnni, en ekki getað það af óljósri ástæðu.

Undir lok bókarinnar kemur áhugaverður kafli um tilraunir til að sameina smáflokkana undir merkjum Dögunar. Þar eru að finna nokkuð ítarlegar lýsingar á persónulegum deilum í þessum tilraunum. Vonbrigði Margrétar með kjósendur skyldu ganga fram hjá Dögun eru nánast áþreifanleg. Það átti að vera búið að laga allt sem fór úrskeiðis í Borgarahreyfingunni. Mikil vinna fór í málefnavinnu og skipulagið var skýrt. Svo komu bara einhverjir aðrir flokkar, sem hnoðuðu saman stefnuskrá sinni korter í kosningar, og stálu af þeim kjósendum. Þrátt fyrir að Dögun hefði bestu stefnuna og besta fólkið.

Svanborg SigmarsdóttirLesandinn er samt skilinn eftir í tómarúmi og er engu nær um það hvað mistókst með Dögun og fer að efast um að skýringar Margrétar um mistök Borgarahreyfingarinnar dugi til. Af hverju varð Dögun ekki að umbótaafli? Og af hverju höfnuðu kjósendur Dögun? Ég get svo sem haft mínar skoðanir á því en það hefði verið gaman að heyra innanbúðarskýringar konu sem var þarna í innsta hring og þá eitthvað annað en aðrir flokkar hafi stolið af þeim fylgi því eins og hún ætti að vita þá virkar gott lýðræði þannig að flokkar eiga ekkert fylgi.

Það er örugglega klisja að tala um að bók, sem höfundur gefur út sjálfur, skorti ritstýringu. En eins og með flestar klisjur reynist í þeim sannleikur. Í bókinni eru kaflar sem hafa engan skýran tilgang, nema rétt til að minnast á helstu deilumálin. Kaflarnir „Það sem þjóðin á að eiga“ og „Örvænting í atvinnumálum“, bls. 381-411 eru dæmi um slíka kafla. Í bókinni eru líka frásagnir þar sem einhver hefði getað pikkað í Margréti og sagt; „maður segir ekki svona“. Það er eitt að gagnrýna fyrirkomulagið sem ríkti við styrkveitingar Alþingis. Það er annað að gera lítið úr fólki sem var að reyna að byggja upp túrisma og atvinnulíf í sinni heimasveit og fylgdi þeim leikreglum sem giltu á þeim tíma.

Útistöður er vel læsileg og mikilvæg viðbót í hinn sístækkandi „hrunbókaskáp“. Auðvitað er hún ekki gallalaus og á köflum þyrstir lesandann í meira. En ég er viss um að þarna einhvers staðar úti er einhver sem mun fylla upp í eyðurnar með frásögnum sínum úr byltingunni og grasrótinni og þær sögur verða ólíklega samhljóða frásögn Margrétar að öllu leyti.

Bók Margrétar fær þrjár stjörnur fyrir hreinskilni hennar.

Flokkun : Efst á baugi
2,399