trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 30/10/2016

Í blóðbaði

Framsóknarmaðurinn mummi skrifar á Vegginn (Veggurinn.is), stuðningsvef Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi:

„Sigmundur Davíð hefur rekið sína pólitík á hugsjónum og framtíðarsýn … með þeirri nálgun á stór og smá málefni hefur hann bæði náð árangri og fengið fjölda fólks á sitt band og Framsóknarflokksins … Sigurður Ingi er hins vegar ekki þekktur fyrir neitt af þessu. Hann mun því mögulega þurfa að laða fólk til fylgilags með hinum hefðbundnu aðferðum stjórnmálanna, útdeilingu embætta og valda.10384895_373387446188180_4029887904585977906_n

Það kemur því ekki mikið á óvart að vikurnar fyrir landsfund Framsóknarflokksins og á fundinum í Háskólabíó sáust ýmsir gamlir kunningjar landsmanna, meistaraflokksmenn í þeim skiptimyntarleik, beita sér fast fyrir Sigurð Inga.

Meðal framáfólks (sic) flokkseigenda í þessum hópi voru fyrrverandi þingmenn eins og Valgerður Sverrisdóttir, Jón Sigurðsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Jónína Bjartmarz, Siv Friðleifsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Dagný Jónsdóttir og Sæunn Stefánsdóttir, að ógleymdum hinum þrautreyndu plotturum flokksins í Suðurkjördæmi þeim Guðna Ágústssyni og Finni Ingólfssyni.

Þessir gullslegnu fulltrúar 2007 hópsins virðast nú hafa snúið aftur til að hefna þess að hafa misst völdin í flokknum í byrjun árs 2009. Hópur sem sagt er að hafi lítið sést í starfi flokksins undanfarin ár þar til nú að fjölmennt var á flokksþingið rétt fyrir formannskjör.

Það segir að minnsta kosti sína sögu að allir þrír núlifandi fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins, Jón, Valgerður og Guðni, studdu Sigurð Inga gegn Sigmundi Davíð, manninum sem tók af þeim völdin 2009.

Það vakti einnig að sögn viðstaddra töluverða athygli í Háskólabíó að sá sem fyrstur stökk upp úr sæti sínu og fagnaði mest allra þegar kjör Sigurðar Inga var tilkynnt var Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri og helsti stuðningsmaður Höskuldar Þórhallssonar, sætabrauðsdrengs flokkseigendanna frá 2009 sem fyrstur manna skoraði opinberlega á Sigurð Inga að bjóða sig fram gegn Sigmundi nú.“

„Allir vita þó að baktjaldavinnubrögð hafa samt ekki þótt óþekkt hjá aðilum innan Framsóknarflokksins og sumir þeirra virðast hafa skotið upp kollinum í kring um formannskosninguna á dögunum … Heimildarmenn Veggsins (sic) í röðum almennra flokksmanna segja fullum fetum að þarna hafi aftur verið um augljósa baráttu grasrótarinnar við flokkseigendafélagið þar sem grasrótin hafi tapað fyrir margreyndum klækjastjórnmálamönnum. Því til stuðnings megi nefna fjölda facebook statusa og umræðna sem átt hafi sér stað dagana fyrir og eftir formannskjörið sem sýni svart á hvítu að fjölmargir stuðningsmenn Sigmundar í grasrót flokksins hugsi nú alvarlega sinn gang eftir að 2007 hópurinn hafi náð völdum í flokknum á ný. Nú spyrji menn sig hvort að flokkurinn muni hverfa aftur til tíma innvíga og klækjabragða eins og á árunum 2006-2009.“

„Þegar Framsóknarmenn vakna í dag munu þeir því standa frammi fyrir mikilvægri spurningu:

Á núverandi formaður Framsóknarflokksins, sem efndi til og barðist til valda í blóðugustu og opinberustu bræðravígum sem flokkurinn hefur séð í tugi ára, fjórum vikum fyrir kosningar, að axla strax ábyrgð á því að fylgi flokksins nær ekki upp fyrir 12% í kosningum?

Eða eiga einhverjar aðrar leikreglur að gilda fyrir nýjan formann en þá sem á undan komu?

Hver sem niðurstaðan verður er ljóst að Framsóknarflokkurinn er klofinn í tvennt og mun glíma næstu árin við sams konar innanhússblóðbað og Samfylkingin hefur gert undanfarin ár í kjölfar endurtekinna valdabardaga milli fylkinga um formannsembættið.“

 

Þetta er framsónarmaður að skrifa um framsóknarmenn, flokkinn sinn, félaga sína. Af skrifunum  er varla hægt að draga aðra ályktun en þá að það sé ærið áhættusamt fyrir stjórnmálamenn annarra flokka að setjast í ríkisstjórn með framsóknarmönnum á meðan þeir eru í sjálfvöldu blóðbaði.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,604