trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 05/05/2014

Í hvoru liðinu ertu? Um frystikistu kalda stríðsins og sérhagsmuni

Eftir Einar KárasonEinar Kárason

Það líður tæpast sá dagur að í staksteinaskrifum Morgunblaðsins og samsvarandi dálkum sé ekki minnst á Samfylkinguna, og það í miður vinsamlegum tón. Því súrari og beiskari sem þau skrif eru, því oftar er minnst á Samfylkinguna; allt sem fer í pirrurnar á Staksteinum virðist frá Samfylkingunni komið eða henni að kenna. Eins og allir vita hafa gamlir öfgamenn, bæði af hægri og vinstri kanti stjórnmálanna; gamlir jálkar úr frystikistu kaldastríðsins og dimmustu skúmaskotum Framsóknar, myndað með sér hreyfingar og halda úti áróðri gegn hverskyns breytingum og framförum, og þeirra höfuðfjandi er augljóslega Samfylkingin, það má lesa úr öllum þeirra skrifum og ályktunum – sumir blogga oft á dag og aldrei láta þeir hjá líða að kenna Samfylkingunni um það sem þeim ekki líkar. Ef gagnrýni, næstum sama hvaðan hún kemur, fer í taugarnar á núverandi ráðherrum þá kalla þeir slíkt nær undantekningarlaust Samfylkingaráróður og Samfylkingarspuna. Við þurfum nú ekki að nefna suma öfgamenn sem mest hringja í útvarp Sögu eða þá hálffasista sem duglegastir eru á kommentakerfunum – aldrei verða orð þeirra svartari og beiskari en þegar þeir tala um Samfylkinguna.

En þótt Framsóknarmenn kalli pólitíska gagnrýni „loftárásir“ skulum við Samfylkingarmenn ekki kveinka okkur þessu. Það er nokkurs virði að sótsvörtustu íhaldsöflin séu með flokkinn á heilanum. Með öðrum orðum: Þeir sem aðhyllast einokun fárra á auðlindunum, einagrun landsins, kvóta, bönn og höft; það samansafn íhalds- og afturhaldsmanna bæði af hægri og vinstrivæng stjórnmálanna sem talar einni rödd gegn framförum og nútímahugsun – fulltrúar gamla kaupfélagsveldisins og stórbænda, stórbokkar jafnt sem gamlir stalínistar – þessi öfl eiga sér einn skilgreindan óvin, og það er Samfylkingin.

Ég er ekki alltaf sammála Samfylkingunni og mér fellur misvel við kjörna fulltrúa hennar. En þar sem ég er andstæðingur þeirra íhaldsafla sem agnúast mest út í hana þá finnst mér ekki koma til greina að kjósa eða styðja aðra hreyfingu. Hvenær æsa Mogginn eða forsætisráðherra sig yfir Bjartrar framtíðar-spuna? Hvenær rífast Evrópuvaktin eða innhringjendur á Sögu yfir Píratáróðri? Raunar er eina gagnrýnin á sumar aðrar hreyfingar sem heyrist frá nefndum röddum að nýrri flokkar séu bara „Samfylkingarframboð.“

Ætli menn sér að berjast gegn sérhagsmunum og íhaldi, þá kjósa þeir að sjálfsögðu Samfylkinguna. Að kjósa Samfylkinguna er að gefa gamla afturhaldinu langt nef.

Einar Kárason, 4, maí 2014

1,293