trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 01/09/2015

Í Köben árið 1973

Eftir Benedikt JóhannessonBenedikt Jóh.

Siggi Kristjáns vinur minn varð sextugur um helgina. Eða þá hélt hann að minnsta kosti upp á afmælið sitt. Í gamla daga var hann nokkrum mánuðum eldri en ég, en samkvæmt þessu er ég kominn framúr honum sem ég vissi að tækist með þolinmæðinni. Í veislunni nefndi ég ferð sem við fórum til Danmerkur fyrir rúmlega fjörutíu árum, en henni var hann að mestu búinn að gleyma þannig að það er borin von að hann skrifi ferðasöguna úr því sem komið er. Það hlýtur því að falla í minn hlut.

Árið 1973 var Kaupmannahöfn nafli alheimsins í augum átján ára menntaskólanema. Þess vegna var það himnasending þegar Guðrún systir mín bauð mér að vera hjá sér í tvær vikur. Ekki man ég hvernig það talaðist til milli okkar Sigga að við færum saman, en hvernig sem það var nú vorum við komnir út á flugvöll og biðum eftir leiguflugvél á vegum Landsmálafélagsins Varðar. Á þessum árum voru engin lággjaldaflugfélög, en stundum tóku félög heila vél á leigu og gátu selt sæti á lágu verði gegn því að fylla vélina.

Við vorum ekki flokksbundnir, en hvort sem það var að hverjum sem er var hleypt inn eða mamma keypti fyrir okkur miðana sluppum við í hópinn. Vélinni seinkaði eins og öllum íslenskum vélum á þessum tíma við mikinn fögnuð farþega sem sátu á barnum og þömbuðu bjór, sem bragðaðist afskaplega vel vegna þess að hann var bannaður.

Eftir fimm glaða tíma var loks lagt í hann og ekki var veislan daufari í vélinni. Flugfreyjur voru á þönum með drykki til landans sem byrjuðu draumaferðina með því að drekka sig eins fulla og hægt var á flugi, sem líklega hefur tekið lengri tíma þá en nú á dögum. Þessi fimm aukatímar á barnum í gömlu flugstöðinni voru eins og bónus, sem enginn lét aftra sér við neysluna þegar á loft var komið.

Við hlið okkar Sigga sat fjörugur náungi. Hann hafði verið nokkrum árum á undan okkur í menntaskólanum og var aldeilis glaður að hitta unga og eftirtektarsama menntskælinga. Hann sagðist á hverju ári fara til Danmerkur. Þar gisti hann ætíð hjá vinum sinum í Kristjaníu og neytti með þeim ýmissa efna sem erfitt var að fá á Íslandi. Svo kæmi hann alltaf heim með vetrarforða.

Við hlýddum með athygli á þetta, sérstaklega hvernig hann útlistaði fyrir okkur í smáatriðum dásemdir vímunnar, því að þetta var greinilega fagmaður. „Þið ættuð endilega að prófa hass.“ Hann hringdi ótt og títt í flugfreyjuna strax og farið var að lækka í glasinu hans. Svona hlaut að eiga að gera þetta.

Fyrir eitthvert kraftaverk held ég að allir hafi komist út úr vélinni og ekki man ég til þess að nokkur hafi verið orðinn veikur, þrátt fyrir vasklega drykkju. Það var ekki fyrr en við vorum lentir að mér hugkvæmdist að kannski væri það ekki við hæfi að vera áberandi við skál þegar maður tæki fyrstu sporin á erlendri grund. Hvernig sem á því stóð held ég að við höfum verið tiltölulega penir og prúðir þegar við komum út á flugvöllinn.

Ernst mágur minn átti bíl og í honum ókum við á Öresunds-kollegíð þar sem þau bjuggu. Í búðunum á leiðinni sá ég að sums staðar stóð Tilbud. Í einfeldni minni spurði ég hvort þetta þýddi að maður ætti að gera tilboð í vörurnar í þessum verslunum.

Fyrsta daginn gengum við niður í bæ. Það var hæfilega löng leið fannst okkur, tók kannski þrjú kortér niður á Kóngsins nýja torg. Við þurftum auðvitað að fara í banka til þess að skipta gjaldeyrinum okkar sem var í ávísun. Önnur var frá Landmandsbanken, en ekki man ég hvaðan hin var, en báðar urðu þær að að brakandi seðlum og okkur voru allir vegir færir.

Fyrsti áfangastaðurinn hlaut að vera Sívali turn. Þangað hafði mig langað alla tíð síðan ég las ævintýri Nonna í Kaupmannahöfn. Ég man hvað mér fannst breiðstrætið þangað langt, en eins og menn muna þurfti kóngurinn að komast alla leið upp í hestvagninum sínum. Það hefur verið þrautin þyngri að snúa honum svo við meðan kóngurinn virti fyrir sér borgina.

Strikið var ævintýri líkast. Rétt eins og núna. Eflaust voru það ekki sömu hlutir sem hrifu okkur þá og síðar, en búðirnar seldu útlenskar vörur sem ekki fundust á Íslandi. Ég var spurður í búð hvort ég væri Jóti og var óskaplega ánægður með að tala svona fína dönsku að menn héldu að ég væri Dani, þangað til ég heyrði í Jóta nokkrum árum seinna og skildi ekki eitt einasta orð. Þar voru svo margir Íslendingar að eftir nokkra daga hætti maður nánast að heilsa þeim.

Hafmeyjan var auðvitað líka skylduskoðun. Einhver hafði sagað af henni höfuðið nokkrum árum áður, en það var komið á sinn stað.

Um kvöldið fórum við á Dyrehavsbakken – Bakkann. Þetta var síðasta kvöldið sem þessi skemmtilegi garður var opinn og Ernst sagði okkur að þá væru oft læti þegar Hells Angels og Bandiots færu að slást. Það klikkaði ekki þetta kvöld. Borð og stólar voru í ljósum logum og blóðugir menn í leðurjökkum gengu ógnandi um svæðið. Enginn hafði þó áhuga á því að berja tvo sveitadrengi frá nýlendunni fyrrverandi.

Í stóru tjaldi var boðið upp á sýningu, sem kynnt var á dönsku og ég skildi ekki vel hvers var að vænta. Hún hét De to kvindeliga forbrydere i mudderbadet. Í ljós kom að þetta var íþróttakeppni sem minnti nokkuð á íslenska glímu. Keppendur voru eins og nafnið benti til tvær stúlkur, en í stað venjulegs glímubúnings voru þær í nærbuxum einum fata. Völlurinn var leirsvað og keppnin gekk út á að að færa andstæðinginn úr keppnisgallanum.

Er ekki að orðlengja það að keppnin var ákaflega löng og spennandi og ýmsum brögðum beitt þar til Nínu tókst að fella Lísulottu og ljúka leiknum við ákafan fögnuð áhorfenda. Þessi keppni minnir svolítið á mýrarboltann og ég er sannfærður um að hún gæti náð vinsældum hér á landi.

Kvöldinu lauk með því að ég fór í hringekju þar sem maður sat í vagni á hjóli sem snerist í hring og auk þess snerist vagninn. Ofan á allt saman lyftist svo grunnurinn og hallaði á ýmsa lund. Aldrei hef ég komist í hann krappari á lífsleiðinni, en svo vel vildi til að ég vissi að þessi kvöl og pína yrði ekki endalaus, því fimm mínútur voru nákvæmlega tilgreindar þegar ég keypti miðann og ég sá á úrinu að lítið var eftir. Tilkynnir þá ekki karlskratti í hátalarakerfið að vegna þess að þetta sé síðasta hringekjuferðin þetta sumar fáum við fimm mínútur aukalega.

Náhvítur og fár skjögraði ég burtu og hugsaði með mér að enn héldu Danir áfram að pína okkur. Sexhundruð ár voru greinilega ekki nóg.

Þura mágkona mín var í Kaupmannahöfn að passa lítil frændsystkin sín þetta sumar. Við hittum hana auðvitað, en þegar við spurðum eftir henni hjá Huldu frænku þeirra Vigdísar þá var hún ekki heima. Víði, eiginmanni Huldu, sem kom til dyra leist hæfilega vel á þessa pilta sem þarna komu, síðhærðir og einkennilegir, annar hafði meira að segja falið sig bak við hurð, sagði hann. Hurðin á Otto Mönsted íbúðinni opnaðist út og ég stóð til hliðar og lenti bakvið hana í þessu stutta samtali. Svo liðu níu ár þangað til ég sá Víði aftur og hann mig í fyrsta sinn. Síðan erum við góðir vinir.

Þura fannst nú samt á endanum, en í næsta húsi við stúdentagarðinn var illræmt fangelsi, Vestre fængsel. Hún var nú ekki þar heldur í hinum enda lystigarðs sem þarna er í minningunni. Beint á móti garðinum var Tuborg-verksmiðjan, en við vorum ekki svo aðframkomnir að þurfa að stoppa í henni.

Við gengum niður í bæ og þá urðum við ósammála í eina sinnið í ferðinni. Á leiðinni var búlla sem hét Café Fremtiden. Af því ég var þetta árið forseti í málfundafélaginu Framtíðinni í MR fannst mér upplagt að Siggi tæki mynd af mér þar fyrir framan til að sýna að hróður félagsins bærist víða (ég hefði þá verið einum þremur áratugum á undan hinum víkingunum að færa starfsemina til útlanda), en það tók hann ekki í mál og því er ekkert sönnunargagn til um þessa útrás mína.

Um kvöldið fórum við öll saman í tívolí. Ekkert var hægt að gera skemmtilegra í Kaupmannahöfn. Ég man eftir Det muntre kökken, þar sem maður gat brotið diska og bolla með því að henda í þá kúlum. Ég held ég hafi ekki unnið nein verðlaun þetta kvöld, en til er mynd af okkur þremur tekin í ljósmyndakassa þar sem við erum ákaflega ábúðarfull.

(Af hverju var Vigdís ekki með í ferðinni? Því er til að svara að hún var í annarri heimsálfu, hafði farið til Bandaríkjanna þetta sumar í sitt ævintýri)

Nokkrum dögum seinna kom hljómsveitin Moody Blues til Kaupmannahafnar og við hlustuðum á hana. Hún flutti öll sín bestu lög og sagði tíu sinnum: „Nú erum við í fyrsta sinn í Kaupmannahöfn á átta ára ferli. Think about it! Eight years and the first time in Copenhagen. We love you.“ Svo sungu þeir: „Never thought I‘d live to be a million.“ Þetta var skemmtilegt kvöld.

Ragnhildur Pálsdóttir frænka kom til Kaupmannahafnar þessa daga til námsdvalar um veturinn. Við hittum hana einu sinni í bíó. Við fórum tvisvar í bíó og sem betur fer hittum við hana á einhverri bandarískri hasarmynd en ekki Síðasta tangó í París. Það var ekki beinlínis mynd til þess að hitta gamla frænku sína (hún var að verða 25 ára gömul).

Danir gengust mikið upp í allskyns kynlífssýningum á þessum árum. Eitt kvöldið vorum við á heimleið á Strikinu. Vatt sér þá að okkur hávær maður með blöðunga sem lýstu dásamlegri djarfri sýningu sem boðið var upp á í hliðargötu. Hann taldi einsýnt að þetta væri skemmtun við okkar hæfi. Hvort sem við ræddum það nú lengur eða skemur þá fórum við ekki heldur héldum heim á leið. Blöðunginn braut ég hins vegar vandlega saman og setti í brjóstvasann.

Heima á garðinum var partý hjá Guðrúnu og Ernst þar sem þau höfðu boðið dönskum vinum sínum. Við vorum sannarlega til í gleðskapinn og kjaftaði á okkur hver tuska. Lítill áhugi reyndist þó á því að spjalla við okkur fyrr en ég dró upp blöðunginn góða og sagði að við hefðum eytt kvöldinu á Live-show, en það hétu þessar sýningar. Þetta vakti verðuga athygli en aðspurð sagðist ekkert þeirra hafa farið á slíkan menningarviðborð. „Það er svona þegar maður getur alltaf farið þá frestar maður því þangað til síðar. Desværre“ Ég lofaði hins vegar sýninguna á alla lund, en einn Daninn las íhugull af blaðinu og taldi að við hefðum verið hlunnfarnir, það væri örugglega hægt að fara á miklu betri sjóv. „Maður hefur þá eitthvað að gera annað kvöld“, sagði ég og naut aðdáunar innfæddra fyrir þetta mikla hispursleysi.

Í partýinu var mér boðið upp á viskí sem ég drakk í fyrsta og eina sinn á ævinni. Næsti dagur á eftir var afar kvalafullur. Náfölir ráfuðum við um miðbæinn en fundum engan stað betri að stoppa á en kaffiteríuna á Illums. Þar drukkum ráðsettar frúr á sjötugsaldri kaffi og horfðu á þessi fölbleiku viðundur með blöndu af undrun og forakt.

Máltíðin gerði okkur þó svo gott að ég keypti mér gallajakka á leiðinni út, svonefndan Maó-jakka. Hann passaði náttúrlega ekki alveg og ég þurfti að láta laga hann eitthvað. Nokkrum dögum seinna komum við aftur til þess að sækja jakkann sem passaði þá eins og sniðinn. Ég vippaði mér í hann og var með gamla jakkann á öxlinni þegar ég vappaði áleiðis út, gæjalegur eins og Lennon sjálfur væri á ferð. Vill þá ekki vetur til en maður bankaði á öxlina á mér. Lennon var stoppaður fyrir búðaþjófnað, enda afar grunsamlegur í útliti. Svo vel vildi til að í jakkavasanum var nóta sem ég teygði mig í og snaraði fagmannlega fram. Búðarmaðurinn baðst innilega afsökunar og bukkaði sig og beygði. Það var ekki fyrr en ég kom út að ég sá að þetta var breytinganóta sem sannaði ekkert um að ég hefði greitt, þannig að það var fasið sem bjargaði mér. (Skyldi hann hafa borgað?)

Mogginn var seldur á Höfuðbanagarðinum (Hovedbanegården). Þar sáum við einn daginn að Magnús Torfi menntamálaráðherra hafði eyðilagt fyrir okkur hálfsársnám í menntaskólanum með því að afleggja zetu í íslensku. Þá var nú eins gott að vera hættur að kalla sig Zoega.

Við fórum til Malmö einn daginn í ferjunni. Þar hittum við nokkra skólafélaga, Össur Skarphéðinsson og Árnýju sem nú er kona hans, Sigurbjörn Björnsson og Viggó Gíslason. Í Svíþjóð stóðu fyrir dyrum kosningar með plakötum um alla veggi. Össur kyrjaði hárri raust: „Rösta Gösta.“ Annar hvor þeirra Viggó eða Sibbi hafði verið stoppaður af tollgæslunni við komuna til Malmö og leitaður hátt og lágt. Þó að leitin hafi ekki borið tilætlaðan árangur báru þeir eftir þetta svo mikla virðingu fyrir sænsku löggæslunni að þeir þögguðu snarlega niður í utanríkisráðherranum verðandi. Enda var vart annað hægt en að óttast laganna verði, sem voru sýnilegir á hverju götuhorni í Malmö gráir fyrir járnum, en í Danmörku hefur ekki sést til lögregluþjóns í áratugi fremur en á Íslandi.

Síðar fórum við til Helsingjaeyrar og fetuðum í fótspor Hamlets, ef hann var þá til. To be or not to be, that is the question. Mér hefur alltaf fundist það athyglisvert að sagt er að Hamlet og amlóði sé samstofna og tengi það í huganum við sögum sem gerðist fjórum árum síðar þegar við Vigdís komum í Krónborgarkastala. Við miðasöluna var miði sem á stóð á mörgum málum skilaboð: English spoken. Wir sprechen Deutch. parlons francais og svo framvegis. Mér fannst liggja beint við að spyrja manninn í afgreiðslunni: Taler De dansk? Honum var ekki skemmt.

Það varð sorglegur atburður í Kaupmannahöfn þegar við vorum þar. Hafnia-hótelið brann og 35 manns fórust. Hótelið var skammt frá Ráðhústorginu og við höfðum gengið framhjá því á ferðum okkar og sáum það svo brunnið. Síðar kom í ljós að kveikt hafði verið í því.

Á endanum þurftum við að fara heim aftur og á flugvellinum varð okkur hugsað til vinar okkar sem hafði eytt tímanum í Kristjaníu. Við höfðum ekki heimsótt hann og satt að segja stóð okkur hálfgerð ógn af þessu hverfi. Á hverjum degi gengum við framhjá því og tókum á okkur krók yfir götuna til þess að lenda örugglega ekki í hassreyk.

Viti menn, þarna var hann í sinnepsgulum jakkafötum með vesti og kinkaði til okkar kolli úr fjarlægð. Ekki sá ég hann svo mikið sem þefa af áfengi á heimleiðinni, en þá sátum við reyndar ekki hjá honum. Þessi fíni maður slapp auðvitað gegnum tollinn með sinn hassforða fyrir veturinn.

Við Siggi vorum hins vegar stoppaðir, þessir prúðu piltar.

Þannig var að við höfðum í vélinni farið með rulluna frá Kristjaníuvini okkar fyrir skólasystur okkar sem voru líka á heimleið. Árvökul flugfreyja hefur tekið eftir því þegar ég sagði hátt og snjallt í sögunni: „Þið ættuð endilega að prófa hass.“

Leitin kom fyrir lítið nema þeir tóku af mér sjerrí sem ég hafði keypt og ætlaði að gefa mömmu. Siggi var sakleysislegri og og slapp með sinn skammt.

Kristjaníuvininn hvorki heyrði ég né sá fyrr en áratugum síðar. Þá var hann orðinn skattheimtumaður úti á landi. Það er ekki einkennilegt þó að vegir skattsins séu órannsakanlegir.

Benedikt Jóhannesson, heimur.is, 31. ágúst 2015

1,255